Ég ætla að skrifa hér um smá upplifun sem ég varð fyrir. Ég hef nú aldrei verið týpan til þess að trúa mikið á drauga eða þess háttar en núna… veit ekki alveg.

Sagan byrjar fyrir svolítið mörgum árum, þegar fjölskyldan bjó úti í bandaríkjunum þar sem að mamma kynntist bestu vinkonu sinni. Þær áttu gríðarlega vel saman og sögðu alla tíð að þær væru sálufélagar. Síðan einhverjum árum seinna, eftir að við erum flutt aftur heim, greinist hún með brjóstakrabbamein. Ég man nú ekki hvenær þetta var, en þegar hún átti yngstu stelpuna sína ’99, þá var búið að fjarlægja bæði brjóstin, man ég. Hún náði að lifa miklu lengur en búist var við. Þegar hún greindist fyrst héldu læknarnir að hún myndi eiga kannski eitt ár eftir. En smám saman færðist krabbameinið um líkama hennar og var komið m.a. í lifrina sem dró hana til dauða sumarið 2006.
Þetta var mikið áfall fyrir mömmu og hún átti gríðarlega erfitt með þetta. Hún hafði ætlað að fljúga út til þess að kveðja hana en náði ekki í tæka tíð. Hins vegar gat hún þá komið í jarðarförina hennar, sem ég held að hafi hjálpað. Mamma sagði mér seinna, eftir atvikið sem ég ætla að segja frá, að hún hefði hugsað til hennar og hugsað “Ef þú getur sent mér einhvers konar skilaboð að það sé í lagi með þig, viltu þá gera það?”
Svo ekki mjög löngu eftir þetta var farið í ferð norður á slóðir þar sem við eigum ættir að rekja. Búið var að plana ferðina löngu áður en þetta gerðist og ákveðið var að láta það ekki aftra sér að fara. Ég ætlaði upphaflega ekki að fara þar sem þá myndi ég þurfa að taka mér einn dag frí en ég var þegar búin að biðja um 2 vikna frí seinna um sumarið. En ég vildi ekki vera ein heima eftir það sem hafði gerst, þannig að ég fékk frí og við fórum norður.
Eitt kvöldið vorum við búin að borða stóðum við nokkrar konurnar í eldhúsinu og tal berst að vinkonu mömmu. Við förum að pæla í hvernig hún hafi það og segjum eitthvað svona “She’s probably having a blast with those wings” og hvernig hún myndi pott þétt segja ‘You guy’s this is so cool!” Við höfðum sett vínglös sem við vorum að drekka úr með matnum eldhúsborðið og svo fórum við nokkrar fram en frænka mín og dóttir hennar, báðar alveg fullorðnar voru eftir í eldhúsinu. Þær sögðu að það hefði verið einhver skrítin tilfinning, eins og einhvers konar orka, inni í eldhúsinu, þannig þær færðu sig í dyrakarminn. Þær stóðu svo þar og sögðu að glasið hennar mömmu hefði farið að titra og svo sprungið. Og ekki eins og eitthvað hefði dottið á það. Það sprakk um mitt glasið. En glasið stóð ennþá alveg og efri hlutinn sem hafði brotnað frá hékk um stilkinn. Glasið mitt stóð við hliðina á því í heilu lagi, ekkert komið fyrir það.
Mamma trúir því statt og stöðugt að þetta hafi verið vinkona hennar að gefa henni merki um að allt væri í lagi. Og fyrir þá sem vilja halda fram að allir hafi verið fullir og ímyndað sér þetta, þá var búið að fá sér eitt glas með matnum ekkert meira. Þannig að við vorum ekki full.
'It's gonna be AWESOME!' - Barney Stinson