Þrjár milljónir er ágætis upphæð. En bíll sem kostar nýr ca. 3 milljónir króna er draumur sem er ekki alltof erfitt fyrir flesta að gera að veruleika. Nú langar mig aðeins til að fantasera um hvernig draumabíll fyrir 3 milljónir ætti að vera. Ég ætla semsagt að dreyma upp/smíða í huganum bíl sem mér fyndist gera allt sem bíll þarf að gera. Svo ætla ég að reyna að fara ekki fram úr fjárhagsáætlun. Reglurnar sem ég ætla að setja mér eru þær að ég ætla að miða mig við bíla sem eru til og sýna hvað er hægt að gera fyrir peninginn og ég ætla ekki að hlaða öllu í hann, það kostar allt auka, sko. Og áður en ég skelli mér í þennan blauta draum ætla ég að taka fram að þetta er draumabíllinn minn! Ef þú ert ekki sáttur máttu bara láti þig dreyma þinn eigin. Vinsamlegast sendu hann svo inn, ok?

Hvað þarf draumabíllinn að vera? Sportbíll er stutta svarið. Hann þarf að búa yfir a.m.k. þokkalegum krafti og frábærum aksturseiginleikum. Hann þarf að geta flutt ökumann og einn farþega, ég er alveg til í að fórna aftursætum. Ég er hinsvegar ekki tilbúin til að fórna farangursgeymslu, hún þarf að geta geymt farangur fyrir tvo fyrir ca. tveggja vikna ferðalag! Þennan bíl ætla ég svo að nota á hverjum degi við íslenskar aðstæður.

“Lightness is god!” Til að byrja með þyrfti þessi bíll að vera léttur. Þá getur minni vél (ódýrari) skilað þeim afköstum sem eru skilyrði. Gott dæmi er Lotus Elise. Eini gallinn við Elise er sá að hann er full lítill og vantar hæfilega farangursgeymslu. Hann er því miður á næstum sama verði og markmiðið mitt… Elise er ca. 700 kg. og draumabíllinn mætti helst ekki fara langt fram úr því.

Afturdrif verður strax fyrir vali. Enginn framdrifsbíll myndi hæfa sem grunnur fyrir þennan bíl eftir því sem ég best veit. Fjórhjóladrif er of dýrt og þungt í þessu tilfelli og miðað við aflið sem yrði til staðar hreinasti óþarfi. Þá er stóra spurningin hvar vélin verður staðsett og hvernig vél það yrði. Ég myndi segja að vélin yrði að vera innan hjólhafs en hvort það væri fyrir aftan eða fram ökumann skiptir mig ekki öllu máli. Bæði Porsche Boxster og TVR línan hafa gott farangursrými þannig að báðar útfærslunar ættu að vera praktískar. Vélin yrði fjögurra strokka. Ekkert snobb, þetta þarf að virka og það eru til fjarkar sem hljóma vel. Einnig gæti vél úr ofur-mótorhjóli ásamt skiptingu kannski dugað en þá yrði bíllinn að vera MJÖG léttur.

Svona bíll yrði að vera nokkru stærri en Lotus Elise. Farþegrými í Elise er í það minnsta ásamt fyrrnefndum vandræðum með farangursrými. Mögulega er fyrirmyndar frekar að leita hjá TVR varðandi smíðahætti. Miðað við það að TVR Cerbera með 8 strokka mótor og 2+2 sætafyrirkomulagi er aðeins 1.100 kíló þá væri kannski hægt að gera bíl eins og ég er að láta mig dreyma um. TVR Chimera með 4.0 V8 kostar aðeins rúm 31.000 pund í heimalandinu. Með einungis I4 mótor sem skilar á bilinu 150-200 hö. ætti bíllinn að geta verið léttari og kannski aðeins minni. Með “transaxle” fyrirkomulagi á gírskiptingu ætti þyngdardreifingu og plássi í farþegarými að vera borgið. Með “fastback” útliti myndi farangursrými vera borgið. Ef við gefum okkur að svona bíll myndi verða 850 kíló og við myndum finna okkur mótor sem skilar 170 hö þá myndum við hafa 200hö/tonn sem er einhversstaðar á milli Lotus Elise og Porsche 911 Carrera! Til að halda niðri verði og þyngd myndi bíllinn verða næsta strippaður að innan. Gróflega eins og Elise. Ég er sáttur ef ég fæ þokkalegar græjur með CD og góða miðstöð, restin er bara óþarfi.

Ef einhver hefur nennt að lesa í gegn um allt þvaðrið í mér eruð þið vonandi sammála mér um það að þetta GÆTI verið mögulegt. Það er þó einn vankanntur á þessu: enginn bílaframleiðandi virðist telja að það sé markaður fyrir svona bíl. Fyrir mig þarf bíllinn ekki að hafa snobbað merki á húddinu en æskilegt er að hann væri fallegur… Vandinn virðist vera sá að fólk á of mikinn pening (eða of lítinn og eyðir honum ekki í bíla), 2-3 milljón króna sportbílar seljast eiginlega verr á Íslandi en t.d. 4-5 millj. króna sportbílar og fólkið sem yfirleitt kaupir svona er að kaupa annan bíl á heimilið. Þá mega þeir vera ópraktískir.

Hvað um það. Einhverjum sem langar í?