Boxveröldin er loksins að vakna eftir leiðinlegan haustdvala þar sem lítið hefur gerst og það sem hefur gerst hefur ekki verið sjónvarpað.
Hinsvegar eru gleðitímar framundan fyrir blóðþyrsta barbara eins og sjálfan mig og stórir bardagar hvern einasta laugardag í Nóvember.

Hér fyrir neðan ætla ég að rýna aðeins í þennan mánuð þar sem fjölmiðlar á íslandi eru enganvegin nógu duglegir að gera slíkt.

*** 6. Nóvember ***

Kostya Tszyu - Sharmba Mitchell

Hvað er gott orð yfir Rematch? Endur-mæting? Allavegana er þetta einn af 3 slíkum bardögum þennan mánuðinn. Þetta er í annað skiptið sem þeir mætast en í fyrra skiptið þurfti að stöðva bardagann sökum meiðsla í hnéi sem Mitchell hlaut.
Ég er enginn Kostya Tszyu aðdáandi. Það er aðallega út af því að hann rotaði Zab Judah, boxara sem ég átti von á að mundi sigra heiminn (og Tszyu) en sökum eigin heimsku lét plata sig og rota. Ég er ósanngjarn í dómum mínum að því leitinu til að ég á það til að missa allt álit á boxurum sem rota goðin mín, sem er kannski ekki rökrétt hugsun. Tszuy er samt bardagahundur og ég gef honum lof fyrir það. Hann er höggþungur, útreiknaður, gífurlega vel skólaður og einbeittur og auðvitað er hann óumdeilanlega kóngurinn í veltivigtinni þó hann beri aðeins IBF beltið í súpu meistaratitla.
Mitchell er teknískari en Tszyu. Hann beitir yfirburðar hraða og gangsóknum gegn andstæðingum sínum enh hefur þó verið mistækur. Það var mál manna að Tszyu væri að sigra í fyrri bardaga þeirra, sem ég sá reyndar ekki, áður en Mitchell þurfti að hætta.
Forsendurnar eru örlítið öðruvísi núna. Mitchell er búinn að vera gífurlega aktífur upp á síkastið og berjast oft, á meðan Tszyu hefur ekki barist í á annað ár sökum meiðsla sem hafa hrjáð hann. Þetta getur vissulega spilað inn í og er mjög mismunandi hvernig boxarar koma til baka eftir meiðsli og svona langan tíma á bekknum.

Spá: Tszyu á eftir að rota hann þegar líða tekur á bardagann. Skít á 9. lotu. Hann á vafalítið eftir að vera riðgaður og Mitchell á eftir að frústirera hann með hraðanum, en pressuboxunin á eftir að ná til Mitchells og hraðinn og fæturnir munu fara með úthaldinu.


*** 13. Nóvember ***

Johnny Ruiz - Andrew Golata

Bardagi um WBA titilinn í þungavigt sem Johnny Ruiz ber.
Johnny Ruiz er vafalaust leiðinlegasti heimsmeistari þungavigtarsögunnar, en hann er óumdeilanlega efektífur. Með sínum óendanlega leiðinlega grípa-slá-grípa stýl hefur honum tekist að sigra jaxla á borð við Evander Holyfield, Hasim Rahman og Fres Oquendo. Hann brýtur niður vilja andstæðinga sinna með hreinum leiðindum að því er virðist. Í alvörunni, hann er stórmerkilegur. Hann hefur enga boxhæfileika sem hægt er að sjá. Hann er ekki höggþungur, hann er ekki hraður, hann er ekki vel skólaður, hann er enganvegin teknískur. Hann er engöngu góður í að halda, skalla og liggja…og það sorglega er að það virðist virka. Það er aðeins þegar boxarar geta haldið sig frá honum sem þeir virðast geta náð honum eins og sást bersýnilega þegar Roy Jones Jr. rassskelti hann um árið.

