Jæja hvað segið þið um þessa yfirlýsingu?

Finnst þetta vera flott hjá kallinum, köld gusa í andlitið á þeim sem en þá vilja Baugsfrumvarp.

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group.

„Árið 2002 kom ég í fyrsta sinn að rekstri fjölmiðla. Við sáum að það var framtíð í þeim hugmyndum sem voru uppi um rekstur á dagblaði sem skyldi dreift ókeypis á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu og að slíkur rekstur gæti skilað viðunandi afkomu.

Í upphafi settum við eina milljón í Bónus og sú fjárfesting gekk upp. Við settum 50 milljónir í Fréttablaðið og sú fjárfesting gekk líka upp.

Undanfarin misseri höfum við byggt upp fjölmiðlafyrirtækið 365 ásamt um 900 öðrum hluthöfum. Grunnurinn að því var Fréttablaðið, en svo urðu aðstæður þannig að okkur gafst tækifæri til að bæta við reksturinn.

365 fjölmiðlar eru í dag framsæknasta fjölmiðlafyrirtæki landsins þar sem innanborðs er kraftmikið og gott starfsfólk.

Reksturinn hefur gengið að óskum og er byggður á þeirri hugmyndafræði að um sé að ræða fjölmiðlafyrirtæki sem sinnir öllum tegundum fjölmiðlunar; fréttum, afþreyingu, upplýsingu og skemmtun.

Fyrirtækið rekur sjónvarps- og útvarpsstöðvar, gefur út tímarit og dagblöð auk þess að halda úti vefsvæðum. Þetta hefur gefist vel og fjölbreytt rekstrarform skapar grunninn að því að hægt er að reka stórt fjölmiðlafyrirtæki sem skilar afkomu sem hefur ekki áður þekkst í rekstri fjölmiðla á Íslandi. 365 fjölmiðlar eru dótturfélag Dagsbrúnar hf. sem skráð er í Kauphöll Íslands.

Fyrirtækið skilar uppgjörum á þriggja mánaða fresti í samræmi við þær leikreglur sem gilda í Kauphöllinni. Þar birtast uppgjör sem sýna að við erum að ná árangri. Við erum að ná árangri sem hefur reynst öðrum fjölmiðlum ógerlegt hingað til.

Það er því fjarri lagi að einhver sé að borga með fjölmiðlum 365 þótt slíkt kunni að eiga við aðra fjölmiðla hér á landi. Allar tölur í uppgjörum Dagsbrúnar sýna annað.

Fjölmiðlar og stjórnmálamenn, sem hafa að undanförnu fjallað mjög ítarlega um rekstur 365 fjölmiðla, geta því leitað þangað áður en þeir fullyrða annað um reksturinn.

Nú að undanförnu hafa fjölmiðlar 365 verið heimfærðir á mig persónulega eða það fyrirtæki sem ég er í forsvari fyrir. Það hefur orðið til þess að fjöldi manna hefur leitað til mín og óskað eftir því að ég beiti mér fyrir því að breyta efnistökum fjölmiðla í eigu 365. Þessar beiðnir hafa verið af ýmsum toga. Reka ritstjóra og ráða annan, leggja niður dagskrárþætti fjölmiðla, skrúfa niður í Ingva Hrafni, henda út Silfri Egils og svona mætti lengi telja. Þeir sem hafa óskað eftir slíku við mig, vita að það hefur engan árangur borið.

Ritstjórn fjölmiðla er ekki á minni könnu. Ég kem að rekstri fjölmiðla út frá arðsemisforsendum og að þeir peningar, sem ég lagði til verkefnisins í upphafi, ávaxti sig. Ritstjórar DV fóru hins vegar út af brautinni. Þeir tóku poka sinn og tóku ábyrgð á ritstjórnarstefnu sinni. Aðrir mættu taka ákvörðun þeirra sér til fyrirmyndar."

Undir þetta ritar Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group hf.