Ys og þys út af Elise Engin bílaframleiðandi virðist vera uppspretta fyrir jafn miklar vangaveltur og sögusagnir og Lotus. Saga fyrirtækisins hefur alltaf minnt á sápuóperu, sérstaklega hvað varðar sveiflukenndan en því miður oftast brösugan fjárhag. Margir þekkja fyrirtækið einungis vegna aldraðs flaggskips þess, Lotus Esprit, sem er nýkominn úr fegrunaraðgerð og léttu æfingaprógrammi. Væntanlega ætluðu til að lengja líftíma Esprit enn um sinn þótt kappinn virðist hafa haft grátt í vöngum um nokkuð skeið. Esprit á þó enn harðan aðdáendahóp þrátt fyrir að vera á þrítugsaldri og er eina gerðin sem Lotus hefur til sölu á hinum mikilvæga Bandaríkjamarkaði í dag. Ennþá að minnsta kosti.

Lengi hefur þótt ljóst að hvað sem arftaka Esprit líður þarf Lotus að bjóða upp á aðra gerð til viðbótar á ameríkumarkað. Lotus hafði lengi neitað að aðalsölubíll þeirra Elise yrði breytt svo hægt yrði að selja hann í Ameríku. Vonir voru bundnar við M250 bílinn sem átti að koma á milli Esprit og Elise og bjóða upp á ofurbílsafköst á verði Porsche Boxster. Eftir að stjórn Proton, sem á Lotus, heimtaði að M250 yrði tekinn til gagngerar endurskoðunnar var ljóst að ný aðalgerð var ekki á leiðinni um þónokkuð skeið.

Ekki nema von að allra augu séu því á Elise. Lotus hefur gengið frábærlega með þennan hráa litla sportbíl síðan hann kom á markað 1996. Hann hefur komið í fjölda útgáfa og spunnið af sér nýjar gerðir á borð við Exige og 340R sem rétt eins og Elise hafa hlotið lof gagnrýnenda. Einnig þróaði Lotus og smíðar að hluta Speedster bílinn fyrir Opel en hann er náskyldur Elise.

Þónokkrar breytingar þarf þó að gera á Elise til að hægt verði að selja hann í Bandaríkjunum en svo virðist vera að Lotus séu byrjaðir með prófananir á Elise þar vestra. Þrátt fyrir að margt þurfi að athuga, t.d. að uppfylla skilyrði í árekstrarprófunum, er það val á vél sem hefur valdið mestum vangaveltum. Elise hefur alltaf notast við 1.8l, 4 strokka vél frá Rover, svonefnda K-series vél. Þessi vél hefur knúið allar undirgerðir Elise og aðrar gerðir byggðar á Elise nema að sjálfsögðu þær sem bera merki Opel og Vauxhall. Afl hefur verið allt frá tiltölulega litlum 118 hestöflum í grunngerðum og upp í 190 hö í öflugustu gerðum. Hljómar ekki ógnvænlegt nema þegar skoðað er að þyngsti bíll sem Lotus hefur sett K-series vél í slefast rétt yfir 800 kíló. Og það er ekki bíllinn með aflminnstu vélina.

Líkum hefur verið leitt að því að leitað verði til Honda vegna vélarvals. Kostir eru augljósir: Honda er þekkt og virt í BNA, þjónustuaðilar væru fyrir hendi hvað vélina varðar ef Lotus myndi svo kjósa en síðast en ekki síst þá selur Honda bíla í ameríku með vélum sem henta Lotus og eru því samþykktar hvað varðar útbástursreglugerðir. Rover vélar Lotus hafa aldrei þreytt þær ströngu prófanir sem eru í Bandaríkjunum og líklegast væri ekki hagkvæmt að fara í gegnum það ferli. Ýmsir aðilar hafa þegar reynslu við að setja Honda vélar í Elise og er það vissulega gott veganesti þótt undirritaður hafi sýnar efasemdir um að Honda vél myndi henta Elise best.

