Þegar ég var að verða fjögra ára ákváðu foreldrar mínir að fara út til Englands í nám. Mamma fór í sálfræðinám og pabbi í myndlistarnám. Við leigðum hús í bænum Guildford, þar sem mamma var í háskóla og ég fór í leikskólann fyrir börn háskólanemenda. Ég man ennþá eftir fyrsta deginum mínum: Pabbi fór með mig í leikskólann og ég fór að gráta því ég var óöruggur inn um allt þetta ókunna fólk sem talaði ekki sama mál og ég. Þá settist pabbi með mér hjá krökkunum og kenndi okkur að gera litla svani úr leir, meira man ég ekki. Ég aðlagaðist þessu nýja landi fljótt og náði fljótt tökum á enskunni. Ég var á frábærum aldri til að læra nýtt tungumál og orðaforðinn minn jókst með tímanum og brátt var ég farinn að þýða orð fyrir foreldra mína þegar þau voru að ræða við annað fólk. Það var samt alltaf töluð íslenska heima svo ég glataði henni ekki. Þegar ég kom heim til Íslands var ég dálítið smámæltur og bar „r“ fram eins og „ð“ og „s“ fram eins og „þ“.
Ég var nú samt ekki lengi á þessum leikskóla, þegar ég varð fjögurra ára fór ég í skóla rétt hjá húsinu mínu. Þar lærði ég að lesa ensku og varð þess vegna læs á ensku á undan íslensku. Það sem ég man sérstaklega eftir í sambandi við skólann var hvað það var mikill agi. Í skólanum gengum við í skólabúningum fyrir utan einn dag á ári þegar það var frjáls fatadagur. Ég man eftir því þegar það var einu sinni svoleiðis dagur og ég gleymdi honum og mætti í skólabúningnum. Það var frekar svekkjandi.
Pabbi minn var í myndlistarskóla inn í London og stundum fór ég með honum í skólann. Þá tókum við lest frá Guildford til London, lestin stoppaði á Waterloo brautarstöðinni en það er stærsta brautarstöðin í London. Þaðan fer einmitt lestin sem fer undir Ermarsundið og til Frakklands Einu sinni hélt ég að ég hefði týnt pabba þegar við vorum í mannþrönginni á Waterloo, ekkert merkilegt við það, ég man bara alltaf eftir þessari óþægilegu tilfinningu að finnast ég vera aleinn í stórri ókunnugri borg og allir að hlaupa til og frá.
Mamma var í háskóla í bænum sem við bjuggum í og ég man eftir garðinum á háskólalóðinni. Þar voru tjarnir með fiski í og alls konar fuglum og stundum fórum við að gefa fuglunum brauð. Hugsanlega voru foreldrar mínir að reyna að bæta upp ferðirnar að Reykjavíkurtjörn sem voru aldrei farnar meðan við vorum úti í Englandi.
Fyrsta setningin sem ég lærði að segja á ensku var „I am hungry “ og uppáhaldstaðurinn minn í Englandi var Tesco, stóra matvörubúðin sem við versluðum í. Ég man eftir löngu frönsku brauðunum sem við borðuðum meðan við versluðum, súkkulaðikökunni í dós, súkkulaði jógúrtinni, súkkulaði hafragrautnum, dósasúpunum frá Campbells og berlínarbollunum. Svo lottuðu mamma og pabbi alltaf þegar þau voru búin að versla í þeirri von um að fá stóra vinninginn og borga upp öll námslánin.
Þegar ég var sjö ára fluttum við heim frá Englandi og fluttum aftur inn í húsið okkar sem við höfðum leigt út meðan við bjuggum í Englandi. Ég tel að dvöl mín í Englandi hafi þroskað mig mikið og auðveldað enskunámið. Hins vegar þurfti ég að vera í nokkur ár í talkennslu heima á Íslandi út af íslenskuframburðinum mínum. Ég veit ekki hversu áhugaverð þessi hugvekja mín um dvöl mína í Englandi hefur verið en hvað sem því skiptir þá fannst mér mjög gaman að rifja þetta upp.

kv. peacock