Börn og hundar Í ljósi þess atviks sem gerðist í Hafnarfirði nýlega, þegar hundur af tegundinni Stóri Dani, beit barn í andlitið, langar mig aðeins að minna fólk á að fara varlega með börn sín þegar ókunnugir hundar eiga í hlut. Nú er ég enginn hundasérfræðingur, en ég hef þó heyrt töluvert um þennan ákveðna hund í Hafnarfirðinum. Hann var víst búinn að flakka á milli margra heimila og aldrei fengið neina almennilega hundaþjálfun. Eflaust verið taugaveiklaður og því óáreiðanlegur hundur og ekki til þess fallinn að umgangast börn. Í þessu tilviki skilst mér að barnið gerði ekkert til að ögra hundinum, en það er ekki eðlileg hegðun hjá hundi að bíta manneskju, og hvað þá að ástæðulausu. Undir eðlilegum kringumstæðum er mjög ólíklegt að heilbrigður hundur bíti manneskju.

En þá kem ég aftur að því hvers vegna ég skrifa þessa grein. Þegar ég var barn var mér kennt að ég ætti ALDREI að klappa ókunnugum hundum án leyfis. Þetta held ég að sé góð og gild regla. Sama hversu blíðir og saklausir hundarnir líta út fyrir aðvera, þá veit maður ekkert hvernig þeir bregðast við ókunnugum sem nálgast þá og vilja atast í þeim. Flestir myndu eflaust bara vera ánægðir með klappið, en samt sem áður finnst mér það ekki ástæða til að taka svona áhættu. Það geta alltaf leynst hundar inn á milli sem ekki taka vel í ókunnuga. Eins eru stundum læti og galsi í börnum, sem getur hrætt hunda sem ekki eru vanir slíku. Börn eiga það líka til að vera svolítið harkaleg án þess að ætla sér það. Því er langbest að kenna börnum sínum að láta ókunnuga hunda alveg vera.

Litlir hundar eru ekkert garantí fyrir að þeir séu blíðir og hættulausir. Stærðin segir nefninlega ekkert til um hvernig skapgerð þeir hafa. Vissulega geta stórir hundar e.t.v. valdið meiri skaða ef þeir taka upp á að bíta, en litlir hundar geta líka bitið fast og illa. Því ber að sýna sömu varkárni þegar litlir hundar eiga í hlut og stórir.

Hundar geta vissulega verið alveg yndislegir og eru það oftast, en við verðum samt sem áður að umgangast þá með virðingu, og aukinni varkárni ef við þekkjum þá ekki og þeirra skapgerð.
Kveðja,