Bílablöð í áskrift Þar sem ég var að ganga frá áskrift á Thoroughbred & Classic Cars Magazine á vefnum áðan langaði mig til að benda á hvað áskrift er góður kostur.

Ég var þegar áskrifandi að Evo Magazine sem kostaði mig 48,20 bresk pund á ári, eða u.þ.b. 6000 krónur á ári fyrir 12 blöð. Það þarf engan snilling til að sjá að ég greiði um 500 krónur á hvert blað. Síðast þegar ég vissi kostaði Evo 1365 krónur úti í Eymundsson, eða 16380 krónur á ári.

Classic Cars áskriftin kostar enn minna eða 39,35 ensk pund, aftur fyrir 12 blöð á ári. Það gerir rúmlega 4900 krónur á núverandi gengi, en út úr Eymundsson kosta þessi blöð það sama og Evo.

Samanlagt mun ég nú borga um 11þ. krónur á ári fyrir 24 tölublöð tveggja tímarita og er því að greiða um 5000 krónum minna fyrir það en annað hvort blaðanna út úr bókabúð í eitt ár.

Þegar ég horfi á þetta svona fer ég alvarlega að hugsa um að bæta við áskrift að Car, eða kannski amerísku bílablaði til að fá fleiri sjónahorn - ja, eða kannski bara bæði! Eina áhyggjuefnið er að ég hafi ekki tíma til að lesa öll herlegheitin, bókalestur minn hefur dregist allt of mikið saman.

Fyrir þá sem kaupa mikið af bílablöðum er þetta sparnaður sem ætti að muna um. Fyrir þá sem hafa ekki áhuga á evrópsku blöðunum eins og ég er vert að benda á að það er sama sagan með amerísku blöðin. Því miður hef ég ekki nákvæmt verð á algengum blöðum frá Bandaríkjunum, en mig minnir að Road & Track kosti rúmlega 900 krónur í Eymundsson. Því miður er ekki hægt að nálgast þessar upplýsingar á www.penninn.is.

Í áskrift get ég ekki betur séð en Road & Track og Car and Driver, svo dæmi séu tekin, kosti ekki nema US$20 í áskrift fyrir ársáskrift, eða 12 blöð. 24 blöð myndu ekki kosta nema US$30, ef mark er takandi á vefsíðu útgefanda. Þar sem gengi Bandaríkjadals er hagstætt í dag er þetta ekki nema tæplega 1600 krónur fyrir 12 blöð og undir 2400 fyrir 24 blöð!

Fyrir þá sem nota Amazon.com er líka hægt að kaupa áskriftir að tímaritum þar, þó ég þekki ekki til hvernig það kemur út upp á hagkvæmni að gera.

Hvað um það, ef þið hafið áhuga á að fræðast um bíla fyrir hóflegan pening ættu að vera tenglar á sum helstu bílatímaritin á tenglasafni áhugamálsins. Fyrir mitt leyti er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að taka Road & Track eða Car and Driver næst!