Í ljósi þess að Lotus sé með undirbúningsvinnu í gangi í Bandaríkjunum kvikna stórar spurningar þegar nýjusta þróun á Elise er skoðuð. 2001 tók S2 við af upprunalega bílnum. S2 myndi standa fyrir Series 2 og var þar um fyrstu meiriháttar breytingu frá upphafi að ræða. Nýji bíllinn kom búinn sama Rover mótor og áður nema hvað ný tölva gaf heil 2 hestöfl. Það mætti ætla að þróun í vélardeildinni væri haldið í lágmarki ef Elise með allt annari vél væri á leiðinni. Svo var ekki. Fyrst kom Sport 135 útgáfa, 135 hö eins og nafnið vísar í. Reyndar eingöngu breyting sem Lotus setur í bílinn eftir að hann rúllar af færibandinu og stendur því til boða þeim sem þegar hafa fengið sinn Elise S2 í hendurnar. Augljóslega er ekki um meiriháttar verkefni að ræða fyrir Lotus að bjóða upp á þessa breytingu. En Lotus eru ekki hættir…

Sögusagnir komust á kreik eftir að S2 kom fram um að nafni Elise yrði breytt í Elise S. Þessi nýja gerð myndi hafa 160 hestafla mótor sem myndi henta fyrir öll markaðssvæði. Merkilegt nokk, nýjustu fréttir eru þær að Lotus hefur skellt S í nafnið! Að sjálfsögðu ekki eins og sögurnar spáðu fyrir heldur tóku þeir upp 111S merkið aftur. 111S var veglegri útgáfa af upprunalega Elise (sem er við hæfi að kalla S1 í dag) sem var aðgreind frá venjulegum Elise með vægum útlitsbreytingum og 143 hestafla vél. Hinn nýji 111S markar þáttaskil fyrir Elise. S stendur í raun fyrir útgáfu af bíl sem er titlaður 111 og hefur helst til síns ágætis 156ha vél. S stendur fyrir meiri hljóðeinangrun og leðuráklæði ásamt loftkælingu sem valbúnað og gólfteppi - tvennt sem Elise hefur aldrei haft áður.

Margir voru snöggir til að gagnrýna Lotus fyrir að bæta þægindum í það sem alltaf hafði þótt harðkjarnasportbíll. Augljóslega eykur þetta eitthvað á þyngd bílsins en lætur hann um leið höfða til víðari markaðshóps. Elise hefur þegar haslað sér völl sem hagkvæmur fyrirtækisbíll í Bretlandi þar em hann víkur sér undan háum útblásturssköttum vegna hagkvæmni. Með þessum breytingum mun Lotus ná að laða enn fleiri frá Porsche Boxster o.þ.h. keppinautum þótt um óbeina keppinauta sé kannski að ræða. Undirritaður vill þó viðra þá skoðun sína að bíllinn sé ekki síður í anda stofnanda Lotus, Colin Chapman, eftir breytinguna en fyrir; Chapman trúði á að bílar ættu að vera sem léttastir en hann lét það ekki aftra sér frá því að búa til létta bíla með þægindum!

Fyrir þá sem ætla sér að eiga Elise sem sinn eina bíl eða keyra hann daglega hlýtur 111S að vera tilvalinn. Fyrir þá sem finnst þægindum ofaukið í Elise er ennþá boðið upp á þá eins og þeir hafa alltaf verið: hráir og skemmtilegir. Mín skoðun? Ég veit hvor gerðin myndi vekja meiri hrifningu í Ameríkunni. Spurningar um hvað gerist undir vélarhlífinni þegar og ef Elise fer til Ameríku verða bara stærri og flæktari…

Við skrif þessarar greinar notaðist ég við ótalin tölublöð af Evo Magazine, besta bílablað sem hægt er að finna (www.evo.co.uk), og einnig hinn frábæra bílafréttavef www.pistonheads.com