Andrew Golata. Ég fíla Andrew Golata. Hann er fullkomlega klikkaður og á í raun ekki heima í hnefaleikahring. Hann fær taugaáfall í öðrum hverrjum bardaga og hefur einhverja sjúkar tilhneygingar til þess að slá aðra menn í punginn. Fyrir utan þessa smávægilegu vankanta er hann þrusuboxari. Hann lamdi Riddick Bowe sundur og saman í báðum bardögum þeirra og hefði unnið þá sannfærandi hefði hann ekki verið dæmdur úr leik í þeim báðum fyrir neðanbeltishögg. Hann var að lemja Michael Grant í klessu þegar hann fékk á sig eitt gott högg og gafst upp. Síðan var hann reyndar steinrotaður af Lennox Lewis í 1. lotu í bardaga þeirra og hætti eftir aðra lotuna á móti Mike Tyson, sem eftir á að hyggja var afar skynsamlegt hjá honum þar sem það kom í ljós að hann högg Tysons hefðu brákað 2 hálsliði, brotið á honum kjálkann og losað um disk í hálsinum og gekk einn taugasérfræðingur svo langt að halda því fram að hann hefði hugsanlega látið lífið hefði hann haldið áfram.

Það sem er einna áhugaverðast við þennan klikkaða pólverja er sú staðreynd að ef að pólitík í hnefaleikum væri rétt háttað væri hann líklegast IBF meistarinn í þungavigt í dag, en það er mál manna að hann hafi gert meira en nóg á móti Chris Byrd fyrr á þessu ári til að taka titilinn. En svona er nú lífið bara.

Spá: Golata á eftir að hætta. Honum á eftir að ganga vel framan af en pressa Ruiz á eftir að ná til hann og leiðindin buga hann. Golata er þrusugóður boxari sem á vel inni að vinna gaur eins og Ruiz ef að hausinn væri rétt skrúfaður á hann, sem hann er því miður ekki.

Chris Byrd - Jameel McCline

Chris Byrd er leiðinlegur boxari. Hann er teknískt mjög góður, vel skólaður og snöggur en hann er bara svo óendanlega leiðinlegur í áhorfi. Hann er svona boxari sem sogar alla spennu úr bardaga, en góður er hann óumdeilanlega. Hann hefur sigrað ekki ómerkari menn en Evander Holyfield (hver er annars ekki að sigra Evander Holyfield þessa dagana?), David Tua, Andrew Golata og núverandi þungavigtarkónginn Vitali Klitchko (síðari tveir reyndar mjög umdeilanlegir þar sem flestir töldu Golata hafa sigrað þeirra bardaga og Klitchsko var langt yfir á stigum þegar hann meiddist á öxl og þurfti að hætta).
Ég veit ekki afhverju Byrd fer svona í mig. Kannski er það af því að hann er Repúblíkani og Bush stuðningsmaður. Kannski er það vegna þess að hann er öfgakristinn. Kannski er það af því að hann er Don King boxari og Don King boxarar fara undantekningarlítið í taugarnar á mér (Felix Trinidad undanskilinn). Líklegast er það samt út af því að hann er alltaf brosandi Colgate brosinu sínu. Kannski er það einhver asnaleg tilgerðarkarlmennska í mér, en mér finnst eitthvað rangt við stríðsmann sem alltaf brosir. Hefði maður verið að kaupa Maximus í Gladiator hefði hann alltaf verið skælbrosandi einhverju helvítis ljósmyndabrosi sama hvað hann var að gera?

Andstæðingur hanns, Jameel McCline, er líka besti vinur hanns. Ég veit ekki návæmlega hvað það þýðir fyrir bardagann. Hvort það þýði að þeir muni faðmast eitthvað meira en eðlilegt þykir. Líklegast þekkja þeir hvorn annan það vel að um hundleiðinlegan bardaga verði að ræða. McCline er risi að vexti, rúmlega tveir metrar, en samt ekkert sérstaklega höggþungur og hefur eiginlega aldrei lært að nota þessa líkamsstærð sér í hag. Hann rotaði Michael Grant sem er ekkert sérstaklega merkilegt þar sem hann er rotaðir í öðrum hverjum bardaga þessa dagana. Wladimir Klitchko fletti ofan af honum með því að berja hann sundur og saman og rota hann síðann. Hef ekki mikla trú á honum.

Spá: Byrd tekur þetta á stigum í afar bragðdaufum pot bardaga þar sem lítið gerist. Byrd er að eldast og það er tekið að hægja á honum þannig að ef að McCline lærir að nota stunguna á einni nóttu gæti svosem eitthvað gerst. Býst ekki við neinum flugeldum.

