Takk fyrir og Bless Það er eitthvað mjög aftengjandi og sorglegt við að sjá stríðsmann og fyrstu raunverulegu hetjuna sína lúta í strigann í síðasta skiptið.

Ég man þegar ég var 11 ára gamall. Ég hafði lítinn áhuga á íþróttum og ekkert vit á hnefaleikum. Allt í kringum mig var samt verið að hvírsla “Tyson…hann er kominn aftur”. Auðvitað þekkti ég nafnið, reyndar þekkti ég bara tvö nöfn: Muhammed Ali og Mike Tyson. Ég vissi úr fréttum að hann væri nýkominn úr fangelsi fyrir nauðgun og að hann hafi verið besti þungavigtari síðustu 20 ára.
Sýn var nýbyrjuð að sýna hnefaleika, raunverulega út af endurkomu Tyson, og var það í raun fyrir tilviljun að ég vakti eftir bardaga í þetta fyrsta skipti, það var bardaginn á móti Frank Bruno. Ég hafði ekkert álit á hnefaleikum, hvorki gott né slæmt, þetta var einfaldlega íþrótt sem ég þekkti ekki. En jafnvel ég, fullkomlega grænn, fann rafmagnið og spennuna sem fylgdi því að sjá Mike Tyson ganga inn í hringinn. Enginn sloppur, engir sokkar, aðeins hvítt handklæði og svörtu stuttbuxurnar. Ég man eftir að sjá skot framan í Frank Bruno, sem þó hafði mætt Tyson áður, og augun á honum sögðu allt sem segja þurfti um hvaða mátt þetta nafn, þessi goðsögn hafði. Augun voru stjörf, andlitið var tilgerðarrólegt en augun voru gjörsamlega stjörf af hræðslu.
Þremur miskunarlausum lotum síðar var bardaginn búinn en það var eitthvað sem var rétt að byrja hjá mér.

Frá þessum bardaga varðég hugfanginn af þessu fyrirbæri. Ég segi fyrirbæri því að þetta er í rauninni ekki íþrótt eins og flestar íþróttir eru íþróttir. Það er enginn bolti, ekkert prik eða stöng. Í eðli sínu eru þetta bara tveir menn og ekkert annað. Til að skilja hvað dregur mig og vafalítið fjölda annara að þessu sporti er vert að útskýra hvað hnefaleikar eru fyrir mér.
Í minni heimspeki legg ég mikið upp úr því að til þess að geta lifað lífi sem hefur eitthvað gildi þá þurfi að finna brúnina og lifa á henni, alltaf draga sig á næsta stig í ögrun á sjálfum sér. Hnefaleikari fyrir mér er lifandi samlíking fyrir lífið á brúninni. Flestir þeir sem ég hef talað við sem hafa óbeit á hnefaleikum sjá grimmilegt ofbeldið, reiðina og blóðið. Tvo fullvaxna menn að slá hvorn annan þangað til annar fellur.
Samkvæmt okkar vestrænu siðferðisskilgreiningu er þetta einfaldlega rangt, grimmilegt og hættulegt.
Það er hinsvegar ekki ofbeldið í eðli sínu sem dregur mig að þessu. Það er hugarfarið, vinnan og fórnin sem er sannt eðli hnefaleikanna sem dróg mig upphaflega að og hefur haldið mér hugföngnum í þennan tæpa áratug.
Hnefaleikar er erfiðasta íþrótt í heiminum. Þetta er staðreynd samkvæmt ýmsum könnunum sem gerðar hafa verið á íþróttamönnum og æfingakerfum um heim allan. Hnefaleikar krefjast styrks, úthalds, hraða og samhæfingu í jöfnu mæli og ekkert má koma á kostnað hins. Allt verður að vera í fullkomnu samræmi. Hnefaleikarar æfa úthaldsæfingar svo stíft að það var fundið upp nýtt hugtak í kringum það sem kallast “the vomit zone” en eins og nafnið gefur til kynna er æftþangað til hjartað nær svo mörgum slögum og lungun pumpa svo miklu lofti að maginn fær bókstaflega krampa og boxarinn kastar upp. Fáir íþróttamenn leggja slíkt á sig, vvað þá venjulegir menn.
Hnefaleikarar þurfa að keyra bæði líkama og sál að endamörkunum á hverru einustu æfingu, reyna að draga sig lengra í hvert skipti. Afhverju að leggja slíkt á sig? Því þeir einfaldlega þurfa þess því að ef að allt er ekki í toppstandi þegar á hólminn er komið eru þeir dauðadæmdir, því að í hringnum ámóti þeim er alltaf mðaur meðþað eina takmark að svipta þá heilsunni.
Boxarar eru oft sakaðir um að vera hrokafullir. Það þarf vissan hroka til að höndla pressuna sem atvinnumannahnefaleikar hafa. Það þarf fullkomna sjálfsstjórn, sjálfsaga og sjálfstraust. Ef maður efast eitt augnablik getur það augnablik kostað mann allt. Annað en í mörgun íþróttum þýðir eitt tap nánast dauðadóm fyrir hnefaleikara. Maður getur ekki átt slæman leik og bara “gengur betur næst” heldur er manni sparkað minnst 2 ár til baka í vinnu. Allt að vinna öllu að tapa.

