Einu sinni mættust tvær kerlingar á ferð. Þær áttu heima langt hvor frá annarri, svo þær þurftu nú svo sem að setjast niður og segja hvor annarri tíðindi úr sinni sveit. Þær sáu, að þær gátu slegið tvær flugur í einu höggi, svo þær tóku upp hjá sér sjálfskeiðinga og mat og fóru að fá sér bita.

Þeim bar nú margt á góma, og meðal annars segir önnur kerlingin, að það hafi nýlega rekið fjarskalega fágætan fisk í sinni sveit. Hin spyr, hvaða fiskur það hafi verið, en það man hún ómögulega. Þá fer hin að telja upp ýmsa fiska, sem hún mundi eftir, en aldrei átti hún kollgátuna.
“Ekki vænti ég, það að hafi nú verið stökkull?”
“Og sussu nei.”
“Það skyldi þó aldrei hafa verið marhnútur?”
“Vertu í eilífðri náðinni, ekki hét hann það.”
“Það hefur þó víst ekki verið skata?”
“Issi sissi nei.”
“Nú, það mun þó ekki hafa verið ýsa?”
“Jú ýsa var það, heillin,”
sagði þá hin og hnippti í lagskonu sína, en til allrar óhmaningju mundi hún ekki eftir því, að hún var með opinn hníf í hendinni, svo hnífurinn fór á hol í síðuna á hinni kerlingunni, og sálaðist hún þar að vörmu spori.