Hann Satan karlinn hefur alveg hræðilega gaman af því að gera okkur greyjunum hér ájörðinni lífið leitt og hefur sýnt alveg ótrúlegt ímyndunarafl þegar kemur að því að finna upp hin frumlegustu pyntingartól, til dæmis blöndunartæki í sturtu, Teletubbies (Stubbarnir), Kevin Cosner, þingmennska, fimmti bekkur, þýska, níundi áratugurinn og svo framvegis, en langverst af tólum kölska er þó án efa útvarpsvekjarinn, nánar tiltekið útvarpsvekjarinn MINN.

Ég á útvarpsvekjara sem ber af öðrum útvarpsvekjurum þegar kemur að því að pirra fólk og þá mig sérstaklega (en ekki hvað?). Útvarpsvekjarinn minn er með skífu til að færa litlu píluna sem þykist benda á einhverja ákveðna FM tíðni svo maður geti stillt á hvaða útvarpsrás sem er…fræðilega allavega. Þessi skífa svo og litla pílan virðist samt sem áður bara vera blekking til að láta mig halda að ég hafi einhverja stjórn á því hvaða útvarpsstöð fái þann vafasama heiður að vekja mig á morgnana. Raunin er nefnilega sú að útvarpsvekjarinn minn virðist bara geta verið stilltur á þrjá mismunandi hluti sama hvað litla pílan segir;

1. Ekkert, þ.e.a.s. lágtíðni suð
2. Einhver af þessum kristinlegu ofstækisstöðvum
3. Bylgjan

Og það sem meira er…þegar ég snerti græjuna eins og til dæmis til að stilla klukkan hvað ég vilji vakna þá skiptir draslið um tíðni og velur eitthvað af þessu þrennu af handahófi svo ég veit aldrei hvað mun hljóma úr græjunni þegar hún ákveður að vekja mig. Það er þannig upp og ofan hvort ég:

1. Vakna bara ekki neitt því dósin bara situr á borðinu og suðar eins og meðal ísskápur (og mæti þar afleiðandi extra seint og myglaður í vinnuna).
2. Er vakinn með eldheitum og guðdómlega innblásnum fyrirlesti um það hvers vegna ég muni brenna í helvíti ásamt Elvis, Lennon og öllum óþekku stelpunum með sílikon brjóstin (og ég sver að stundum heyri ég Lúsífer sjálfan tísta úr hlátri eins og versta skólastelpa á bak við).
3. Hrekk upp við gaulið í Phil Collins eða heitasta lagið á línudansnámskeiði Jóa dans (kill me now please).

Fjórði möguleikinn á þessari djöfullegu er svo að slökkva á útvarpinu og láta innbyggða hringingu útvarpsvekjarans hrökkva í gang á tilsettum tíma. Ég myndi segja að það ætti að skjóta þessa hálfvita í hausinn sem létu sér detta það í hug að fólk vildi frekar vakna við þetta rafræna garg sem kallast hringing nú í dag heldur en gamla bjölluglamrið í upptrekktu klukkunum en mig grunar sterklega að myrkrahöfðinginn sjálfur hafi komið þessu óhljóði fyrir í öllum vekjaraklukkum í heimi. Það hafa allir heyrt þetta ómannúðlega sarg sem hljómar einhvernvegin svona: íííÍÍÍÍÍÍK, íííÍÍÍÍÍÍK, íííÍÍÍÍÍÍK, íííÍÍÍÍÍÍK…og svo framvegis.

Ég bara spyr, hvernig á maður að halda geðheilsunni þegar maður þarf að vakna hvern morgun í miðju sturtuatriðinu úr Psycho?

Miðað við alla tækniframþróunina í heiminum í dag, símar sem spila sinfóníukonserta eftir Mozart óaðfinnanlega, faxtæki sem segir þér með undurblíðri kvenmansröddu að nú sé komin nýtt fax og fleira, hversegna er mönnum þá gjörsamlega fyrirmunað að búa til vekjaraklukku sem vekur mann einhvernvegin öðruvísi en að líkja eftir þeirri tilfinningu að láta bora með ryðguðum steypubor í gegnum hausinn á sér? Djöfullinn sjálfur bara HLÝTUR að vera með puttana í þessu.

Ég er farinn að lifa fyrir það að bíða eftir helginni svo ég geti látið klukkuna á að hringja hvernig sem henni dettu sjálfri í hug og vaknað með látum, glott illkvittnilega til hennar, rifið hana úr sambandi og hent í ruslið og sofnað aftur sáttur með það í huga að nú sé ég búinn að hefna mín fyrir pyntingar seinustu fimm daga.

Ég auglýsi hér með eftir einhverri aðferð til að vakna á morgnana sem hvorki stuðlar að því að maður endi á hæli fyrir taugaveikisjúklinga né dregur ekki úr almennri lífslöngun.