Allt þetta gerir henfaleika í mínum augum eitthvað stærra og meira en hefðbundna íþrótt. Og meira en það er það hreinleikinn í henni. Vissulega er pólitíkin í kringum box grútskítug og spillt en hnefaleikarnir sjálfir eru í eðli sínu tærir. Aðeins tveir menn og 12 únsu hanskar. Allt lagt á borðið. Öll orð, allur hroki, öll pólitík, allar þessar félagslegu flækjur sem slá sandi í augun á manni í þessari veröld sem við búum í skipta engu máli í hnefaleikahringnum. Maður getur engu logið þar, enginn kemst upp með egó í kredit. Hversu langt ertu tilbúinn að fara fyrir sigurinn? Hvað þolir maður áður en maður brotnar? Hversu stórt hjarta hefurðu í raun og veru?
Þetta eru allt spurningar sem flestir þora sjaldnast að spurja sig og enn sjaldnar að svara en það gera hnefaleikarar í hvert skipti sem þeir stíga inn í hringinn.
Fólk kallar þá óæskilegar fyrirmyndir fyrir börn. Hvað getur verið betri fyrirmynd spyr ég? Í samfélagi tilgangsleysis, aðgerðarleysis og upplausnar höfum við þessa tegund af mönnum (konum) sem tilbúinir eru að leggja bókstaflega allt í sölurnar til að ná markmiðum sínum, tilbúin að finna brúnina og búa þar allan sinn feril. Vissulega er þetta fólk mannlegt og hefur sína mannlegu breyskleika og gerir mistök en það gengur samt lengra en flestallir aðrir.
Hnefaleikar eru svo fullkomin myndlíking yfir lífið sjálft.
Ég trúi því að mótlæti skilgreini fólk. Hvernig maður bregst við öllu því slæma sem kemur fyrir mann? Bugast maður eða kemst maður frá því sterkari, beyttari og reyndari? Sama gildir með hnefaleika. Hvernig bregst maður við fyrsta þunga högginu sem maður tekur á sig?

“Everybody's gotta plan until they get hit”

Þetta mælti Mike Tyson fyrir löngu síðan og er þetta sannleikurinn um hnefaleika í hnotskurn. Allir koma inn með bardagaáætlun sem þeir reyna að framkvæma alveg þangað til að fyrsta þunga höggið kemur, þá er það viljinn, hjartað og úthaldið sem ræður. Hversu þung högg þolirðu áður en þú bugast?

