Ég hef tekið eftir því að enginn hefur sent inn grein um 8. mars hér á boxinu þ.a. ég ákvað að skrifa niður það sem mér fannst. Til að byrja með þá eiga framkvæmdaraðilar heiður skilinn fyrir að hafa gert þetta kvöld að raunveruleika. Ég tók sjálfur þátt á mótinu og sá frekar lítið af því vegna þess að ég hélt mig mest bakvið í upphitun og undirbúning. Núna er ég búinn að sjá allt saman á sjónvarpsskjá og mér finnst Salvar og Sigurjón hafa unnið þrekvirki í að koma öllu til. Annað sem ég vil nefna er að hugmyndin um að sjónvarpa kvöldinu á Skjá einum var algjör snilld. Viðbrögðin eftir keppnina eru slík að ég held að flestallir landsmenn hafi stillt inn á Skjá einn, ef ekki allt kvöldið þá við og við. Keppni af þessu tagi á ekki að vera í lokaðri dagskrá, ungt fólk er sennilega í meirihluta sem hefur áhuga á svona keppni og því nær keppnin mun betur til þeirra en ef útsendingin væri læst á Sýn.
Það er einnig eitt sem mig langar að tala um varðandi þátttöku mína þetta kvöld og það er að mér finnst frábært að finna hvað fólk stóð vel bakvið mann þegar keppnin fór fram. Andinn í höllinni var bæði rafmagnaður og léttur, ég get ekki betur séð en að mót af þessu tagi muni ná sterkri fótfestu hér á landi því (með allri virðingu og margir eru örugglega sammála mér) að skemmtanagildið er miklu meira en á stórum boltaleikjum. Bæði vegna þess að maður er að skemmta sér heilt kvöld, boðið er upp á margar viðureignir, og auðvitað er miklu áþreifanlegra að sjá mann vinna eða tapa í svona íþróttum heldur en þar sem bolta er grýtt í net.
Við megum hins vegar passa okkur á því að taka ekki mótherjum okkar (í þessu tilfelli Dönum og að sjálfsögðu Hollendingnum) sem einhverju annars flokks pakki. Í öllum tilfellum voru þetta hreinir íþróttamenn sem komu mjög vel fram við alla og gerðu sitt besta. Að dissa mótherja sinn fyrir viðureign finnst mér vera merki um veikleika og óöryggi. Maður talar einungis í hringnum. Þetta á sérstaklega við um þann sem kynnir, þótt Dani tapi er hann ekki “Baunakássa”.
Þessi viðburður hefur einnig þau áhrif á mig að þetta virkar sem vítamínsprauta inn í “Budo” heiminn á Íslandi. Ég er búinn að æfa Karate í mörg ár og þessi þátttaka mín þessu móti er ekkert annað en stækkun sjóndeildarhrings í þjálfun og þroska bardagaíþróttanna. Ég vil einnig nefna tvo menn sem komu inn í kvöldið og sýndu BÁÐIR hve vel þjálfaðir þeir eru en það eru Árni og Ingþór. Árni hefur greinilega mikla hörku og góða þjálfun og Ingþór sýndi mér mikinn karakter í að halda sér slökum í viðureign sinni fyrst um kvöldið og sigra auðveldlega.
Lykilatriðið fyrir mér er þetta: Þarna komum við öll og sáum öll, töpuðum nokkur og sigruðum nokkur. Martial arts heimurinn á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár og þetta sem ég segi hér eftir er staðreynd hvað sem tautar og raular.
Við eigum nokkra TOPP júdómenn, Venni, Bjarni, Vignir, o.fl.
Við eigum TOPP TKD mann, Bjössi,ásamt nokkrum mjög efnilegum.
Við eigum TOPP Karatefólk, Ingó, Edda, Jonni, Dóri, ásamt nokkrum mjög efnilegum.
Við eigum TOPP MT menn, Árna og Ingþór, örugglega einhverjir efnilegir
Við eigum MJÖG frambærilega framtíðarboxara, of margir til að nefna en við þekkjum þá flesta.
Annað. Fullt af fólki að stunda Jiu Jitsu, Aikido, o.fl.
Ef allur þessi hópur er talinn upp ásamt öllum þeim sem stunda bardagaíþróttir þá held ég að prósentukakan af íþróttalífinu hér á landi sé mjög stór.