As good as it gets? Satt best að segja hefur maður ósjaldan sagt um einhverja bifreið að hún sé það besta sem komið hefur frá þeim framleiðanda. Þegar kemur að Mercedes Benz grípur mig skyndilega varkárni. Ástæða greinarskrifa þessara er bíll sem hiklaust er einn albesti bíll sem þessi risi bifreiðasögunnar hefur frá sér látið: Mercedes Benz AMG SL55. En hreinlega sá besti? Það eru til góðir bílar og það eru til góðir Benzar, meira að segja ég, enginn sérstakur aðdáandi M-B eða þýskra bíla yfirleitt, er tilbúinn til að viðurkenna það. Bestu bílar sem hafa komið frá Benz eru með því besta sem hefur verið gert og engar refjar með það. Auðvitað skiptir gildismat miklu í vangaveltu sem þessari. Sjálfur er ég hrifinn af léttum bílum, til þess gerðum að fóðra ökumanninn með upplýsingum um veginn og aðrar aðstæður og, fyrst og fremst, skemmta manni eins vel og hægt er í öllum fötum.

Það er varla markmið Benz að búa til bíla fyrir mig sem sagt. Það eru á því undantekningar, en ég hef sjaldnast efni á þeim. Ástæðan fyrir því að SL55 stendur svona í mér er grein í Evo Magazine þar sem bornir eru saman Caterham R300 og AMG SL55. Báðir bílarnir fara í gegnum það sem heitir Evo Performance Rating til að fá mælieiningu á getu þeirra. Caterham er eins hrár og léttur og bílar verða, hann er hannaður til að komast eins hratt um braut og mögulegt er með ökumann á barmi taugaáfalls að hlæja frá sér allt vit. Caterhaminn vann. Auðvitað? Alls ekki örugglega, takk fyrir!

Bifreið upp á hér um bil 2 tonn, með öllum hugsanlegum – og líklega óhugsanlegum – þægindum sem maður getur krúsað í á hraðbrautum á 300 kílómetra hraða, lullað um á innanbæjar eins og bíllinn væri hannaður fyrir það, en síðan farið út á kappakstursbraut og hugsanlega fengið Porsche 911 Turbo ökumenn til að svitna er augljóslega nokkuð sérstök. Mercedes Benz leysir vandann með óviðjafnalegum tæknibúnaði. ABC kerfi nánast útilokar halla í beygjum, ESP stöðugleikabúnaður sér um að maður haldi stefnu og að allt fari vel fram. 476 bhp og 700 Nm af togi frá 5.4l V8 með supercharger sjá til þess að maður tekur hundraðið örugglega undir 5 sekúndum og kvartmíluna á undir 13!

En ef þetta hljómar eins og bíll sem gerir allt fyrir mann, einungis sjálfskiptur með rafeindadót til að passa að maður klúðri ekki neinu, þá er erfitt að svara ákveðið. Vissulega er þetta ekki ökumannsbíll á við, ja t.d. Lotus, en munurinn er líka sá að það eru ekki margir Lotus, eða hráir sportbílar yfirleitt, sem gera ALLT vel. Það að búa til tveggja sæta blæjubíl (með stálþaki sem fellur sjálfkrafa niður á örskotsstund þegar ýtt er á hnapp) sem er rétt tæp tvö tonn, með límósínuþægindum en samt vænum skammti af sportbílseiginleikum, svo ekki sé minnst á ofurbílsafköst er afrek. Minntist ég á það að grunnverð í Bretlandi er rétt undir 90þ. pundum? Þegar málið er skoðað í því samhengi hlýtur maður að spyrja sig hvort að það sé vit í því að eyða 160þ. pundum í t.d. Aston Martin Vanquish eða Ferrari 575M. Besti bíll sem Benz hefur smíðað? Hver er betri?

Fyrir mitt leyti hlýtur SL55 AMG að vera besti SL bíllinn og þar með eru margar hetjur fyrri tíma fallnar í valinn. Betri en hinir ýmsu SEC, S, CL, sverir 500, C og 190E bílar? Tæknilega séð hlýtur hann að vera það. Eina gagnrýnin gæti verið fjöldi sæta. Maður gæti gert líka hluti nema með fleiri farþega á einum af öflugri S bílunum til dæmis og nú koma bæði S600 og CL600 með V12 fóðruðum af tveimur túrbínum. En AMG heldur sig við þessa V8 og við treystum AMG, er það ekki? Ég verð að játa að ég væri forvitinn að sjá SL600 með tvær túrbínur á 5,5l V12, en satt best að segja yrði bíllinn mjög líklega framþyngri, mögulega engu hraðari og með verri aksturseiginleika. TKO fyrir SL55, en við vissum líka alltaf að hann ynni ekki á hreinu rothöggi.

Jafnvel smádósaaðdáandi eins og ég get verið veikur fyrir stórum sleðum. Það er eitthvað sem kitlar við tveggja tonna bifreið sem geislar frá sér fágun og lúxus en að sama skapi líka krafti og getu. Hvaða þáttur eðlis míns það er sem er kitlaður er ég ekki viss. Kannski það að geta látið tveggja tonna bifreið nánast svindla á lögmálum eðlisfræðinnar á meðan maður stýrir um án þess að svitna einu sinni í lófunum. En nóg um það, ég er farinn að láta mig dreyma um hvernig Caterham R300 myndi flengja allt og alla ef hann fengi allt tæknidótaríið úr AMG SL55…