Áður en fólk fer að gagnrýna mig fyrir að taka ekki til greina nógu mörg rök í þessari ritgerð þá langar mig að segja að þetta er Íslenskuritgerð og því þurfti ég að takmarka lengd ritgerðarinnar sem var 500 orð (570) og því aðeins pláss fyrir frekar lítið.

Menntaskólinn í Reykjavík
Kennari: ******** *********


Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda og hefur hún jafnt verið gagnrýnd harðlega sem og lofuð. Hefur umræðan í samfélaginu oft á tíðum einkennst af rökleysu og hafa stjórnmála og athafnamenn verið iðnir við að nýta sér vanþekkingu almennings á málinu. Ég hef einnig tekið eftir útúrsnúningi á orðinu stóriðja, en í því samhengi sem ég mun nota það í þessari ritgerð táknar það orkufrekan og þungan iðnað og þá sérstaklega frumvinnslu málma.




Ein af megin deilunum í sambandi við stóriðju er mengun. Það er almenn vitneskja að frá allri stóriðju komi einhver mengun og um það er ekki deilt. Hinsvegar hefur sú spurning vaknað hvort sú mengun sem kemur frá stóriðju á Íslandi, þá sér í lagi álverum, hafi skaðvænleg áhrif á vistkerfið í kring. Þeir sem telja enga hættu stafa af menguninni benda á að öllum settum reglum í sambandi við mengunarvarnir sé framfylgt í umtöluðum verksmiðjum og segja þess vegna að langtímaáhrif þessarar mengunar séu engin eða illgreinanleg. Það er vissulega rétt að settum reglum um mengunarvarnir sé framfylgt en engu að síður hafa fyrirtæknin sem reka þau álver sem staðsett eru á Íslandi, Alcoa og Norðurál, þráast við að vera einungis rétt undir þeim mörkum sem stjórnvöld hafa sett. Í því samhengi má nefna þá staðreynd að öll íslensk álver nota þurrhreinsibúnað en ekki vothreinsibúnað, en sá fyrrnefndi er lakari og býr yfir fleiri ókostum en sá seinni, t.d. er losun SO2 margfalt meiri en við vothreinsun, en SO2 veldur súru regni sem getur valdið gífurlegri skógareyðingu þar sem tré þola ekki sýrustig súra vatnsins. Sömuleiðis getur súrt regn drepið allt lífríki í stöðuvötnum s.s. lax og aðrar fiska sem. Þar að auki getur SO2 valdið ýmsum sjúkdómum í mönnum eins og t.d. asma og lungnakrabbameini.


Þá kemur það glögglega fram í bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandið, hversu gífurleg SO2 mengun kemur frá álverksmiðjum. „Um 4000 tonnum af brennisteinsdíoxíði (SO2) verður sleppt upp í fjörðinn árlega gegnum risavaxna strompa. Það er um 1/5 af heildarlosun SO2 sem Norðmenn stefna að fyrir 2010“ (2006:244). Vert er að benda á í þessu samhengi að þarna á Andri einungis við SO2 mengun frá álverinu á Reyðarfirði miðað við heildarlosun alls iðnaðar í Noregi.



Annað sem andstæðingar stóriðju hafa gagnrýnt er sú gífurlega áhersla sem stjórnvöld hafa lagt á þungaiðnað, þá einkum álver, í staðin fyrir að dreifa úr áherslunum og fá t.d. fleiri hátæknifyrirtæki til landsins. Í því samhengi er vert að nefna heimsmarkaðsverð á áli en rannsókn jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna í þeim efnum hefur leitt í ljós að heimsmarkaðsverð hefur fallið u.þ.b 10% á seinustu 10 árum og um heil 30% á seinustu 25 árum (Plunkert, Patricia A. 2005). Þetta vekur upp spurningar hvort það sé viturlegt hjá stjórnvöldum að veðja öllu á einn hest, því ef það skeður sem fram horfir munu ýmis gerviefni s.s. koltrefjar og plastefni halda áfram að leysa ál og aðra málma af hólmi á komandi árum, á flest öllum sviðum atvinnulífsins. Þetta mun eflaust valda því að verð á áli á eftir að snarlækka sem mun hafa gífurlega slæm áhrif á íslenska efnahagskerfið ef stjórnvöld halda áfram að einblína á uppbyggingu stóriðju. En eins og fram kemur í skýrslu Magnúsar Fjalar Guðmundssonar um peningamál sem hann gerði fyrir Seðlabanka Íslands, eru útflutningstekju Íslendinga af áli nú þegar gífurlegar og nema sem svarar um 39,2% af heildar útflutningstekjum okkar (2003:42).
Eftir að hafa skoðað öll rök viðkomin málinu get ég ekki annað en mótmælt núverandi stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda þar sem ég tel þau vanhugsuð og jafnframt hættuleg íslensku efnahagslífi sem og íslenskri náttúru í náinni framtíð.



Reykjavík, 22. janúar 2007

Daníel ****** ********












Alcoa. 2006. Mat á umhverfisáhrifum. Sótt 21. janúar 2007 af
http://www.alcoa.com/iceland/ic/info_page/2006_eia_downloads.asp
Andri Snær Magnason. 2006. Draumalandið: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Mál og menning, Reykjavík
Magnús Fjalar Guðmundsson. 2003. Áliðnaður og sveiflur í útflutningstekjum. Seðlabanki Íslands. Sótt 21. janúar 2007 af http://www.sedlabanki.is/uploads/files/PM033_5.pdf
Norðurál. 2004. Umhverfisstefna Norðuráls hf. Sótt 21. janúar 2007 af
http://www.nordural.is/default.asp?sid_id=5180&tre_rod=001|004|&tId
Plunkert, Patricia A. 2005. Aluminium. U.S. Geological Survey.
Sótt 21. janúar 2007 af http://minerals.usgs.gov/minerals/pubs/commodity/aluminum/050798.pdf