Mike Tyson þurfti 27 hrein rothögg áður en hann sökk í strigann í Kentucky í nótt. Fæturnir voru farnir, úthaldið búið, vörnin farin og ekkert eftir nema hjartað og það stóð af sér 27 stór högg og reyndi að svara með einni svaðalegri yfirhandar hægri áður en að yfir lauk.
Í raun var bardaginn í gær ágætis dæmi um allt það sem ég er búinn að nefna í þessari færslu.
Mike Tyson byrjaði vel, kom inn með tvöfalda beina stungu og fylgdi eftir með vinstri krók. Klassískur Tyson. Williams vissi ekki hvað á sig stóð veðrið og áður en að lotunni lauk komst Tyson inn með nokkra svaðalega hægri króka og þurfti Williams bókstaflega að hanga á Mike Tyson til þess að falla ekki í strigann, svo vankaður var hann. Nokkrum sekúndum síðar undirbjó Tyson vinstri krók og gerði sig líklegan til að slida til hægri þegar hann skyndilega kikknar í hnjánum og mikill sársauka svipur kemur yfir andlitið. Fyrsta sem maður hugsaði var að Williams hafi vankað hann en það gat bara ekki verið þar sem hann hafði ekki komið með hreint högg alla lotuna. Bjallan glumdi og Tyson gekk í hornið, óstöðugur og enn kveinkandi sér. Maður sá hann hvírsla einherju í eyra þjálfara síns og þjálfaran hvírsla til baka og Tyson hristandi hausinn.
Það kom í ljós í dag að Mike Tyson hafi slitið liðband í vinstra hnéi. Meiðsli sem maður sér knattspyrnumenn öskrandi og veinandi út af á fótboltavöllum áður en þeir eru bornir út af. Freddie Roach þjálfari Tysons spurði hann hvort hann vildi hætta eftir þessa lotu en Tyson hristi höfuðið. Hann hristi höfuðið því að hnefaleikarar hætta ekki nema á bakinu, engin meiðsli stöðva þá (eitthvað sem andstæðingur Tysons, Danny Williams þekkti þar sem hann hafði sjálfur þurft að berjast bardaga með hægri höndina úr axlarlið). Eftir þetta var Tyson einvíður, hann gat ekki notað fótaburðinn, gat ekki hreift sig til hliðar og það sem verra var að hann gat ekki sest á höggin og slegið af neinum almennilegum krafti. Þessi meiðsli voru sem sagt sambærileg við að vera vopnaður púðurskotum í byssubardaga. En hann hélt áfram í 2 lotur. Sársaukinn dragandi allan kraft og allan vilja úr honum. Reynandi eftir mesta megni að koma inn þessu eina höggi.
Í 4 lotunni fann Williams að bardaginn var fyrir hann að vinna og lagði allt í sölurnar og eins og áður kom fram þurfti 27 af hans bestu höggum til að fella meiddan andstæðing sinn.
Eftir sat heimurinn í sjokki. 20 ára tímabili í hnefaleikasögunni var lokið 2 mínútur og 51 sekúndu inn í 4. lotuni í þessum svokallaða upphitunarbardaga Mike Tysons.

Hvað gerði Mike Tyson að þessari goðsögn? þessu nafni sem hvert mannsbarn kannast við? Það var einhver galdraára sem fylgdi honum alltaf. þetta loforð um hið óútreiknanlega og hættulega. Hann er jafn dramatískur persónuleiki og hann er boxari og fólk fylktist að þeim elementum. Fyrir suma var þetta eins og að fylgjast með bílslysi sýnt hægt. Horfa á mann kerfisbundið rústa lífi sínu og ferli. Fyrir aðra var það trúin að hann gæti einhverntíman orðið það sem hann var, þetta óstöðvandi afl sem hann var í lok 9. áratugarins. Tímabil sem ég því miður upplifði aldrei.
Það sem gerði mig samt að þeim aðdáanda sem ég er, er í raun ekkert af þessum hlutum, í raun ekki einusinni þessi ótrúlega sókndyrfksa, grimmd og höggþungi sem felldi margan boxarann í gegnum árin. Nei, það var hugarfar boxarans sjálfs. Hvernig hann sá stöðu sína og markmið í hnefaleikasögunni. Fyrirmyndir Mike Tysons eru nefnilega ekki bara Jack Dempsey og Sonny Liston heldur Ghengis Khan, Alexander Mikli og Hannibal frá karþagó. Hann boxaði ekki aðeins sem íþróttamaður heldur sem stríðsmaður. Maður með það markmið að leggja heiminn að fótum sér. Honum tókst að gera íþrótt að einhverju epísku og það er það sem fólkið dróst að. Þessi epík sem hvergi er annarsstaðar að finna.

