Að kenna barninu að sofna sjálfu Svefnvandamál, bæði minniháttar og meiriháttar, eru algengar áhyggjur foreldra. Barnið vill bara sofna við brjóstið/pelann, vill bara sofna í fanginu á mömmu eða pabba, vaknar 10 sinnum á nóttunni til að koma upp í o.s.frv. Ég ætla að fara stuttlega í tvær aðferðir sem oft virka mjög vel til að kenna barninu að sofna sjálfu. Þessar aðferðir tel ég ekki henta börnum sem eru mikið yngri en 4-5 mánaða, enda er mitt persónulega álit það að börn yngri en svo séu ekki komin með þann þroska sem þarf til að læra að sofna sjálf. Upp að 3-4 mánaða aldri eru aðalþarfir barna öryggi, svefn og fæða og þau þurfa flest enn á næturgjöfum að halda. Eftir 4-5 mánaða aldurinn fer vani að skipta meira máli og börn farin að sýna sjálfstæðari vilja. Vert er þó að taka fram að börn eru ekki öll eins, og sum fara fljótlega inn á ákveðan svefnrútínu nánast strax frá fæðingu, á meðan önnur sveifla svefnvenjunum meira fram og aftur.

Til að byrja með þá tel ég vera mjög mikilvægt að koma á ákveðinni rútínu fyrir svefninn, hvað leið sem síðan er valin til að koma barninu í svefn. Það er gott að gera allt í sömu röð á hverju kvöldi, þá veit barnið áhverju er von og öðlast öryggiskennd þar sem það þekkir aftur rútínuna. Þetta er líka mjög gott þegar barnið gistir annars staðar en heima hjá sér, þá er þarna allavegana eitthvað sem það þekkir og veldur öryggi á annars kannski ókunnugum stað. T.d. getur verið gott að klæða barn í náttföt, þvo því í framan og bursta tennurnar, skoða eina bók saman í rólegheitum, kyssa alla góða nótt og fara svo að sofa. Foreldrar finna auðvitað bara þá aðferð sem þeim finnst henta best.

Það er yfirleitt best að sami aðilinn sjái um að leggja barnið til svefns þegar verið er að kenna því að sofna sjálfu. Þá eru meiri líkur á að það fái sömu viðbrögð við hegðun sinni; annars kannski skynjar það að pabbi gefst fyrr upp en mamma, eða öfugt.

Fyrri aðferðin sem ég ætla að tala um er oft kölluð “Fimm mínútna aðferðin” en er til í nokkrum útgáfum. Aðalmunurinn er helst á fjölda mínútna sem talað er um að nota skuli. Í stuttu máli þá gengur hún út á það að eftir að barnið er lagt til svefns er farið út úr herberginu og ekki komið aftur inn til að hugga barnið fyrr en fimm mínútum seinna, þó svo það gráti. Að mínu mati er heppilegra að byrja á einungis einni til tveimur mínútum og lengja svo tímann upp í fimm mínútur. Sumir lengja tímann enn lengur, en aldrei ætti að láta barn gráta eitt og óhuggað í meira en 10-15 mínútur.

Það sem er lykilatriði er að taka barnið ekki upp úr rúminu þegar maður fer inn til að hugga það, nema auðvitað það sé lasið eða eitthvað virkilega sé að. Áður en maður leggur barnið til svefns er best að fullvissa sig um að það sé mett og þurrt. Það gerir barni ekkert illt að leggja það til svefns þegar það er syfjað en þó hraust, þurrt og mett. Þessi aðferð krefst þolinmæði og staðfestu; það ER erfitt að hlusta á barnið sitt gráta. En ef fólk heldur sig við þessa aðferð og gefur ekki eftir þá tekur þetta oftast bara örfá kvöld áður en barnið fer bara að sofa sjálft án vandræða. Það skilur fljótlega að það fær enga þjónustu hvernig sem það lætur og fer því bara að sofa. Ef maður hins vegar lætur undan og tekur barnið upp eða leggst til að svæfa það eitt kvöldið þá er maður kominn aftur á byrjunarreit. Þolinmæði, staðfesta, þolinmæði, staðfesta… hugsið það allan tímann.

Ég notaði sjálf þessa aðferð á yngsta barnið mitt og þetta tók um þrjú kvöld að kenna honum að sofna sjálfum. Nú er bara draumur í dós að koma honum í svefn á kvöldin; maður leggur hann inn í rúm og hann snýr sér út í horn og fer að sofa (með litla mjúka hundinn sinn í fanginu).

Seinni aðferðin er mun mildari, en tekur líka að öllu jöfnu heldur lengri tíma. Það er samt svo að sumum börnum hentar Fimm mínútna aðferðin alls ekki, og eins finnst mörgum foreldrum hún einum of taugastrekkjandi. Fyrir þá getur verið reynandi að prófa “Skref fyrir skref” aðferðina eins og ég hef kosið að kalla hana.
Fyrsta kvöldið sem barnið er lagt til svefns situr maður hjá því við rúmið alveg þar til það sofnar. Það er í lagi að klappa barninu og strjúka, syngja fyrir það og bía, en EKKI taka það upp úr rúminu. Ef barnið gerir sig líklegt til að setjast eða standa upp skal einungis leggja það blíðlega en ákveðið niður aftur. Næsta kvöld situr maður einnig við rúm barnsins, en klappar því heldur minna og veitir því minni athygli.

Maður verður að spila þessa aðferð svolítið eftir barninu, það er misjafnt hvað þetta tekur mörg kvöld, en þegar maður sér að barnið er nokkuð öruggt með að sofna þegar maður situr alveg við rúmið þá fer maður að færa sig smátt og smátt fjær rúminu. Samt er best að vera ekki að standa upp af stólnum alveg strax. Eftir nokkur skipti þá getur maður prófað að standa upp og þar á eftir að færa sig aðeins um í herberginu. Það getur verið ágætt að dunda sér eitthvað, t.d. brjóta saman þvott, laga til eða raða í skápa.

Næsta skref er að fara að færa sig nær hurðinni. Ef það er í lagi færir maður sig í dyragættina og að lokum alveg fram. Það getur stundum verið ágætt að spjalla aðeins við makann (eða einhvern annan) frammi, svo barnið heyri í manni og viti af manni þar. Smám saman ætti þetta að vera orðið þannig að maður getur lagt barnið í rúmið og farið strax fram. Barnið er búið að öðlast öryggiskennd, veit að mamma og pabbi (eða aðrir uppeldisaðilar) eru til staðar þó svo þau sjáist ekki, og sofnar vært.

Þessa aðferð notaði ég á miðbarnið mitt. Þetta ferli tók um tvær vikur hjá henni, en eftir það hefur eiginlega aldrei verið vandamál að fá hana til að sofna.

Það er sama með þessa aðferð og hina, þolinmæði og staðfesta er það sem þarf. Það eru reyndar til einstaka börn sem einhverra hluta vegna hvorug þessara aðferða virkar á, en fyrir flest börn þá virkar önnur hvor þeirra EF foreldrarnir láta ekki undan og gefa þessu þann tíma sem þarf.

Gangi ykkur vel!
Kveðja,