Núna eru borgarstjórnarkosningar í nánd og listarnir berjast um hylli almennings. Slagurinn er aðallega á milli X-D og X-R, það er, Björns Bjarnasonar og Ingibjargar Gísladóttur. Nú bý ég ekki í Reykjavík en ég geng í skóla hér og ég starfa í alræmdu ríkisbatteríi og mín skoðun er sú að Ingibjörg ætti að halda borgarstjóratitlinum. Hún er jú skárri kosturinn.

Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, hefur verið “stjórmálamaður sem hefur kosið að láta verkin tala” eins og hann orðar það sjálfur, en ég er ekki sammála honum. Tökum nýja námsskrá sem dæmi. Þó hann hafi ekki hannað hana sjálfur var þetta hans verk. Hann tók ágæta námsskrá og breytti henni í einhverja martröð. Hans rökstuðningur? Jú, Af því allir skólarnir eru svo mismunandi þá þarf að samhæfa þá svo það sé auðveldara að skipta um skóla. En þá spyr ég bara, af hverju að skipta um skóla ef þeir eru allir eins? Af hverju að eyða öllum sérkennum hvers skóla til þess að hann sé eins og allir hinir? Ég myndi benda honum á það að það er EIN tegund af grunnskóla á Íslandi, ekkert val þar, um 50 mismunandi menntaskólar og fjölbrautaskólar, og svo 7 skólar sem kenna á háskólastigi. Það sem menntamálaráðherra var að gera með nýrri námsskrá var að breyta þessu þannig að það er enn 1 grunnskóli, um það bil 2-3 menntaskólar og fjölbrautaskólar og svo enn þessir 7 skólar sem kenna á háskólastigi. Hvað þýðir þetta fyrir okkur? Við fáum minna val. Það er verið að taka allt frelsið úr menntaskólunum og því er slátrað. Það var ekki bætt við fleiri háskólum, neinei, fækkum bara menntaskólum með sérkenni og höfum þá alla eins. Þá þarf fólk ekkert að hugsa fyrr en það kemur í háskóla.

Er þetta framtíð Reykjavíkurborgar? Eruð þið tilbúin að búa í Reykjavík ef maðurinn sem tókst að eyðileggja íslenskt menntakerfi á einni nóttu stýrir borginni?

Persónulega geng ég með nælu í úlpunni minni sem stendur á X-S. Það er gamli borgaraflokkurinn sem hefur ekki sést í nokkurn tíma og það er mitt statement. En ef ég yrði neyddur til að kjósa kysi ég R-listann.

Hugsið aðeins málið.