Mæta snemma. Ég mætti á þriðjudegi síðast minnir mig en það var samt leit að tjaldstæði. Náðum samt fínum stað og vorum í góðum málum. Það var komið fínt stuð á svæðinu þarna svona snemma fyrir hátíðina og oft bönd að spila á tjaldstæðinu. Það er ákveðin list að tjalda þannig að umgangur í kringum tjaldið sé ekki of mikill en maður sé samt ekki of langt frá helstu þjónustum. Ekki geyma dýrmæti í tjaldinu. Ég hef reyndar ekki lennt í þjófum þessi tvö skipti mín en ég var alltaf með peninga, kort, síma og þess háttar á mér. Bara föt, svefnpokar og bjór í tjaldinu ;)
Vatnsþétt föt! Ég notaði bara traustan pollagalla og Scarpa gönguskó og það svínvirkar á öllum útihátíðum sem ég hef farið á. Reyna að pakka sem léttast en samt að dekka allar aðstæður. Ef það er kalt, þá ertu bara í góðviðrisfötunum innanundir hinu ekki satt (ég er kuldaskræfa, alltaf með bæði þykka ullarpeysu og flís)? Ég mæli líka með stuttbuxum, höfuðfati og sólgleraugum. Góð hefð líka að kaupa Hawaii skyrtu, það er ekkert þægilegra til að vera í þegar veðrið verður almennilega heitt. :)
Það fæst kaldur bjór á svæðinu og ódýr m.v. hér heima. Það er samt ákaflega hagkvæmt að rölta sér í Netto (svona dönsk Bónusverslun) inni í bænum og kaupa þar Harboe bjór í kassavís. Hann er hræbillegur, alveg þokkalega góður. Síðasta sumar kostaði innihaldið (24 flöskur) 600 kall íslenskar. Svo skilarðu kassanum með öllum glerjunum, annars er þetta miklu dýrara. Athugaðu að hljómleika svæðið er aðskilið frá tjaldstæðinu og það má ekki fara með drykkjarílát önnur en plastglös o.þ.h. inn á tónleikasvæðið. Inni á tónleikasvæðinu eru hinsvegar sölutjöld með öl.
Maturinn á svæðinu er oftast alveg fínn. Ekkert dýr svosem en það væri rangt að segja hann billegan. Getur verið mjög gaman að kíkja á Ethnic Area til að fá sér eitthvað framandi að borða. Svo geturðu rölt á eftir á Gringo Bar og fengið þér t.d. Caipirinha (eða Carapinha… úff man ekki) að drekka. Um að gera að prufa allt ;)
Það er almenningssturta á svæðinu sjálfu og ekki jafn slæm og maður býst við. Þeir leigja meira að segja handklæði þar. Það er sundlaug í bænum og þar er almennt örtröð. Gengur samt temmilega hratt fyrir sig röðin og það er ágætt að komast í sturtu þar. Þar eru einnig leigð út handklæði. Hvað klósett varðar þá fórum við almennt í bæinn og fengum okkur kröftugan hádegisverð og notuðum salernin (sem sumhver láta á sjá vegna notkunar) á veitingastöðunum til að gera… öh, stærri stykki eða #2 ;) Annars mana ég alla til að nota kamrana á hátíðarsvæðinu í þannig, það ber vott um hugrekki… eða bara að manni sé sama um hreinlæti :)
Kynntu þér hvaða hljómleika þig langar að sjá. Það er ágætt að hafa gróft plan. Þú getur aldrei séð allt en það er mál að reyna að sjá sem flest. Ef tónleikarnir eru ekki að virka, farðu bara á aðra sem eru í gangi á sama tíma! Vertu tilbúinn til að láta koma þér á óvart, ég hef kynnst frábærum böndum þarna og ætlaði jafnvel ekkert að fara á tónleikana þeirra.
Fáðu þér eyrnatappa. STRAX! Ekki bíða með það, þeir fást á svæðinu. Ég held ég hafi misst heyrn eftir síðustu hátíð af því að ég sluxaði þetta, allavega tók ég eftir að ég var með hellur og heyrði illa með öðru eyranu lengi á eftir. Þannig er ekki gaman! Um að gera að rokka en það er óþarfi að sjá eftir því seinna að vera of töff til að nota eyrnatappa. Ef ég man rétt náði Deftones 114dB og voru ekki nálægt því háværastir!
Það gengur bæði rúta og lest á milli svæðisins og bæjarins. Kostar jafn mikið í bæði, alla vega síðast, en lestin er mun betri kostur. Svæðið er samt mjög stórt og því kannski bara best að taka það sem er styðst að labba í. Rútur stoppa á tveimur stöðum held ég en lestin bara á einum. Mjög þægilegt að taka lestina frá Köben og skipta svo bara um lest í Roskilde og inn á svæði. Annars er ekki það langt að labba bara í bæinn en það veltur líka á hvar þú tjaldar.
Kíktu svo bara vel á heimasíðu hátíðarinnar, þeir hafa góðar upplýsingar þar um margt.
Man ekki eftir meiru. En þér er velkomið að spurja, ég er nú engin veteran en samt búinn að fara tvisvar og vissi mun betur hvernig þetta virkaði í annað skiptið. Vildi bara að ég væri að fara núna. Góða skemmtun, þetta er teynsla sem aldrei gleymist og þú ferð líklega aldrei aftur á íslenska útihátíð!<br><br>“I might wan't a bagel to go with that coffee.” -Paul Smecker (Willem Dafoe) í The Boondock Saints