Nú vorum við með kveikt á sjónvarpinu um helgina og barnaefni var í gangi. Rakst ég þá á teiknimynd á RÚV sem heitir á frummálinu Handy Manny. Hún var talsett eins og venjan er með flestar teiknimyndir, en mér blöskraði gjörsamlega þegar ég heyrði enskuslettur alltaf inn á milli.

Ég var að sjá þessa teiknimynd í fyrsta skipti og mér skildist á þessu að þetta væri um gaur sem væri smiður og kæmi öllum til bjargar í litla bænum sem hann býr í. Hann á síðan verkfæratösku og verkfæri en þau eru “lifandi” og tala. Málið var að verkfærin voru alltaf kölluð tools og með engum fyrirvara. Skal gefa ykkur smá dæmi:

* Handy Manny labbar inn í herbergi og segir “good morning”. Kona stendur í stiga og svarar “góðan daginn manni”

* Handy Manny segir “Í dag ætlum við að kíkja til ”grandpa“ .. Svo kom hann til afans og sagði ”sæll grandpa“

* Einnig var honum rétt eitthvað og þá svaraði hann ”thank you“

Ég bara ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum. Ég man nú eftir frétt sem var sýnd ekki svo löngu síðan af enskukennslu í Hjallastefnuleikskóla, og mig minnir að það væri farið að kenna börnum ensku allt niður í eins og hálfs árs aldur. Nú spyr ég, hvernig væri að kenna þeim fyrst sitt eigið móðurmál áður en það er farið að rugla í þeim með öðru tungumáli? Og að sjá svona slettur í teiknimynd algjörlega án fyrirvara (þetta kom ekki eins og í Dóru þar sem er oft svona ”enskuhorn" eða þannig heldur slettist þetta bara fyrirvaralaust) finnst mér bara vera alveg út í hött. Hvað nákvæmlega er verið að kenna börnunum? Að sletta á ensku? Til hvers í ósköpunum? Af hverju ekki bara að hafa allt talið á íslensku, fyrst það er verið að talsetja þetta í fyrstalagi?

Ég var mjög nálægt því að hringja í RÚV og kvarta eða skrifa þeim tölvupóst en ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í því, á hvern ég ætti að senda póstinn eða í hvaða númer ég ætti að hringja. En ég er ennþá að hugsa um það reyndar…

Hvað finnst ykkur um svona?