Hasim Rahman - Kali Meehan

Þann 22. apríl árið 2001 var Hasim Rahman á toppnum á veröldinni. Lennox Lewis lá fullkomlega út úr heiminum fyrir framan hann og allt í einu var þessi nánast óþekkti boxari orðinn óumdeilanlegur heimsmeistari í þungavigt. Haldin var skrúðganga honum til heiðurs í Baltimore og framtíðin var björt. 17 Nóvember sama ár var það Rahman sem lá líflaus í striganum eftir banvæna yfirhandar hægri hjá betur þjálfuðum Lennox Lewis. Hasim Rahman hafði verið óumdeildur meistari í rétt rúmlega hálft ár.
Eftir þetta var allt niður á við. Tap fyrir Evander Holyfield, tap fyrir Johnny Ruiz og jafntefli við David Tua. Það var eins og Rahman hefði misst listina.
Eftir þessa eldskýrn færði hann sig aftur í undirstöðurnar og úr sviðsljósinu. Hann tók að berjast oft og á móti slakari andstæðingum, byggjandi upp sjálfstraustið og viljan þangað til að hann kæmist aftur á þann stað sem hann var á fyrir fyrri Lewis bardagann. Bardaginn við Meehan er næsta skrefið í því ferli.

Fæstir hafa heyrt um Kali Meehan en hann er enginn aumingi. Þessi 34 ára gamli Nýsjálendingur hefur aðeins tapað tvisvar. Í fyrra skiptið var hann rotaður af Danny Williams sem rotaði Mike Tyson fyrr á þessu ári, og í seinna skiptið tapaði hann mjög umdeilanlega á móti WBO meistaranum Lamon Brewster nú í sumar. Meehan er pressuboxari, sæmilega teknískur og hefur nokkuð gott úthald. Svosem ekkert meistaraefni en samt enginn sem maður tekur léttilega.

Spá: Rahman rotar Meehan einhverstaðar í kringum miðloturnar. Rahman er að finna sjálfstraustið aftur og á góðum degi er hann einn allra teknískasti þungavigtari veraldar. Hann hefur yfirburðarstungu og er afar höggþungur. Ef hann er í formi ætti Meehan ekki að vera svo mikil fyrirstaða en Meehan gæti þó komið á óvart eins og hann gerði gegn Brewster

Evander Holyfield - Larry Donald

Hvað er Holyfield orðinn gamall? 170 ára? Í alvöru talað, það ættu að vera einhver ríkisrekin nefnd sem hefur velferð þessara gömlu jaxla á oddinum því að ekki sjá þeir um sjálfa sig. Holyfield á nægan pening, hann hefur unnið allt sem hann getur unnið. Það er ekkert sem keyrir þennan mann áfram nema blint meistarastolt og það virðast allir sjá það nema hann sjálfur að hann er búinn. 2 sigrar í síðustu átta bardögum ætti að vera vísbending fyrir kallinn, en hann neitar einfaldlega að viðurkenna þetta fyrir sjálfum sér.
Hann er 42 ára í íþrótt þar sem meðal maðurinn brennur út í kringum 35 ára aldurinn, að halda áfram á þessari braut er einfaldlega hættulegt fyrir heilsu hans. Hann var góður, ofmetinn en góður. Síðasti raunverulega marktæki sigur hans var árið 1996 þegar hann rotaði Tyson, sem þá var nýkominn úr fangelsi og tilfinnanlega illa þjálfaður og ryðgaður. Ruiz sigraði hann. Byrd sigraði hann. James Toney rotaði hann.

Larry Donald er svosem enginn stórkarl. Þeir stóru bardagar sem hann hefur barist hefur hann tapað, en það er svosem ekki á móti neinum aumingjum. Riddick Bowe, Kirk Johnson og Vitali Klitchko hafa allir tekið hann.
Ég viðurkenni að ég veit ekkert um Donald nema að hann hefur sigrað B boxara á borð við Phil Jackson, Ross Puritty og Sedrick Fields.

Spá: Æi. Ég veit ekki hvort maður eigi að láta gamla manninn njóta vafans og gefa honum þennan bardaga. Donald hefði líklegast ekki staðið út bardagann gegn 35 ára gömlum Holyfield en nú er öldin önnur. Donald á stigum.


