Dansþáttur þjóðarinnar, Party Zone, er mjög ánægður og stoltur að kynna næsta listamann sem kemur fram á PZ kvöldi laugardagskvöldið 19.maí. Það er einn alheitasti og áhugaverðasti raftónlistarmaður og plötusnúður samtímans, Anders Trentemöller.

Hver er Trentemöller:
Trentemöller kom fyrst fram á sjónarsviðið 1997 þegar hann stofnaði eina af fyrstu house sveitunum í Danmörku sem spilaði live ásamt félaga sínum DJ Tom.
Eftir að hafa tekið sér svo rúmlega tveggja ára hlé frá tónlistinni kom Trentemöller aftur fram á sjónarsviðið þegar hann gaf út Trentemöller EP á Naked Music 2003 sem að var gríðarvel tekið af mörgum af þekktustu plötusnúðunum í bransanum. Eftir það var ekki aftur snúið og þegar hann gaf út Physical Fraction árið 2005 með nýjum og mun myrkari hljóðheim fóru hjólin virkilega að snúast. Það lag var víða valið eitt af betri lögum ársins og Trentemöller var valinn nýliði ársins af ýmsum miðlum. Í kjölfarið fylgdu fleiri frábær lög eins og Polar Shift og Nam Nam EP ásamt því að hann gerð mörg mögnuð remix fyrir sveitir eins og Röyksopp, The Knife, Pet Shop Boys og Moby. Árið 2006 gaf hann svo út sína fyrstu plötu þegar meistaraverkið Last Resort kom út. Þessi plata var ofarlega á mörgum árslistum og það ekki af ástæðulausu enda margslungin og mögnuð plata þar á ferð. Hann hefur í kjölfar hennar verið að spila út um allan heim og núna loks spilar hann á Íslandi.

Það er ljóst að þeir sem fylgjast eitthvað með danstónlistinni hafa verið að bíða eftir þessari dönsku nýstjörnu hingað heim. Hann mun koma fram áfram fjöldanum öllum af íslenskum númerum á stóru danspartýi á vegum Party Zone á Gauk á Stöng laugardagskvöldið 19.maí. Það varð allt vitlaust á árslistakvöldi PZ á Gauknum í janúar þegar Booka Shade trylltu landann. Nú er það Trentemöller sem sér um að koma fólki endanlega inní sumarið. Fylgist með í Party Zone á laugardagskvöldum á Rás 2 og á www.pz.is

———————————————————————————
Forsala hefst þriðjudaginn 24.apríl kl 12:00

Forsalan fer fram á www.midi.is og í verslunum Skífunnar.
———————————————————————————