Mikkel Kessler... eftir Calzaghe??? Ætla að skrifa nokkrar línur um Mikkel Kessler, sem komið hefur með ferska vinda inn í yfirmillivigtina undanfarið eftir vægast sagt einsleit ár.

Drengurinn er danskur, frá Amager i Kaupmannahöfn en býr í Flensburg sem er rétt sunnan við landamæri Danmerkur og Þýskalands. Hann hefur alla sína tíð verið mikill íþróttamaður og hefur prófað margar greinar, en boxið var hans rétta hilla í lífinu. Virðist í viðtölum í Danmörku vera hinn viðkunnanlegasti, afslappaður og glaðvær. Umboðsmaður hans, Mogens Palle er gamall hundur í bransanum, búinn að vera í ein fimmtíu ár í þessu. Kessler er myndi samt flokkast sem einn besti (ef ekki sá besti) sem Palle hefur haft.

Flottur ferill, 39-0 þar af 29 sigrar á rothöggi. Heimsmeistari hjá WBC og WBA samböndunum. Hefur aldrei verið sleginn í gólfið og hefur í raun aldrei verið í hættu í bardögum sínum, sem spekúlantar velta fyrir sér hvort það sé hans helsti veikleiki. Gæti verið, en hefur samt unnið marga sterka andstæðinga. Getur seint talist reynslulaus boxari svo maður veit ekki hvort þetta sé veikleiki.
Vann Anthony Mundine, sem er í þriðja sæti á www.boxrec.com, mjög sannfærandi á stigum, rotaði síðan heimsmeistarann Markus Beyer í þriðju lotu í nóvember s.l. Síðasti sigur hans kom um síðustu helgi þegar hann barði Librado Andrade frá Mexíkó sundur og saman í 12 lotur og fékk fullt hús stiga hjá öllum dómurum. Það var vægast sagt ótrúlegt að Andrade hafi staðið uppi eftir 12 lotur, hann átti aldrei möguleika greyið.

Mikið er talað um hugsanlegan bardaga við stóra meistarann í þyngdarflokknum, Joe Calzaghe frá Wales. Það yrði óskabardagi fyrir Kessler, sem hann að mínu mati ætti góðan séns á að vinna. Enginn efast um hvort hann sé hæfur andstæðingum fyrir Calzaghe, spurningin er bara hvort Joe vilji mæta honum. Ef Kessler vill teljast bestur verður hann að vinna Calzaghe eða þá að Calzaghe myndi tapa illa. Ef Calzaghe vill teljast óumdeildur meistari aftur verður hann að vinna Kessler. Svo einfalt er það. Því miður fyrir boxáhugamenn flækir það málin að Joe Calzaghe, sem er orðinn 35 ára, langar til að ljúka ferlinum með sem mestann pening í vasanum, hann vill verða stjarna í USA. Þannig að um næstu helgi berst hann við Peter Manfredo Jr., contender þáttakanda með meiru. Það er mikil HBO lykt af þeim bardaga en það er svosem ekkert að því, svo lengi sem Calzaghe mætir Kessler í næsta, eða næstu bardögum sínum.

Svo ég vona að þetta verði að veruleika, Calzaghe vs Kessler yrði flottur bardagi og HBO vilja örugglega gefa þeim smá vasapening fyrir erfiðið.

Aðrir andstæðingar sem eru í umræðunni fyrir Kessler eru Anthony Mundine, Jeff Lacy og Alejandro Berrio í sama þyngdarflokki. Síðan eru menn að velta fyrir sér Jermain Taylor og jafnvel Bernard Hopkins sem andstæðingum en það er nú frekar tæpt held ég.

Eitt er samt víst að Kessler er búinn að koma sér á heimskortið og getur orðið mjög stór, það eru spennandi tímar framundan í yfirmillivigtinni!!