Það er eins og hver einasti pistlahöfundur á Íslandi virðist finna hjá sér sérstaka hvöt til að ólundast út í almenningssamgangnakerfi Reykjavíkur. Sjaldan ganga nöldurseggirnir svo langt að nota strætisvagna reglulega til að kynna sér málið. Síðan er niðurstaðan iðulega sú að finna þurfi önnur úrræði fyrir þá sem „þurfa“ að nota strætisvagna.

Þetta orð fer í taugarnar á mér. Það er einsog skíni í gamla og síunga goðsögn um að strætisvagnar séu einkum fyrir aumingja sem ráði ekki við að eiga eða keyra bíl, gamalmenni kannski eða sárafátækt fólk. Ég horfi allt öðruvísi á málið. Strætisvagnar eru fyrir fólk með fjármálavit. Sem er vissulega minnihlutahópur á Íslandi. Strætisvagnar eru aðallega fyrir þjóðfélagshóp þeirra sem kjósa að henda ekki 600 þúsund krónum á ári fyrir einkabílinn. Fyrir utan auðvitað stofnkostnaðinn og allan þann aukakostnað sem fylgir dýrari bílum.

Fyrir þessar 600 þúsund krónur má kaupa þrjár sæmilega ódýrar tölvur og borga símreikninga fyrir netið. Með þeim er þannig hægt að ferðast víðar en á blikkbeljunni. En það væri líka hægt að fara beinlínis til útlanda nokkrum sinnum á ári fyrir peningana sem sparast. Um það er þó aldrei rætt. Það er eins og íslenska þjóðin neiti að reikna dæmið til enda þegar bílar eru annars vegar.

Um umhverfisáhrif bíla hefur mikið verið rætt. Hin íslenska einkabílamenning er mengunarmenning og það er aðalástæðan fyrir að vilja leggja hana af. En ekki sú eina. Jafnvel þó að einkabílar menguðu ekki neitt mundi ég samt vilja nota strætisvagna. Og ekki aðeins til að spara fjármuni þó að það sé vissulega mikilvæg ástæða. Mér finnst notkun almenningsvagna hafa jákvæð félagsleg og menningarleg áhrif. Ég held að íslenskt samfélag líði beinlínis fyrir að þorri þjóðarinnar kýs að ferðast um lokaður einn inní dollu. Þeir sem taka strætisvagna sjá annað fólk og það býsna fjölbreyttan hóp og eru þar með að stunda félagsleg samskipti, jafnvel þó að þeir þegi allan tímann. Kannski er það þess vegna sem það er stundum engu líkara en félagsþroski Íslendinga sé lítill.

Ennþá mikilvægari eru slík samskipti í útlöndum þar sem fleiri nota slíkar samgöngur. Ein ástæða þess að fólk finnst gaman að fara til útlanda er að ferðast þar með almenningssamgöngum og sjá alls konar mannverur í stað þess að vera lokaður einn í sinni blikkdós, eins og til að æfa sig fyrir kistuvistina í framtíðinni.

Það er mikið gert úr kostnaði við strætisvagna en aldrei úr kostnaðinum við alla bílana sem spæna hér upp göturnar og kalla á rándýr og forljót mannvirki. Það er mikið gert úr tímanum sem tapast þegar vagninn kemur of seint en ekkert úr tímanum sem fer í að skafa af bílnum eða að leita að bílastæði. Það er sama fólk sem telur eftir sér að ganga á næstu stoppustöð en getur svo gengið hálfan Laugaveginn frá fjærstu bílastæðunum við Smáralindina inn í höllina.

En það er eins og allt þetta fólk sem er sínöldrandi eftir strætisvagnakerfinu sé frekar lítið fyrir að sjá annað fólk. Eða fyrir að eiga peninga. Eða fyrir að draga að sér þokkalegt loft. Jafnvel skynsemdarfólk að öðru leyti finnur strætisvagnakerfinu allt til foráttu. Sjálfur sé ég á því ýmsa annmarka enda nota ég það daglega. Fólk sem aðeins notar strætisvagninn getur lent í töfum sem hinir geta forðast sem aðeins nota bíl. Leiðinlegt er það vissulega en varla 60 þúsund króna leiðindi hvern einasta mánuði. Og ekki má gleyma kostunum sem koma á móti.

Í hverjum degi nota ég nýja strætisvagnakerfið. Þrátt fyrir alls konar búrókratavitleysu í því er ég almennt séð hæstánægður og að minnsta kosti ánægður með alla peningana sem við fáu manneskjurnar með fjármálavitið höfum handbæra en færu annars í bílinn. Ekki finnst mér ástæða til að nöldra yfir stóru gulu bílunum. Hinir mega missa sín mín vegna.