*Birtist einnig á www.TheDownWardSpiral.tk*

Ég hef forðast það að tjá mig mikið um fjölmiðlafrumvarpið margumtalaða síðan allur þessi sirkus fór í gang og er það í hálfu með ráðum gert, bæði sökum ofumtals og vegna þess að skoðanir mínar á þessu öllu saman rokka mikið til og frá og hef ég þurft tíma til að melta þetta mál að fullu.

Ég er mótfallinn þessari lagasetningu. Ég er mótfallinn aðferðarfræðinni sem var í kringum hana, ég er mótfallinn framkvæmdinni og ég er mótfallinn nokkuð augljósum forsendum ríkisstjórnarinnar fyrir henni. Mér finnst þessi framganga stjórnvalda aðför að lýðræðinu í eðli sínu og svipar til imperíalisma.

Á móti kemur að ég er á þeirri skoðun að lög um eignarhald á fjölmiðlum séu æskileg í einhverri mynd.

Afhverju?

Lítum til baka til Bandaríkjanna á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar þegar Rudolph nokkur Hearst átti í raun bróðurpart allra sterkra fjölmiðla landsins og hafði með þeim tögl og haldir á almenningsáliti fólks á ýmsum málefnum. Fram á sjónarsviðið stökk ungur og óhræddur kvikmyndagerðarmaður, Orson Wells nokkur. Hann ákvað að fletta ofan af þessum risa, sýna fram á viðskiptalega og mannlega breiskleika hans í formi fyrstu kvikmyndar sinnar. Hearst fékk veður af þessum ráðagerðum og notaði afburða fjölmiðlaaðstöðu sína til að hrekja kvikmyndafyrirtækið, Wells og hótaði stærstu kvikmyndadreifendum Bandaríkjanna þannig að á tímabili leit út fyrir að myndin mundi aldrei sjá dagsins ljós. Það var ekki nema með mikilli þrjósku Wells og endanlegu gjaldþroti Hearsts að myndin fékk loks dreifingu og varð ein epískasta kvikmyndaútgáfa sögunnar, Citizen Kane.

Og hvernig passar þessi litla kvikmyndanördadæmisaga inn í Ísland nútímans? Vald fjölmiðla er nær ótakmarkað. Fjölmiðlar stjórna nærri öllu upplýsingaflæði sem kemur til almennings, hvort sem það eru upplýsingar um stríð, mannréttindi, alþjóðastjórnmál, dægurmál. Nefndu það..
Fjölmiðlar hafa þetta gríðarlega upplýsingamagn í höndum sínum og stjórna í raun hvernig því er sleppt út. Með einföldum orðalagsáherslum geta fjölmiðlar stýrt því hvernig ákveðin frétt hljómar og verkar á fólk án þess þó að ljúga eða fara í raun rangt með upplýsingar. “Vægðarlausar árásir hryðjuverkamanna hafa aukist til muna á friðarghæslusveitir bandaríkjanna í Írak upp á síðkastið” hljómar allt öðruvísi en t.d. “Árásum Íraskra skæruliða hefur farið fjölgandi samhliða aukinni ásókn Bandarísks landsetuliðs á heilög svæði múslima í suður hluta landsins”. Hvorug fréttin lýgur en orðalagið er mjög mismunandi og hefur þann tilgang að kalla fram mismunandi viðbrögð hjá lesendum. Dæmi um þetta sjást um allskonar innlend og erlend hagsmunamálefni.
Það er staðreynd að fjölmiðlar eru hafa stjórnmálalega afstöðu, það er hrein vitleysa og blinda að halda öðru fram. Það þarf engan snilling að sjá að mikið af fréttamennsku DV byggist á fanatík og áróðri. Ég er ekki að segja að þetta sé endilega rangt eða ólöglegt en þetta er samt sem áður staðreynd.
Það hefur orðið veruleg samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hérna heima síðastliðin misseri og það er staðreynd að Baugur er í markaðsráðandi stöðu á þessum markaði og vel það. Ég er á þeirri skoðun að upp sé komið visst ójafnvægi á þessum mikilvæga markaði og að það þurfi að gera eitthvað til að rétta hana af. Ég er einfaldlega mótfallin einokun stórfyrirtækja á hvaða markaði sem það er og hef litla sympaþíu með Baugi frekar en öðrum risum, jafnvel þótt að þeir styðji “góða liðið” í sandkassastríðinu sem alþingi Íslendinga er orðið.

