Ok strákar, hvað er eiginlega að?

Þið sem áttuð þátt í því að gera “kewl” póstinn að því saurbaði sem hann er, skammist ykkar.

Í fyrsta lagi.
Ekki ásaka einhvern um ódrengilega spilun ef þið ekki hafið sannanir. Á leikjaþjónum fáið þið hiklaust spark í bossann við það að láta eitthvað svona frá ykkur án rökstuðnings.

Fólk er misgott í tölvuleikjum, það er staðreynd.
Að einhver sé betri en _ÞÚ_ þýðir ekki endilega að hann sé að svindla. Í flestum tilvikum þýðir það að sá einstaklingur hefur lagt harðar að sér við að koma sér upp ákveðnum hæfileikum á sviði tölvuleikjaspilunar.

Ég veit það vel að fólk getur verið ansi skuggalegt á leikjaþjónum. En þá er oftast nægilegt að horfa t.d. á mína spilun. Ekki svindla ég, en fæ þó ásakanir og annað rugl er ég spila undir altnicki. Ásakanir eru oftast aðeins út í bláinn, mótherjinn gæti hafa verið heppinn eða þá að hann einfaldlega er miklu öflugri en þú.

Ég líð ekkert svona skítkast á leikjaþjónum þeim er ég stjórna. Þið skuluð virða mótherja ykkar ellegar fara með spilun ykkar annað.



Í öðru lagi.
'First impression' skiptir gríðarlega miklu máli ef fólk ætlar sér að spila tölvuleiki að einhverju ráði.
Að skapa sér GÓÐAN orðstír er afar mikilvægt ef þið ætlið ykkur til dæmis að komast í landsliðið eða í góð lið.
Spilarar með ‘attitude’ eða einhvern annan rembing fara neðst á virðingarlista annarra spilara. Það vill enginn spila með þannig mönnum.
Fólk sem er þekkt fyrir stæla á leikjaþjónum þarf mikinn tíma til að lagfæra þann orðstír sinn.

Reynið að slappa af þegar þið spilið, ykkar allra vegna.



Í þriðja lagi.
Þessi póstur var auðvitað kominn út í algert rugl og skítkast á báða bóga. Slíkt verður auðvitað ekki liðið og því lokaði ég póstinum fyrir frekari umræðu. Umræðunni skal auðvitað ekki haldið áfram sem svörum við þessari grein þar sem engar sannanir hafa komið á borðið um þessi svindlmál.

Þú, Solid, kastar skugga á klanið sem þú hefur í undirskrift þinni. Passaðu þig.
Þú verður að gera þér grein fyrir að skrif verða ekki útmáð héðan. Þetta er staðreynd sem fólk, því miður, er oft að brenna sig á. Með hverju svari brennimerkir þú sjálfan þig með því svari. Skoðanir sem fólk myndar sér um þig, byggjast á þessum svörum, og það mun lang oftast svara þér á sama plani. Ekki láta þetta koma þér á óvart.
Þetta sama fólk gæti hitt þig seinna meir. Þá sem vinnuveitandi, meðstarfsmaður eða jafnvel sem ættingi. Þú ert ávallt að taka áhættu þegar þú birtir skrif þín opinberlega. Einhver sem þekkir þig persónulega gæti lesið það sem þú skrifar. Það gæti gjörbreytt skoðun þess fólks á þér, og það til hins verra.

Mér finnst því að þú ættir að haga næstu svörum þínum á hátt sem sæmir fullorðnum manni. Ég neita að trúa því að þú aðeins getir skrifað líkt og strákur sem nýverið hefur verið að éta sand.

Aðrir ættu einnig að vara sig. Hafið ykkur hæga, dónaskapur er mun dýrari en þið haldið.
Það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur.