Renault hittir naglann á höfuðið Það er ekki fátítt að haldið sé fram að kappakstur bæti bílana sem okkur sauðsvörtum almúganum standa til boða. Það er samt fátt sem er jafn skemmtileg afleiðing kappaksturs og götubílar smíðaðir til að uppfylla reglur um að rall- og kappakstursbílar séu byggðir á raðframleiddum götubílum (e. “homologation rules”).

Metnaður Renault til að sanna sig í ralli er ástæðan fyrir því að þeir munu setja á markað nýja útgáfu af Renault Sport Clio 172. Nýja útgáfan mun bera nafnið Clio Cup (þótt hugsanlegt sé að hann fái á sig langlokuna Renault Sport Clio Cup 172!) og er ætlast til að hann geri Renault kleift að tefla fram óviðjafnanlegum bíl í Group N ralli. Sport Clio 172 hefur þegar staðið sig með prýði í þeim flokki í Frakklandi en Renault ætlar sér að ráða töglum og höldum í flokknum og ógna helst aldrifsbílunum í WRC flokki á malbiksleiðum. Þess ber að geta að Clio 172 hefur ekki bara staðið sig vel í ralli, hann er einnig almennt talinn með betri “hot hatch” bílum á boðstólum í dag.

Í þessum sk. “hot hatch” geira (sportsmábíll?) hefur tæknileg framþróun verið mjög ör undanfarið. Afl hefur aukist mikið en jafnframt hafa bílarnir þyngst og stækkað mikið og oft misst þá lipurð sem áður einkenndi svona bíla. Margar gerðir virðast aðeins tilheyra þessum flokki að nafninu til og miða jafnvel frekar á að samtvinna kraft og þægindi fyrir kaupendur sem vilja ekki endilega að lúxusbíllinn sinn sé stór.

Þessi gagnrýni á þó ekki við þegar kemur að Clio 172. Hann er þegar með léttustu bílum af nýju kynslóðinni og til að finna bíl sem minnir meira á hinn hefðbundna smásportbíl þarf að dusta rykið af Citroën Saxo VTS og Peugeot 106 GTi sem þó eru ennþá í framleiðslu við háan aldur en góðan orðstýr.

Breytingarnar sem skapa Clio Cup munu færa Renault enn nær því að bjóða upp á smásportbíl eftir gömlu uppskriftinni. Þar ræður um að þyngd bílsins er 80kg minni en Clio 172 eða aðeins 955kg, hreint ótrúlegt miðað við hvað bílar í dag eru almennt þungir. Þessi megrun hefur krafist mikillar vinnu hjá Renault en til þess að minnka þyngdina fékk lofkælingin að fjúka, ásamt ABS kerfinu, hliðarloftpúðunum og jafnvel varadekkinu! Einfaldar og ódýrar breytingar eins og að henda bakkanum undan farþegasætinu fylgjast að með þynnra gleri í framrúðu og hliðarrúðum að framan. Þessar breytingar stuðla að því að þrátt fyrir að 2.0l 16 ventla vélin sé með óbreytt 170hö er 0-60mhp tími áætlaður sjóðheitar 6,5 sekúndur!

Þegar loftpúðar og ABS bremsukerfi fá að fjúka er eðlilegt að sett sé spurningamerki við öryggi bílsins. sú staðreynd að Renault er í dag með góðan orðstýr hvað varðar öryggi ætti að draga úr mestu áhyggjum vegna loftpúðanna. En ABS-leysið er stærri spurning. Það kemur til vegna þess að bíllinn er undirstaða fyrir rallbíl og til að bæta fyrir skortinn hefur bremsukerfinu verið breytt til að gefa ökumanni betri stjórn á því við slæmar aðstæður. En hvað með varadekkið? Brúsi af froðu til að komast á næsta dekkjaverkstæði leysir það af.

Aðrar breytingar liggja í endurhönnuðu fjöðrunarkerfi sem verður með meiri sporvídd bæði að framan og aftan. Ódýrara áklæði á sætum einkennir innréttingar ásamt vafasömum bláum áherslum í mælaborði og víðar. Nýjar og mun fallegri felgur, sérhannaðar af Speedline, kóróna svo alltsaman en á þeim verða ContiSportContact dekk sem einnig eru sérhönnuð fyrir bílinn. Einungis verður boðið upp á bílnum í einum lit, Mondial bláum, og rámar kannski einhverja í Renault Clio Williams sem einnig fékkst bara blár. Ekki leiðum að líkjast því að Clio Williams er af mörgum talinn besti sportsmábíll sem gerður hefur verið.

Þegar allt þetta er tekið saman má sjá að mikils er að vænta. Renault þarf að selja 2500 bíla til að uppfylla reglugerðir í ralli og ef þeim tekst það ekki væri það ótrúlegt. Rúsínan í pylsuendanum er nefnilega sú að áætlað verð Clio Cup í Bretlandi er einungis 12.995 pund. Heilum 2.500 pundum undir verði Clio 172!

Ég held að meiri hvell fyrir krónuna verði ekki að fá (svo ég slátri nú amerísku orðatiltæki) þegar Clio Cup kemur á markað. Ef breytingarnar skila bíl með betri aksturseiginleikum en Clio 172 gæti hér verið kominn nýr konungur sportsmábílanna. Þeir bestu hingað til munu alla vega fá alvarlega samkeppni! Stóra spurningin verður kannski sú hvort að tilvonandi kaupendur á bílum á borð við Honda Civic Type-R láti verðmuninn hafa áhrif á sig. Eitt er víst að tilvonandi kaupendur á Citroën Saxo VTS munu horfa girndaraugum til þægilegri bíls sem gefur 50 auka hesta fyrir aðeins rúm 1000 pund í Bretlandi. Hér gæti því verið kominn bíllinn sem bjargar “hot hatch” flokknum. Ég er allavega með krosslagða fingur…