*** 20. Nóvember ***

Shane Mosley - Winky Wright

Shane Mosley var maðurinn. Topp 10 pund fyrir pund á listum flestra og eini maðurinn á þeim tíma sem óumdeilanlega hafði sigrað Oscar de la Hoya. Síðan mætti hann hinum slynga Vernon Forrest sem gjörsigraði hann í tvígang og sló hann niður í fyrsta skipti á ferlinum. Síðan þá hefur Mosley verið niður á við. Hann sigraði reyndar De la Hoya í seinni bardaga þeirra en þó mjög umdeilanlega. Þessi ómannlegi hraði og mýkt sem hann hafði virtist vera að hverfa og þegar hann mætti hinum ofurklóka Ronald “Winky” Wright nú í vor átti hann ekki séns. Hann var fullkomlega útboxaður og gjörsigraður á stigum.

Wright er enginn aukvisi. Hann er líklegast sá boxari sem flestir hafa forðast í létt millivigtinni síðustu 5 árin. Hann hefur verið IBF meistarinn síðan 2002 og er nú óumdeildur meistri eftir sigur sinn á Mosley. Þessi örvhenti meistri hefur 3 töp á ferlinum, þar af tvö sannfærandi. Annarsvegar á móti goðinu Julio César Vásquez og á móti Fernando Vargas. Hann er teknískur, óhugnarlega vel skólaður með snarpa stungu sem gerir hraða Mosleys að engu. Hann er stærri frá náttúrunar hendi og getur því Mosley ekki beint styrk sínum gegn honum eins og hann stólaði mikið á í léttari þyngdarflokkunum.

Spá: Mosley hefur rekið pabba sinn sem þjálfara og nýtur nú leiðsagnar hins sögufræga Joe Goossen. Þeir segjast hafa fundið hungrið og endurheimt hraðann. Ég trúi því þegar ég sé það. Wright á stigum.


*** 27. Nóvember ***

Marco Antonio Barrera - Erik Morales

Jæja, hérmeð líkur þessari epísku trílógíu þessara smávöxnu stríðsmanna. Fyrsti bardagi þeirra er af mörgum talinn einn besti bardagi síðustu 10 ára. Þeir stóðu á móti hvorum öðrum og skiptust á höggum hverja einustu sekúndu af hverri einustu lotu. Margir töldu Barrera hafa gert nóg til að sigra en Morales var gefinn sigurinn. Seinni bardaginn var taktískari en samt mjög skemmtilegur. Þeir kunnu núna greinilega betur á hvorn annan og því minna um bein viðskipti, en þau sem komu voru rafmögnuð. Flestur töldu Morales hafa sigrað þá orrustu en Barrera hlaut samt sigurinn.

Þá er komið að síðasta bardaga þessara kappa. Þessi á að skera úr um hver er í raun besti fjaðurvigtarboxari veraldar (eða í þessu tilviki, Yfirfjaðurvigtarboxari).
Morales hefur verið ósigraður og samkvæmur sjálfum sér síðan í síðasta bardaga þeirra. Sigrað sannfærandi í síðustu 6 bardögum sínum.
Barrera hefur ekki verið jafn heppinn. Hann mætti mannlega hvirfilbylnum Manny Pacquiao frá Filipseyjum sem barði Barrera sundur og saman í 11 lotur áður en hornið hanns stöðvaði bardagann til að stoppa ofbeldið. Síðan þá hefur hann barist einusinni og sigraði þá gamla brýnið Pauly Ayala sannfærandi.

Spá: Barrera fer í taugarnar á mér. Hef ekki hugmynd um afhverju. Ég er Morales maður og hef ég í raun ekki mikið meira fyrir mér í minni spá heldur en það. Morales hefur verið sannfærandi og samkvæmur sjálfum sér á meðan Barrera hefur tapað illa. Morales á stigum.


Ok. Þessi samantekt varð örlítið lengri en áætlað var. Ég mæli líka sterklega með frumsýningu endurkomu bardaga Felix Trinidad sem sýndur verður á Sýn í kvöld fyrir Tszyu - Mitchell bardagann. Sýn skeit á sig og sýndi hann ekki beint og eru víst eitthvað að klóra í bakkann. Ekki missa af honum, líklegast bardagi ársins.