Porsche 911 Carrera RS (964) Það verður að játast að ég ætlaði ekkert að skrifa grein um Porsche 911 Carrera RS heldur var planið að hefja vangaveltur um draumabíla enn eina ferðina. Í þetta skiptið átti spurningin að vera eitthvað á þessa leið: “Ef þú mættir bara eiga einn bíl en hvaða einn bíl sem er, hvaða bíl myndirðu velja?” Ég ætla ekki að rekja allar vangavelturnar sem voru í gangi frekar, en ég fór a.m.k. mikið að hugsa um Porsche 911 Carrera RS sem þann bíl sem ég myndi velja og fór að kíkja á það efni sem ég gat fundið um hann sem er sorglega lítið því þrátt fyrir að vera ekki sérstaklega sjaldgæfur er þessi sérstaki 911 næsta gleymdur.

Þegar ég segi 911 RS á ég við bílinn sem kom fyrst 1990 og er því í raun 3. 911 RS bíllinn sem Porsche gerði en áður höfðu komið hinn frábæri Carrera RS 2.7 ‘73 (sem ég hef þegar skrifað grein um á Huga) og Carrera RS 3.0 ’74. En áður en vikið er að ‘90 gerðinni er rétt að athuga hvað gerðist árið ’89 hjá Porsche.

Frá 1964 þegar Porsche 911 kom fyrst höfðu nær engar grundvallarbreytingar orðið þannig að 911 Carrera 4 var stærsta breyting á 911 seríunni sem þá hafði orðið. Ég segi Carrera 4 því að nýji 911 bíllinn fékkst aðeins í fjórhjóladrifinni útfærslu ‘89 og var einnig fyrsti 911 bíllinn með aldrifi. Þessi týpa fékk titilinn 964 innanhúss hjá Porsche og til aðgreiningar frá fyrri bílum og seinni (’94 kom aftur á markaðinn mikið til nýr og endurhannaður 911, innanhúss kallaður 993 sem var aftur mesta breyting þar til algerlega nýr bíll kom aftur 1998). Fyrsta árið var eldri Carrera 3.2 bíllinn seldur meðfram 964 Carrera 4 þangað til að nýji bíllinn fékkst með afturdrifi, og titlaður Carrera 2, árið 1990.

RS bíllinn kom síðan sama ár og Carrera 2 en var byggður á bílum sem voru notaðir í Carrera Cup kappakstri Porsche. Utanfrá er ekki mikinn mun að sjá á RS og venjulegu Carrera bílunum. Fyrir mitt leiti var 964 serían ekki útlitsleg framför en mér líkar þó ákaflega vel við RS bílinn. Eini munurinn sem sjá má utanfrá er lækkun upp á heila 40mm og 17“ Cup felgur og að mínu mati eru fáir bílar sem hafa umbreyst jafn mikið til hins betra við svona breytingar. 964 bíllinn var ólíkt eldri 911 frekar ”chunky“ og við þessar breytingar varð RS bíllinn ákaflega vígalegur. En það er ekki nóg að bíllinn líti út fyrir að vera öflugur, eða ”if you talk the talk you gotta walk the walk“ eins os menn vilja segja vestanhafs.

Þar sem 911 RS var byggður á keppnisbíl var hann ákaflega snauður af búnaði og mikið gert til að bíllinn yrði sem léttastur: engin lofkæling, ekkert rafmagn í rúðum, sérstaklega léttar hurðir og gluggar, minni hljóðeinangrun, álhúdd, engin aftursæti og sérstaklega léttir Recaro körfustólar fram í. Meira að segja hurðaropnarar að innan voru einungis tauhankar til að spara þyngd, svo alvarlega tók Porsche þyngd bílsins. Árangurinn var hreint prýðilegur, bíllin vó aðeins 1229 kg sem var um 150 kg léttara en Carrera 2 og hvorki meira ná minna en um 230kg minna en Carrera 4! Vélin sem að sjálfsögðu var loftkæld, flöt og sex strokka, staðsett aftur í, var 3.6 lítra og 260 hö, 10 hö meira en í Carrera 2 & 4.

