Box eða hnefaleikar er íþrótt sem er ólögleg hérlendis, þ.e.a.s það er bannað að keppa í henni en mér vitanlega er ekki bannað að kenna hana eða þjálfa. Eftir að hafa gengið með löngun til að stunda þessa “villimannslegu” íþrótt lengi vel, tók ég mig til og hafði samband við Hnefaleikafélag Íslands, sem staðsett er í Hafnarfirðinum. Þegar ég hringdi í félagið, talaði ég við vingjarnlegan mann sem hvatti mig eindregið til að koma og prófa og fékk ég meðal annars að vita að konur borguðu helmingi lægra verð fyrir mánaðarkortið en karlar, til að hvetja þær til þáttöku í íþróttinni. Mjög jákvæð mismunun, verð ég að segja! Svo ég dreif mig uppeftir og það var ekki laust við dálítinn hjartslátt hjá minni þegar ég sá að þegar inn var komið voru einungis karlmenn til staðar. Hjartslátturinn var þó að ástæðulausu því ég varð ekki vör við og hef ekki enn orðið vör við nokkra “engar stelpur” stemningu. Karlmenn eru vissulega í miklum meirihluta en þáttur kvenna virðist fara hægt og hægt vaxandi. Umhverfið er heldur ekki ókvenvænt, a.m.k. ekki við fyrstu sýn, reyndar má auglýsingabæklingur frá Hnefaleikafélaginu, sem skartar hálfnakinni konu sem hylur brjóstin á sér með boxhönskum, alveg missa sín! Ég hef ekki enn orðið vör við slíkar konur þarna upp frá og býst ekki við því, auk þess hefur box bara ekkert með kynþokka kvenna að gera.
Boðið er upp á tvenns konar kennslu, tæknibox fyrir byrjendur og lengra komna og einnig svokallað “fitness box”. Í tækniboxinu eru “réttu handtökin” kennd og í fitness boxinu er mikið púl, góð brennsla en ekki farið eins vandlega í tæknina. Það er skemmst frá því að segja að í fitness boxinu er iðulega um helmingur þáttakenda stelpur og í tækniboxinu fyrir byrjendur var ég þar til fyrir viku síðan eina stelpan. Ég hef velt því fyrir mér hvernig á þessu stendur. Er það þetta venjulega sem okkur kvenfólkinu virðist því miður vera svo tamt, að ráðast á miðjan garðinn en ekki þar sem hann er hæstur og að fara aldrei alla leið? Þegar ég spurði sumar “fitnessstelpurnar” að þessu fékk ég yfirleitt lítil svör nema t.d. að þær hefðu haldið að til að fara í tækniboxið þyrfti að hafa verið í fitnessinu í nokkurn tíma fyrst. Það er ekki raunin, en ekki bætir úr skák þegar einn þjálfarinn segir á Skjá Einum að þær (stelpurnar) litu á þetta sem ágætis hreyfingu ásamt eróbikkinu eða því sem þær væru í annars. Sem sagt það gæti ekki verið að nein okkar stelpnanna væri að gera þetta af einhverri alvöru, heldur værum við að þessu til að halda okkur mjóum eða hvað veit ég. Að þessum manni algerlega ólöstuðum þá er ég hrædd um að þetta sé nokkuð almennt viðhorf, að kvenfólk hafi ekkert í hnefaleika að gera af neinni alvöru. Til dæmis er ekki enn keppt í kvennaflokki í ólympískum hnefaleikum, þrátt fyrir að 21.öldin sé runnin upp! Manni finnst það ótrúlegt en svona er það engu að síður. Ég hef líka heyrt þau rök að konur eigi ekki að stunda hnefaleika vegna þess að brjóstin geti orðið fyrir skaða. Miðað við tíðni meiðsla í áhugamannahnefaleikum og annars þáttöku kvenna í þeim, þá eru þetta lítil rök. Svona svipað eins og í unglingavinnunni, að stelpurnar mega ekki slá með sláttuvélum vegna þess að eggjastokkarnir og “önnur líffæri sem eru fest með leiðurum eða þráðum” geta losnað! Eru ekki nýrun í strákum og stelpum eins fest eða hvað?
Mín upplifun af boxi er sú að þetta er skemmtileg og spennandi íþrótt sem á ekki síður við stelpur en stráka. Box útheimtir hraða, styrk, þol og góð viðbrögð og fyrir utan styrkinn veit ég ekki betur en að konur standi körlum jafnt að vígi í þessum efnum. Því miður er stelpum bara alltaf kennt að þær eigi að vera sætar og penar og að það séu bara strákar sem sláist. Ég veit ekki hvað oft á þeim mjög stutta tíma sem ég hef æft box ég hef heyrt spurninguna: “Æfirðu box? Af hverju?” Mér þætti gaman að vita hversu margir af strákunum sem ég æfi með fá þessa spurningu. Box er líka gott fyrir sjálfstraustið eins og aðrar íþróttir og ég er ekki frá því að það gæti minnkað “dyramottu”eðlið í margri stelpunni.
En þegar allt kemur til alls myndi ég segja að Hnefaleikafélag Íslands fái plús í kladdann, ekki síst fyrir það að ég hef aldrei fengið að finna fyrir því að ég sé nokkuð öðruvísi en strákarnir sem eru með mér í byrjendaboxinu, það er ekkert svona “stelpurnar mega gera armbeygjurnar á tánum”, þjálfararnir gera alveg sömu kröfur til stelpna og stráka. Mér þætti þó virkilega gaman að sjá Hnefaleikafélagið gera meiri vakningu á jafnréttissviðinu og kynna þessa skemmtilegu og fallegu íþrótt fyrir stelpum og hvetja þær til að vera með, ekki bara sem “ágætis hreyfingu”. Reyndar á ég eftir að skoða búningsklefa strákanna og komast að því hvort hann sé eitthvað flottari en stelpuklefinn svo kannski eru ekki öll kurl komin til grafar enn! En vonandi fara fleiri stelpur að sýna sig í boxinu því þetta er síðast en ekki síst rosalega gaman og vonandi láta þingmenn líka bráðum af þessum kjánaskap sínum og leyfa áhugamannahnefaleika á Íslandi.
Höfundur greinarinnar er Anna Guðlaugsdóttir
Og fékk ég hana af boxing.is