Skortur á einbeitingu hjá Mika Hakkinen ? Spurningar hafa vaknað um einbeitni Mika Hakkinen í kjölfar þess að hann náði einungis fimmta sæti í kanadíska kappakstrinum um helgina. Flestir höfðu gert ráð fyrir að MH myndi verða í fremstu röð að berjast um að verða annar ökumaður sem nær þeim árangri að verða heimsmeistari þrjú ár í röð, en þeim árangri náði Fangio á árinu 1956. Það er í raun lítið hægt að segja um árangur Hakkinen í Montreal. Bæði í tímatökunum og í keppninni sjálfri leyfði hann sviðsljósinu að skína glatt á David Coultard, sem veitti Michael Schumacher harða keppni um ráspól, en það hefur verið verkefni Mika Hakkinen til þessa. Sögusagnir um að Hakkinen og kona hans eigi von á erfingja hafa fengi byr undir báða vængi og telja menn að Hakkinen sé að aka varlegar af þeim sökum. Hakkinen neitar því staðfastlega að hann sé ekki eins einbeittur núna og á sama tíma í fyrra, þegar hann stefndi að því að vinna seinni heimsmeistaratitil sinn. “Langanir mínar hafa breyst örlítið en það þýðir ekki að ég sé orðinn hægfara fyrir vikið”, sagði hann í varnartón í nýlegu viðtali. “Ég er enn sama persónan og áður en síðustu tvö ár hafa vissulega breytt því hvernig ég lít á hlutina”. Hann viðurkenndi að David Coultard leiddi liðið núna í baráttunni um heimsmeistaratitilinn og sagði í gamansömum tón, “Allir eru á móti mér núna, ég hef unnið tvo titla og allir vilja að David vinni núna”. Hann hélt síðan áfram, “En ég er að gera mitt besta og eftir að hafa unnið tvö ár í röð þá verður fólk að skilja að það er mjög erfitt verkefni”. “Markmið mitt er ennþá að vinna þriðja heimsmeistaratitilinn”, bætti hann við. “Ef til vill er ekki eins mikill þrýstingur á mér og árin 1998 og 1999 og ég rólegri þess vegna, en ég verð að fara að taka mig saman í andlitinu og ná stigum af Michael (Schumacher)”.