Svo hröð hefur þróun í sportbílum verið síðasta áratuginn eða svo að fólk lyftir varla augabrún yfir 260 ha bíl en afköstin sem þessi RS skilar eru þó hreint prýðileg. Hröðun upp í hundrað rétt í kringum 5 sekúndurnar og hámarkshraði í kringum 260 km/klst. ÉG myndi ætla að þegar bíllinn var nýr hafi hann verið á heimsklassa hvað afköst varðar og ætti því alveg að standa fyrir sínu nú til dags.

En ef bílar í dag eru orðnir kraftmeiri virðast þeir líka vera stíffjaðraðri. Helsta gagnrýni á 911 RS á sínum tíma var hve stífur hann var enda ætlaður sem götulöglegur og -nothæfur ”weekend racer". Ég efast um að venjulegur 911 hafi verið mjúkur þrátt fyrir ótvíræða hæfni Porsche við hönnun fjöðrunar. Ég get þá líka ímyndað mér að hann hafi mátt vera nokkuð stífur eftir 40mm lækkun! Þrátt fyrir þetta virðist 911 RS ætla að eldast vel. Þegar að EVO Magazine ákvað að finna út hvað væri besti 911 bíllinn náðu þeir sér í 10 mismunandi 911 bíla (reyndar níu 911 og svo 959) þ.m.t. RS gerðina af 964 (EVO #36). Blaðamennirnir sögðust jafnvel kvíða fyrir að prófa umræddan RS vegna þess hve stífur þá minnti hann vera. Þeim kom þægilega á óvart að hann var stífur en ekki óþægilega svo að þeirra mati og veltu fyrir sér hvort að bílar eins og Skyline R34 V-Spec hefðu breitt gildismati þeirra í þessum efnum. Niðurstaða þeirra um 3. kynslóðar RS bílinn var vægast sagt jákvæð, þegar kom að því að velja besta bílinn voru 4 sem slógust um titilinn og þar á meðal 964 gerðin af RS.

Fyrir 911 fíkil eins og mig hlýtur 964 RS að vera einn sá eftirsóknarverðasti. Enn vottar fyrir gömlu 911 aksturseiginleikunum og þarna fást þeir í sem hráustu formi. Nákvæmt stýri og hnífskarpir aksturseiginleikar í bíl sem krefst athygli og hæfni af ökumanninum. Ánægjan sem hlýtur að liggja í því að takast að kreista allt sem hægt er út úr svona bíl er ábyggilega ómæld og best að nálgast hana á kappakstursbraut. Þar er þessi bíll á heimavelli og hefur örugglega stór hluti þeirra rúml. 2000 svona bíla sem smíðaðir voru fengið að kynnast brautarakstri. Til marks um það er ekki óalgengt að finna þessa bíla með veltibúri sem var aukabúnaður frá verksmiðju. Það skaðar heldur ekki að bíll ætlaður til daglegs aksturs í bland bið brautaraksturs sé jafn sterkur og áreiðanlegur eins og 964 gerð Porsche er þekkt fyrir.

Fyrir mitt leiti er allt saman komið í einum pakka: sérstakur bíll með sérstakt og fallegt útlit, frábærir eiginleikar ásamt prýðisafköstum í bíl sem er nothæfur dagsdaglega án mikilla vandræða. Vissulega getur það farið í mann að aka svona harðan bíl dags daglega en þegar hann er svona sérstakur er maður tilbúinn til að fyrirgefa. Þá er bara eitt vandamál: þessir 2-3 dagar á ári sem maður nennir ekki að nota hann sem snjóplóg (40mm lækkun ef þið munið). Enn og aftur, maður ætti að vera til í að þola ýmislegt ef bíllinn er þess virði, ekki satt?

Þótt þetta hafi endað með að verða enn ein Porsche greinin mín er ekki þar með sagt að það væri ekki gaman að fá að sjá hugmyndir annara um svör við spurningunni sem fékk mig til að skrifa þessa grein. Ef þú mættir bara eiga einn bíl en hvaða einn bíl sem er, hvaða bíl myndirðu velja?

Endilega svarið og setjið fram skoðanir ykkar! (Það er komin tími til að ná 200 svörum við grein á þessu áhugamáli!)