Eins og flestir tóku eftir var Icelandic Airwaves hátíðin haldin um helgina og var kominn tími á þennan árlega viðburð í tónlistarlífi Íslendinga.
Það er full þörf á þessari hátíð, og frábær hugmynd að veita íslenskum tónlistarmönnum færi á að koma fram, með að lokka erlenda fréttamenn hingað með frekar stórri hátíð. Það var líka gaman að sjá mörg fræg erlend nöfn á læn-öppinu í bland við.. ekki eins fræg nöfn frá innlendri og erlendri grundu.

Verðið var líka mjög sanngjarnt á aðgangsmiða, eða 5500 kall á alla viðburði.

Það er aðeins eitt sem ég hef út á hátíðina að setja, og reyndar fór það langt með að eyðileggja skemmtunina fyrir mér!

Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar um 18 ára aldurstakmark inn á ALLA viðburði (fyrir utan electrolux kvöld, sem átti að halda á gauknum eftir 01:00 á föstudegi) var mér, sem er 18 ára, oftar en ekki vísað frá stöðum, og var að sjálfsögðu ekkert hlustað á mína hlið á málinu af einum né neinum (fyrir utan starfsfólk Gauks á Stöng, sem vann þó allavega í því að ná lausn í málinu, og þakka ég þeim kærlega fyrir það!) Ég reyndi í þrígang, á föstudagskvöldinu, að komast inn á staði sem aðstandendur hátíðarinnar höfðu lofað mér inngöngu á, en dyraverðir Vegamóta, Grand Rokk og Spotlight neituðu mér um inngöngu sama hvað ég tautaði!

En við hverja er að sakast?
Augljóslega ekki dyraverði, þar sem þeir hlýða aðeins skipunum yfirboðara sinna!
Ég held að vandinn liggi í samskiptaleysis milli aðstandenda Airwaves annars vegar, og eigenda staðanna og yfirdyravarða hins vegar!

Aðalviðkvæðin við því hvers vegna ekki var hægt að hafa opið fyrir 18 og eldri á stöðunum var að þessir staðir voru með vínveitingaleyfi, en gaukurinn leysti þetta með því að biðja um skilríki við barborðið. Er það svo mikið mál? Þetta fyrirkomulag virðist ganga í smárabíói, nokkrum skemmtistöðum, á ýmiss konar klúbbakvöldum (t.d. breakbeat.is)!

Að sjálfsögðu byrjaði ég laugardaginn á að senda umsjónarmanni airwaves kvörtunarbréf vegna þessa, en þar sem hann hefur ekkert sent frá sér hingað til (í dag er sunnudagur) verð ég að leita annað!

Hvað finnst ykkur um þetta, er það rétt að lofa einu þegar raunveruleikinn er allt annar, fyrir okkur sem erum á aldrinum 18-22 ára og langar að sjá uppáhaldshljómsveitirnar okkar?

Að lokum vil ég þakka fyrir þá liði Airwaves sem voru eins og þeir áttu að vera, svosem breakbeat.is kvöld sem var frábært, einnig var gaukurinn góður á föstudagskvöldi (fyrir 01 að sjálfsögðu), og höllin var skemmtileg á laugardegi!

Kveðja,
Þorbjörn