Áberandi fáfræði íslenskra fjölmiðla á öllu því sem viðkemur hernaði hefur lengi pirrað mig en það má segja að steininn hafi tekið úr þegar ég opnaði DV í dag (helgarblað, 1. júní '02).

Á blaðsíðu átta, í dálknum “stuttar fréttir”, er frétt titluð “Fyrsta kven-grænhúfan”. Ég ætla að leyfa mér að láta fréttina fylgja með hér í fullri lengd til að þau atriði sem ég ætla mér að gagnrýna liggi ljós fyrir:

“Hún Philippa Tattersall er fyrst kvenna til að komast í hóp Green Berets eða ,,Grænu-alpahúfanna” svokölluðu, sem er ofursveit innan breska hersins. Philippa, sem er 27 ára, á þó ekki von á því að verða send í fremstu víglínu og verður í bakvarðarsveit þeirra allra hörðustu. Hún náði prófinu í þriðju tilraun og þykir það þrekvirki þar sem meðlimum sveitarinnar hefur frekar verið líkt við vélmenni.“

Í fyrsta lagi er engin bresk sveit kölluð ”The Green Berets“. Í öðru lagi er breska sveitin sem hún Philippa afrekaði að komast í The Royal Marine Commandos. Það mætti alveg ræða um þann stóra mun sem er á hinum s.k. ”Grænhúfum“, sem starfræktar eru innan sérsveita bandaríska hersins, og hinum fræknu Royal Marine Commandos breska hersins en er hinsvegar kannski óþarfi, a.m.k. hér og nú. Látum duga að segja að Commandos séu fremstir meðal jafningja þótt þeir séu ekki í flokki með Green Berets.

Þessar sveitir eiga þó eitt sameiginlegt en það er að báðar bera stoltar græna alpahúfur sem hluta af einkennisbúningi sínum og gera það af stolti þar sem mikið erfiði liggur að baki þeim heiðri að fá að bera umræddar húfur.

Vissulega skiptir þetta okkur frónverja ekki miklu máli, en hvað segir þetta um trúverðugleika þeirra fjölmiðla sem flest okkar reiða sig á? Mér finnst þetta bera vitni um skammarlega hroðvirkni að hálfu fréttamanns og blaðs jafnvel þótt að í þetta skiptið hafi fréttin verið smávægileg.

Ég stenst heldur ekki mátið að benda á hve uppfull af klisjum sem minna á sumarbíómyndir fréttin er: ”…ofursveit innan breska hersins.“ ”…í bakvarðasveit þeirra allra hörðustu.“ og ”…þar sem meðlimum sveitarinnar hefur frekar verið líkt við vélmenni." Myndi það annars eiga við Green Berets eða Marine Commandos?

Það sem mig langar til að segja um klisjuflóðið er efni í aðra grein, en mér líður örlítið betur eftir að hafa þó komið þessu frá mér. Ég held allavega að blaðamenn DV ættu að fara að lesa eitthvað uppbyggilegra en Tom Clancy. Og þó, þeir myndu kannski ekki flaska svona á staðreyndum aftur ef þeir læsu Clancy reifara…