Mike Tyson, á skjön við það sem margir halda, er ekki vitlaus. Hann þekkir sína heimssögu og meira en það er hann einn helsti fræðimaður veraldarinnar um hnefaleikasöguna, og þessvegna gerði hann sér fullkomna grein fyrir stöðu sinni þar í seinni tíð, gerði sér grein fyrir að fólk borgaði til að sjá sirkusinn en ekki íþróttamann. Tyson orðaði það best sjálfur:

“At times, I come across as crude or crass, that irritates you when I come across like a Neanderthal or a babbling idiot at times. But I like to be that person. I like to show you all that person because that's who you come to see.”

Það skiptir ekki máli hvort hann hafi í raun og veru verið kjaftfor heimskingi sem beit fólk og barði konur í hreinni geðsýki og grimmd. það sem skipti máli er að það er það sem fólkið vildi sjá og það sem hann fékk borgað fyrir að vera.
En Mike Tyson fékk leið á þessum skrípaleik. Fékk leið á því að setja á sig grímu villimanns til að græða peninga. Börnin hans eru komin á þann aldur þar sem þau eru farin að skynja föður sinn sem alþjóðlegt fyrirbæri og finna því fyrir orðsporinu. Hvernig útskýrir hann nauðgunardóminn? Allar ákærurnar? Nei, Mike Tyson ætlaði sér að verða betri maður. Hann er hættur að blóta. Hættur að fá æðisköst. Fylgdarhópurinn, ríkidæmið og súpermódelkærastan fór með gjaldþrotinu og eftir var lítil hógvær íbúð í Phoenix.
Tyson var búinn að æfa vel og lengi. Allt leit vel út. Maðurinn sem nú leitaði syndaaflausnar í lífinu ætlaði sér að ná syndaaflausn innan hringsins líka.
Í réttlátum heimi hefði þessi saga endað vel. Tyson hefði sigrað sannfærandi, keppt 6-7 bardaga og hreinsað upp þessa óspennandi þungavigt. En réttlætið blasti ekki við honum heldur blákaldur raunveruleikinn og raunveruleikinn hefur hvorki réttlætiskennd, siðferðiskennd né miskunn. Í raunveruleikanum var Mike Tyson 38 ára boxari íþrótt fyrir 28 ára menn. hann var ryðgaður, þreyttur og með slitið liðband í hnéinu á móti andstæðingi sem notfærði sér það og afgreiddi hann á sama hátt og Tyson hefur afgreitt svo marga af sínum andstæðingum og endað feril þeirra. Kaldranalegur raunveruleiki ekki satt?

Tyson mun koma aftur. Hann þarf þess peninganna vegna.
Í réttlátum heimi þyrfti hann þess ekki. En raunveruleikinn segir annað. Það er í raun eins og viss partur af persónu manns deyji þegar maður sér svona íkon falla. Eitthvað sem maður hefur fórnað miklum tíma og aðdáun í. Það verður partur af persónuleika mans og í einni andrá er því kippt út úr manni.

Ég vona bara að raunveruleikinn gefi Mike Tyson frið þó að hann hafi svipt hann ríkidæmi og aflausn.