Er ég þá ekki samþykkur Fjölmiðlafrumvarpinu?

Ekki beint, ég er vissulega sammála yfirlýstum tilgangi frumvarpsins í mörgum megindráttum þess. En málið er að yfirlýstur tilgangur þess hefur mjög lítið með raunverulegann tilgang þess að gera. Það er svoleiðis augljóst hver tilgangur þessara laga er, á hvern þau hafa áhrif og var framkvæmdin eftir því. Þær heftingar sem þessi lög bjóða upp á eru í mörgum atriðum alveg fáránlegar og eignarhaldsprósentur óraunhæfar. Einnig finnst mér skipting milli mismunandi tegunda ljósvakamiðla undarleg og í raun fráleit. Og jafnvel þótt að ég væri samþykkur þessari aðferðarfræði þá var öll framkvæmdin í kringum lagasetningua öll hin undarlegasta. Lögin fengu lítinn meltingatíma hjá þjóðinni og einstaklega stuttan þróunar- og nefndartíma miðað við hversu víðtæk og umdeild þau voru og hefði ég kosið að fresta þeim einungis á þeim forsendum.

En það er ekki meginmarkmið þessa pistils að tala um mína persónulegu skoðun á þessum lögum (þó svo að hún sé að sjálfsögðu rétt), heldur er það eftirmálinn sjálfur sem er að reita mig til reiði þessa dagana og ætti einnig að pirra hverja lýðræðisþenkjandi mannveru hér á landi burt séð frá stjórnmálaskoðun hennar.
Eftir að forsetinn nýtti þann rétt sinn að skjóta þessari lagasetningu til þjóðarinnar sem alþingi á að vera málsvari fyrir hafa sjálfstæðismenn nánast verið í krossferð gegn sitjandi forseta og er hún að ná hámarki nú þar sem að SMS ganga á milli manna sem hvetja stuðningsaðila flokksins að hundsa þessa kosningar og annaðhvort skila auðu eða sitja heima.
Svona hlutir gera mig reiðann. Mér blöskrar að sumir kosningabærir Íslendingar séu svona miklir hálfvitar og sauðhugsi að detta í hug að neita að kjósa sitjandi forseta á þeim forsendum að hann styrkir beint lýðræði í landinu! Erum við virkilega orðnar svo miklar rollur að við fylgjum flokknum okkar í blindni, sama hvaða bull það er? Etlum við forystusauðinn fram af bjargi? Til glötunnar?

Ég neita að trúa því að almenningur vilji í raun svipta sig sjálfum þeim rétti að geta dæmt beint í mikilvægum, umdeildum og stefnumótandi málum! Ég neita að trúa að við viljum drepa svona niður mátt sjálfstærðar og gagnrýnninnar hugsunar! Viljum við í raun og veru refsa þeim eina manni sem hafði valdið til að gefa okkur einhvern raunverulegan rétt til að hafa áhrif á framhang mála hér á landi?

Alþingi særði stoðir lýðræðisins með því að samþykkja þessi lög en hvorki Davíð Oddson né alþingi íslendinga hefur máttinn til að drepa lýðræðið okkar, þennan mannréttindastólpa frjálsra þjóða. Nei. Það vald liggur aðeins hjá þjóðinni okkar, það erum við sem getum myrt þennan fæðingarrétt okkar með sljórri hugsun og skeitingarleysi. Við getum grafið okkar eigin mátt með því að fylgja hjörð hagsmunaðila og glötuðum málstað þeirra. Lýðræðið liggur í höndum hvers og eins Íslendings með sjálfstæða skoðun og það er réttur okkar að láta hana í ljós og sýna í verki.
Því ættu allir að fagna þessari ákvörðun forseta og flykkjast á kjörstað þegar kosið verður um þessi lög og láta sína skoðun í ljós, sama hver hún er því að það eru tveir valmöguleikar á kjörseðlinum. Það er lýðræði….

Það er okkar sanna vald!