Samkvæmt fréttum útvarps í hádeginu verður gengið frá ráðningu Jóns Steinars, prófessors í HR og hrl., í embætti Hæstaréttardómara í dag. Jón Steinar tekur við af Pétri Kr. Hafstein sem lætur af störfum á föstudaginn.

Það hefur mikið verið skrifað og rætt um þessa skipun í embætti Hæstaréttardómara undanfarnar vikur. Í Morgunblaðinu hafa birst fjölmargar blaðagreinar þar sem lögmenn og ýmsir aðrir hafa lýst yfir stuðningi við ráðningu Jóns Steinars. Jón Baldvin, Magnús Thoroddsen, Sveinn Andri og fjölmargir aðrir hafa tekið þátt í þessum skrifum. Í dag skrifa Hallur Hallsson og Þröstur Ólafsson greinar í Morgunblaðið. Í öllum þessum greinum er lýst yfir stuðningi við Jón Steinar og margir ljá máls á því að pólitískar skoðanir Jóns eigi ekki að koma í veg fyrir að hann sé ráðinn.

Þeir sem leggja stund á lögfræði eða laganám gera sér grein fyrir því skoðanir manna á einstaka málefnum samfélagsins eiga ekki að hafa áhrif á úrlausnir í lögfræðilegum álitaefnum. Beiting lagalegra aðferða við úrlausnir á lögfræðilegum álitaefnum hefur lítið með stjórnmálaskoðanir dómara að gera. Það er samt eðlilegt að almenningur átti sig ekki á þessu og haldi að pólitískra skoðanir Jóns eigi eftir að endurspeglast í dómaúrlausnum Hæstarétts. Það er samt fráleitt að halda þessu fram, enda yrði sá lögfræðingur sem færi að beita pólitískum aðferðum við vinnu sína fljótt afskrifaður. Jón Steinar er þekktur fyrir vönduð vinnubrögð og er almennt talinn einn hæfasti lögfræðingurinn á Íslandi.

Í lögmannafélaginu er 700 lögmenn. Af þeim skrifuðu 120 undir yfirlýsingu þar sem tekið var fram að undirrituðum þætti sem Jóni Steinar nyti ekki sannmælis í umsögn réttarins um hæfi umsækjenda. Í framhaldi af því hafa nokkrar umræður sprottið um það hvort Hæstiréttur eigi í raun að raða umsækjendum í hæfnisröð eða hvort hann eigi eingöngu að meta hvort umsækjendur séu hæfir eða ekki. Um þetta verður eflaust deilt áfram, en eins og nú er komið er brýnt að þetta ferli verði skoðað uppá nýtt, enda mun þetta endurtekna fjaðrafok rýra trúverðugleika réttarins til lengri tíma litið.

Ég hef engan skoðun á því hvort Jón Steinar hafi verið hæfasti umsækjandinn í þetta embætti. Held raunar að aldrei hafi verið hægt að komast að niðurstöðu um það hver af þessum sjö sem sóttu um var hæfastur. Held þó að Eiríkur Tómsson, Stefán Már og Jón Steinar hafi verið hæfastir. En það er bara mitt mat, svo hafa margir aðrir annað mat.