Það ganga alltaf reglulega einhverjar leiðinda magapestir svo ég ætla að setja hér inn nokkur ráð sem hægt er að nota.

Ýmsar orsakir geta verið fyrir uppköstum og niðurgangi. Ungabörn æla oft í einhverju magni, en slík uppköst eru yfirleitt alveg hættulaus og stafa oftast af því að efra magaopið er enn óþroskað og mjólkin gúlpast því upp aftur. Öndunarfærasýkingar með slímmyndun og/eða miklum hósta er einnig algeng orsök uppkasta hjá börnum, sem kasta þá upp vegna til að losa slím sem lekur ofan í maga, og einnig vegna ertingunnar sem verður á kokið við hóstann. Fæðuóþol og sýklalyf valda oft niðurgangi, en algeng orsök niðurgangs og einnig uppkasta eru sýkingar af völdum veira eða baktería. Ef slík sýking hefur í för með sér uppköst kallast það nú oft hinu hefðbundna nafni “gubbu- eða ælupest”.

Við uppköst og niðurgang, hver svo sem orsökin er, eykst hættan á ofþornun og röskun á saltbúskap líkamans. Líkaminn tapar bæði vökva og söltum við uppköst og niðurgang, og því er mikilvægt að drekka vel og fá í sig eitthvað sem inniheldur svolítið salt. Gott er einnig að drekka eitthvað með sykri í til að fá orku, því sjaldnast hefur viðkomandi lyst á miklum mat. Einnig er lystarleysi náttúruleg viðbrögð líkamans til að minnka áreiti á meltingarkerfið þegar það er svona lasið, það þarf að hvílast til að jafna sig. Ef barnið þitt er með svona magapest er í góðu lagi þó það borði lítið ef það bara fær nóg að drekka.

Meðan mestu veikindin standa yfir er langbest að vera ekkert að borða mikið af fastri fæðu, en ágætt er að taka mið af því sem viðkomandi hefur lyst á. Þó ætti að forðast mjólkurvörur, en þær eru þungmeltar og ertandi fyrir magann, og það sama gildir um feitan og brasaðan mat og mat sem er trefjaríkur. Einnig ætti að forðast mjög sæta fæðu því hún getur ýtt undir niðurgang. Þetta kann að hljóma sem mótsögn þar sem ég var að enda við að tala um að sykraðir drykkir væru góðir upp á að fá orku. En það er sjálfsagt að gæta smá hófs í slíkum drykkjum, en þeir gera þó sitt gagn á meðan lystarleysi er í hámarki og maginn þolir illa fasta fæðu. En þegar viðkomandi er aftur farinn að hafa lyst á mat og halda honum, er sjálfsagt að forðast þá mikil sætindin og fá frekar orku úr annarri fæðu.

Matur sem á að forðast er því:

Mjólkurvörur
Feitur og brasaður matur
Sterkur og kryddaður matur
Mjög sætur matur
Trefjaríkur matur (t.d. gróft brauð)
Mandarínur, sveskjur, rúsínur, kiwi, perur (eru frekar losandi)

Matur sem er stemmandi eða á annan hátt góður við uppköst/niðurgangi:

Hrísgrjón, hrísgrjónaseyði
Bláberjasúpa
Epli
Bananar (einnig mjög góðir upp á kalíuminnihald)
Franskbrauð - ristað fer betur í maga
Súpur eða kjötseyði, ásamt snakki og saltkexi (saltríkt)

Ávaxtasafar geta verið ágætir til drykkjar, veita orku og vökva, en ekki hafa þá of sterka.

Gott er að drekka lítið í einu, en oft. Ef vökvi er þambaður veldur það oft að maginn fyllist, hringsnýst og allt fer upp aftur eða þá beint í gegn.

Vatnið stendur alltaf fyrir sínu, en einnig er mikilvægt að fá í sig orku og sölt/steinefni. Ávaxtasafar geta verið ágætir til drykkjar, veita orku og vökva, en ekki hafa þá of sterka. Sprite og kók geta vel gengið, það er mikilvægara að drekka eitthvað en að passa hollustuna. Mín persónulega reynsla er að það sé einnig einhvernvegin þægilegra að kasta upp gosi en öðrum drykkjum.

Trikk til að fá börn til að drekka er t.d. að gefa þeim það sem þeim finnst best (þó helst ekki mjólk eða mjólkurdrykki). Ísmolar geta verið voða sport, frostpinnar, gefa að drekka úr pela eða eggjabikar, í flottu glasi o.s.fr.

Merki um ofþornun eru:

Mikill þorstatilfinning
Dökkt og lítið þvag
Þurrar slímhúðir
Þurr húð
Slappleiki og sjóleiki
Svimi og að sortna fyrir augum

Hjá börnum er enn fremur hægt að athuga eftirfarandi hættumerki um ofþornun:

Grátur án táramyndunar
Þurrar bleyjur í 3 klukkustundir eða meira
Innfallinn kviður, augu og/eða kinnar
Hár hiti
Húð sléttist ekki þegar sleppt er eftir að klipið er í hana (laust auðvitað)
Innfallinn lindarblettur hjá ungabörnum
Pirringur og óróleiki, barnið er ólíkt sjálfu sér

Ef einhver grunur leikur á ofþornun er sjálfsagt að leita læknis strax.

Önnur merki þess að leita ætti læknis sem fyrst:

Viðvarandi niðurgangur/uppköst í 1-3 sólarhringa, oftast miðað við 1-2 vikur hjá fullorðnum
Hár hiti
Blóð í hægðum eða uppköstum (sést t.d. í uppköstum sem kornótt uppköst, minnir á kaffikorg. Svartar hægðir eru einnig merki um blæðingu)
Gulur/grænn og slímugur niðurgangur
Miklir kviðverkir

Einnig er mjög mikilvægt að passa hreinlæti, því svona pestar eru yfirleitt mjög smitandi. Þvoið ykkur því alltaf vel um hendurnar eftir klósettferðir, eða bleyjuskiptingar og ekki nota sama hníf til að skera grænmeti og kjöt til að forðast krosssmit.


Að lokum: Ekki hika við að fá ráð hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi ef þú hefur einhverjar áhyggjur varðandi barnið þitt.
Kveðja,