….. hafa komið hér fram há flugvallarvinum. Mörg hver ágæt en enn fleirri lýsa djúpri fávisku á málefninu. Hér hafa menn verið að bera andstæðingum flugvallarins afbrigðilegar hneigðir eins og öfund í garð þeirra er stunda flug og fleirra í þeim dúr. Ahh! Ég held ad slíkar tilfinningar séu ekki að plaga mig né þá sem taka málefnalega afstöðu gegn flugvellinum. Ekki ætla ég ad saka þá sem ekki hafa sömu áhugamál og ég um öfund í minn garð.
Ein af sterkustu rökum flugvallavina eru m.a. þau að flugvöllurinn hafi verið á þessum stað svo lengi. Við getum nú fundið ótal dæmi um starfsemi sem þarf að víkja vegna breyttra aðstæðna. Reiðgötur vikið fyir bílvegum áður fyrr og á seinustu áratugum hafa eflaust ótal flugvellir verið færðir, vegna þess að um óhemju landfreka starfsemi er að ræða, þar sem byggðin þéttir að. Og svo má líka nefna alla flugvellina sem hafa verið lagðir af vegna minnkandi notkunar. Bara það eitt að byggðin færist sífellt nær flugvellinum sýnir fram á aukið verðmæti landrýmisins. Enn ein af illa ígrunduðum rökum flugvallavina er að flugvöllurinn stendur í mýri. Ég ætla að vekja athygla hina sömu manna á því að það er nú þegar búið að byggja mikið í þessari mýri. M.a reis stórhýsi Decode þar fyrir nokkru ef menn hafa ekki tekið eftir því, án mikilla vandræða. Auðvitað er byggingarkostnaður eitthvað hærri vegna mýrarinnar, en slíkt eru smámunir miðað við verðmæti landsins. Og svo má kannski líka benda á að ætli að það séu ekki álíka margir sem starfa í þessu eina fyrirtæki sem tekur örfáa hektara lands eins og starfa við flugreksturinn á margfallt stærra svæði sem flugvöllurinn þekur. Hér er því lýsandi dæmi um það hversu margfalt fleirri fengju vinnu miðsvæðis í borginni ef flugvöllurinn hyrfi. Reikna má með að stór hluti þeirra byggju á grenndinni og á þann hátt myndi umferðarálag minnka. Flugvallarvinir verða nefnilega að gera sér grein fyrir því að þó svo að landnotkun svæðisins yrði breytt, þá er ekki þar með sagt að umferð um allar götur myndi margfaldast. Ein af ástæðum þess hversu mikil umferð er á gatnakerfi Reykjavíkur, eru hinar miklu vegalengdir á milli vinnustaða og heimila. Með þéttingu byggðar,minnkum við það álag og almenningssamgöngur verða raunhæfari kostur og hlutfallslega minni bifreiðaeign að auki. Við búum í borg þar sem bifreiðanotkun er allt of mikil vegna lélegs skipulags og einhver ágætur maður sagði eitt sinn að Reykvíkingar notuðu bílan sína eins og yfirhafnir. Hoppað upp í bílinn til að skjótast rétt á milli húsa, bara til að fá skjól. Segir þetta ekki ansi mikið um borgarmenninguna okkar. Hlutina þarf að hugsa í víðara samhengi en gert var þegar flugvellinum var valinn núverndai staður (til hernaðarnotkunar að auki).
Ein af rökum flugvallavina eru að það tekur svo langan tíma að fara á milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Nú er verið að breikka Reykjanesbrautina og samgöngur verða greiðari. Auðvitað lengist ferðatíminn en með þéttingu byggðar í Reykjavík, sparast annar ferðatími margfallt. Þ.e. tíminn sem tekur stóran hluta borgarbúa að komast í og úr vinnu. Við verðum að hafa í huga að tími borgarbúa er líka verðmætur. Ég fæ ekki séð að Reykjavík þjóni verr sem höfuðborg landsins, þó svo að það sé ekki lendingarbraut inni í miðri borginni. Þá væru nú margar borgir í heiminum sem þjónuðu illa sem höfuðborgir vegna þ.ess að ekki er lendingarbraut í nokkurra metra fjarlægð frá miðborgarkjarnanum.
Auðvitað fylgir aukin byggð flugvöllum. En ef flugvöllur er skipulagður inni í byggð (líkt og Reykjavíkurflugvöllur) þá þarf byggðin samt sem áður að þróast án tillits til flugvallarins. Flugvöllur er ekki nógu “sterk rök” fyrir því að stöðva eða hamla eðlilegri þróun borgarinnar. Ef menn vilja efla innanlandsflugið, þarf að finna því nýjan stað þar sem það getur vaxið og þróast en ekki verið í nokkurs konar spennitreyju, eins og það er á Reykjavíkurflugvelli í dag.
