Ég var að leggja mig áðan og ætla að reyna að rifja drauminn minn upp eins og ég get.

Til að byrja með þá er hann mjög óskýr og slitróttur en ég ætla að reyna að koma því sem ég man niður.

Ég settist upp í bílinn og lagði af stað þó ég hafi aldrei vitað hvert ég var að fara. Eftir því sem ég keyrði lengra varð veðrið verra og meira myrkur úti. Einnig þá jókst sljóleiki minn til muna, eins og ég væri sjúklega þreyttur. Á endanum þá var ég að keyra um þröngar götur (líklegast hjá Grettisgötu og nágrenni fyrir ofan Laugarveginn þó svo að umhverfið hafi ekki átt sér stoð í raunveruleikanum) á miklum hraða og mér leið alltaf meira og meira eins og ég væri sjúklega fullur alveg að gefast upp og ég gat ekki hægt á bílnum (eða datt það ekki í hug).
Á endanum þá klessti ég náttúrulega aftan á, án þess að finna höggið, en andartaki síðar þá var sá bíll úr draumnum og nýmynd hafði skapast.
Það var nú enn meiri snjór og ég var á bláum Nissan jeppa að reyna að snúa því einhver þurfti að komast burt og endaði það þannig að fyrst fer krókurinn á bílnum mínum í brettið hans og svo keyrir hann aðeins utan í minn bíl. Á þessum tímapunkti er ég ekki í jafn anarlegu ástandi og áður.

Núna ummyndast heimurinn og breytist hægt og rólega í náttborð og klukku og það er þá sem ég fatta að ég er að vakna. Ég loka augunum og “sný” drauma-sjálfum-mér í hringi til að reyna að detta aftur ofan í drauminn. Það gengur ekki vel og lendi ég í draumi þar sem ég get ekki litið upp né opnað augun til fulls. Þ.e. augun á mér eru hálflokuð og ég get ekki horft að vild heldur er þvingaður til að horfa bara niður (mjög óþægileg tilfinning sem ég fæ stundum).
Þegar ég ríf í augnlokin á mér og neyði þau til að horfa upp þá breytist umhverfið aftur í klukkuna og náttborðið og ég byrja aftur að snúa mér í hringi.

Í þetta sinn hitti ég vinkonu mína frá skólanum og er aðeins að spjalla við hana. Auk þess þá veit ég hvað gerist næst. Það kemur rúta, skammtarúta, sem er keyrð af einhverji óhuggnanlegri konu sem tekur alltaf einn aðila með sér í hverri ferð (dálítið eins og kölski í Svartaskóla í sögum Sæmundar fróða).
Ég sest aftast og hitti félaga minn og við förum að spjalla saman. Það líður ekki á löngu þar til “skammtaeiginleikar” rútunnar koma í ljós, hún hverfur og birtist á mismunandi stöðum auk þess sem það sama gerist fyrir farþega hennar innan rútunnar á meðan rútukonan hlær hátt.

Áður en ég veit af þá er eins og rútan sé lóðrétt með nefið niður og ég næstum því dottinn niður að bílstjóranum en það sem ég sé í staðinn er reykur. Ég næ að halda mér á meðan ung stelpa fellur ofan í reykinn og þeytir honum burtu þannig að undir honum kemur í ljós veggur með hurð líkt og hlífir flugmönnum í flugvél. Stelpan fellur þó inn um opna hurðina og rútukonan nær henni.

Þar sem hún var búin að fá sitt þá róast ferðin aðeins héðan í frá. Við komum á áfangastað sem minnir um mjög á 10/11 í lágmúla og bílstjórinn segir að hér fari ég út. ég spyr hvert ég eigi að fara og sýnist hún benda á hurð á húsi við hliðina á 10/11.

Ég stekk út úr rútunni og er á báðum áttum hvort ég eigi að fara inn í eitthvað hús sem norn er búin að vísa mér á. Þá fyrst yrði ég kannski skelkaður (þó ég hafi allan tímann vitað að þetta væri draumur).
Þegar ég er svona 30 metra frá hurðinni sé ég Balla félaga minn inni í 10/11 og er frekar feginn að hafa sloppið fyrir horn og ákveð að heilsa upp á hann. Ég er ekki fyrr búinn að því að ég sé manneskju sem er keimlík Balla labba fram hjá.
Ég læt það ekki hafa áhrif á mig og við röltum um verslunina þar til ég sé Ísak vin minn að vinna. Heavy sáttur með það hvað varð úr þessum draumi þá hef ég lúmskan grun um hvað gerist næst.
Jú jú, viti menn, ég sé Gumma flissandi bak við einn rekkann að stela nammi úr 10/11.
Við heilsumst allir og ég spyr þá hvort þeir viti að þetta sé draumur. Þeir svara játandi og þá allt í einu man ég eftir því að taka reality-check. (halda um nefið og anda inn. Ef maður er staddur í draumi þá finnur maður hvernig maður getur andað í gegnum lokað nefið því í raunveruleikanum er nefið opið)

Ég gríp um nefið á mér en í staðinn fyrir að anda að mér þá blæs ég frá mér og snýti mér óvart í lófann á mér. Meðan strákarnir nánast drepast úr hlátri þá sé ég annað eintak af gumma, ísaki og balla koma og við erum allt í einu orðnir 7 samtalts.

Síðan vakna ég, heildar tími, u.þ.b. 40 mínútur.

endilega segið mér hvernig þið ráðið þetta þó ég er nokkuð viss um raunverulega merkingu draumsins :)

Bætt við 30. janúar 2008 - 18:22
Ég gleymdi líka að einhvers staðar þarna á milli þá var ég einn í húsi með stjúpmóður minni. Þegar ég kem niður af efrihæðinni sé ég að ég hafði gleymt að slökkva á tölvunni en ég hafði átt persónulegt samtal við félaga minn og var hræddur um að hún hafi séð það.

Auk þess sem ég man núna hvað gerðist eftir að ég lenti í öllu bíla veseninu. Ástand mitt minnkaði ekki heldur jókast bara. Ég gat ekki haldið höfði af sljóleika en var samt að keyra á örugglega 70 í gegnum þröngar götur með bíla sem voru búnir að leggja meðfram öðrum kantinu. Að lokum get ég varla séð út um augun vegna þess hvað allt er óskýrt og ég get ekki haldið höfði. Mér síðustu orkunni næ ég að hemla eins og ég get, legg upp á gangstétt vinstramegin, læt í P, slekk á bílnum og læt mig detta niður í farþegasætið, máttvana, og ligg þannig þvert yfir framsætin meðan að allt hringsnýst fyrir mér líkt ég væri í þvílíkri vímu og horfi á snjókomuna og myrkrið út um framrúðuna.
Við erum alheimurinn, vaknaður til vitundar um sjálfan sig