Eðlilegur “flugvallarhávaði” er í sjálfu sér í góðu lagi. En stundum eru borgarbúar vaktir fyrir allar aldir þegar verið er að prufukeyra hávaðasama mótora eða verið að hita upp forngripi, sem hafa valið Reykjavíkurflugvöll til millilendingar á leið sinni yfir hafið. Reglur um notkunartíma flugvallarins með tilliti til hávaðamengunar á hvíldartímum borgarbúa (kl. 11-07) eru nefnilega allt of oft hafðar að engu. Einnig má líka benda á að smáflugvélaflotinn er að miklu leiti fljúgandi forngripir, sem er með allt of hávaðasömum skrúfblöðum. Skrúfublöðum sem kljúfa hljóðmúrinn við snúninginn og því er hávaðinn frá þeim allt of mikill frá vissum hornum, þegar vélarnar fljúga hjá. Sjálfur bjó Spanni í nokkur ár við Skildinganes og hávaðinn frá kennsluvélunum sem flugu meðfram ströndinni var stundum til þess að ekki var viðræðuhæft úti í garði á góðviðrisdögum. Bílar sem skapa álíka hávaða eru umsvifalaust teknir úr umferð. Er ekki sjálfsagt að gera svipaðar kröfur til flugvéla, þegar betri kostir eru í boði? Flugvöllurinn veldur ýmiskonar truflun, sem ekki væri liðin af öðrum völdum. Truflun sem ætti að vera einfalt mál að ná stjórn á en best væri að flytja völlinn, borgarbúum og öðrum landsmönnum til hagsbóta. Ég efast heldur ekki um að bætt skipulag borgarinnar yrði þeim landsbyggðarmönnum sem hingað ættu erindi til mikilla þægindaauka, þó svo að þeir væru hálftíma lengur að komast inn í miðbæ ef innanlandsflugið færi til Keflavíkur. Einnig má minna á að það eru ekki allir sem eiga erindi suður, sem þurfa að fara í miðbæinn. Borginn þjónar illa erindi sínu sem höfuðborg ef hún fær ekki að vaxa og þroskast á þann hátt sem öflug höfuðborg og miðstöð stjórnsýslu í landinu þarf að gera.
Vi búum í landi sem er gífurlega stórt miðað við fólksfjölda. Tökum sem dæmi að hér á landi eru að meðaltali 3 íbúar á hvern ferkílómetra lands. í Danmörku eru hins vegar 113 íbúar á ferkílómetra. Því er samgöngukerfi okkar óhemjudýrt m.v. hversu léleg nýtingin á því er. Eigum við að setja peninga í að bæta samgöngur innan héraða og efla þannig byggðina á hverjum stað eða eigum við að nota peningana í aðhalda uppi tveim stórum flugvöllum á þéttbýlasta svæði landsins til þess að halda áfram að soga fólk suður? Svari nú hver fyrir sig? Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvellir eru ólíkir flugvellir eins og þeir eru reknir í dag. En með góðum vilja er hægt að flytja stóran hluta starfsemi Reykjavíkurflugvallar til Keflavíkur í dag. Einnig má minna á það enn og aftur, að stór hluti þeirrar flugtengdu starfsemi sem fram fer á flugvallarsvæðinu í dag, er ekki háð nærveru flugvallar. Þar má t.d. nefna fjölmenna vinnustaði eins og flugstjórnarmiðstöðina (sem í sjálfu sér getur verið hvar sem er ef vinnuaflið er tiltækt) og skrifstofur Icelandair og Flugmálastjórnar. Því yrði flutningur vinnuafls ekki jafn geigvænlegur eins og margir flugvallavina vilja halda fram. Stór hluti þeirra bygginga er tengjast svo flugvellinum eru komnar til ára sinna og þarfnast sárlega endurnýjunar. Flugskýlin eru að megninu til frá stríðsárunum og sama má segja um þjónustubyggingar innanlandsflugsins. Við þetta hefur verið bætt allskonar skúrbyggingum og klúðurslegum viðbótum engum til sóma. Nokkur nýleg flugskýli fyrir smáflugvélar eru svo á svæðinu, en þar er í flestum tilfellum um að ræða léttbyggða stálgrindahús, sem hægt er að taka niður og flytja á nýja grunna, hvar í heiminum sem er, ef svo ber undir. Því yrði verðmætatap í byggingum og aðstöðu hverfandi við flutning flugvallarins, miðað við þann ávinning sem í húfi er.
Í dag aka hundruðir manna daglega til og frá vinnu á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðins. Því fæ ég ekki séð að það sé ómögulegt að örfáir tugir manna er tengjast innalandsfluginu beint í dag bættust í þann ágæta hóp. Sportflugmenn skipta ekki máli í því tilliti, því veglengdir sem fólk þarf að fara til að sinna áhugamálum sínum má segja að séu “afstætt” hugtak. Það fer allt eftir vilja, áhuga og löngun til að stunda áhugamálið, hvort mönnum finnist vegalengdir langar eða ekki.
Við vitum að það eru engin tök á því að flytja millilandaflugið til Reykjavíkurflugvllar. Nokkrir stórsnillingar úr röðum flugvallarvina hafa m.a nefnt að endurnýta hús Decode undir nýja flugstöð. Jæja, segi ég nú bara. Ekki er spekin djúp né metnaðurinn fyrir fluginu mikill hjá þeim er setja slíkt fram. (Að auki tel ég Háskólinn myndi feginn nýta það ágæta hús þegar það losnar) Aftur á móti er hægt með einhverjum tilkostnaði að endurbæta aðstöðuna í Keflavík til að koma innanlandsfluginu þar að. Síðan má finna stað fyrir minni flugvöll nær Reykjavík, sem getur tekið við kennslu-, leigu- og sjúkraflugi. Með góðum vilja má ná slíku fram. Flugvallarvinir verða því að fara að finna betri rök en “af því bara” fyrir staðsetningu flugvallarins í dag. Fyrir rúmum sextíu árum voru gerð mistök (sem ekki urðu strax ljós) með þessari staðsetningu. Í dag er komið að því að leiðrétta þau mistök. Það mun kosta eitthvað, þvi enginn vill að flug leggist af. Eflaust verður ný staðsetning til þess að einhverjir í nágrenninu muni mótmæla en rökin fyrir núverandi staðsetningu flugvallarins veikjast með degi hverjum og raddir flugvallarvina verað sífellt meira hjáróma og veikburða líkt og kall hrópandans í eyðimörkinni.