Ég gat ekki setið á mér þegar ég sá hve margir lásu og svöruðu greininni “markmiðin mín”. Mér finnst svakalega gaman að velta mér upp úr fallegum og kraftmiklum sportbílum (það er svo helv… mikið til að þeim) en ég fæ alltaf þessa tómatilfinningu því meira sem ég skoða. Ástæðan er einfaldlega peningar. Sportbílar eru einfaldlega rándýrir, því hef ég reynt að setja mér heilbrigð markmið og hef fengið leyfi konunnar til að framkvæma þau (þó samt ekki fyrr en á næsta ári). Ég hef sem betur fer ekki fallið í þá gröf að fá æði fyrir einum sportbílaframleiðanda og sjá ekkert annað (þó við vitum öll að 911 turbo er hinn eini sanni). Það er töluvert til af bílum sem hægt er að eignast fyrir undir þremur milljónum og mér persónulega finnst að bíllinn þurfi ekki að vera dýrari til að uppfylla öll grunnskylirði sem “exotic car”.
Nokkur dæmi:

Porsche 911, 3,2 eða e.t.v fyrstu Carrera 4 módelin: Allt frábærir akstursbílar, eldri bílarnir þurfa meiri lægni í akstri ef ná á úr þeim afli og árangri.

Porsche 928 s, se, s4 og gt: Allt bílar sem ná inn í fjárhagsrammann. 928 er ein vandaðasta bílasmíði sem fyrirfinnst. Reyndar mun þyngri en 911 og meiri lúxus performer, en engu að síður alvöru sportbíll sem nær árangri.

Porsche 944 s, s2 turbo og turbo s: Nettir og skarpir þjóðverjar sem gera allt sem góður sportbíll gerir, reyndar eru s og s2 e.t.v. í það latasta.

Mazda rx7: 250 hö í wankel mótor og léttum bíl. Mikið kikk út úr litlu rúmtaki, endingin á mótornum er hins vegar áhyggjuefni.

Mazda mx línan: Léttir og skemmtilegir en engir afreksíþróttabílar í afli.

Corvette LT1: Sennilega mitt uppáhald í þessum verðklassa (-3 millur). Skemmtilega grófir, mótor sem byrjar að torka strax, nánast óendanlegir “tjún” möguleikar og hljóð sem maður FINNUR í gegnum líkamann.

Subaru Imreza Turbo: Þessir bílar eru jú sportbílar i “dulargerfi”, þeir líta út sem fjölskyldubílar. En sem brautar og kappakstursbílar þá standa þeir jafnfætis nánast öllum þeim sem hér eru taldir upp fyrir ofan.

Fleiri bílar: M3, Integra, GT 3000, o.fl. o.fl.

Listinn gæti verið nánast endalaus.
Þ.a. í lokin ætla ég að setja mína topp þrjá, þið getið síðan gefið ykkar komment.

3 sæti: Fyrstu árgerðirnar af Carrera 4. O.k. ég segi fyrstu árgerðirnar því þær eru líklegastar til að sleppa inn í þriggja milljóna rammann. Eini gallinn er að ef ég tæki hann frá Þýskalandi þá þyrfti ég að taka bíl sem væri ekinn 150 þús eða meira. Mér finnst alltaf erfitt að horfa á töluna þó ég viti að þeir í Stuttgart kunni sitt fag manna best. Annað sem fær mig til að setja hann ekki ofar: mér finnst hann æðislega fallegur en mörgum finnst hann ferlega ljótur, ég er e.t.v. pínulítið viðkvæmur fyrir því (þori þó að viðurkenna það).

2. sæti: 928 s4. 320 hö í bíl sem hefur rúmlega alla aukahluti. Hann þyrfti samt að vera beinskiptur. Ég ók sjálfskiptum s4 og hann er latur fyrir neðan 3700 sn/mín sem þýðir að ég vil byggja hann upp í snúning áður en ég tek af stað, þá er andsk.. laus og 0-100 gerist á 5,2 sek ef ég næ góðum skiptingum. Ekki slæmt fyrir 1600 kg. sleða.
Ástæðan fyrir því að ég tæki s4 frekar en GT (sem er kraftmeiri) er að ég vil frekar góðan s4 en slappan GT (fyrir þennan pening).

1. Sæti: Corvette LT1 eða LT4. O.k. o.k. ég veit hvað þið hugsið: amerísk hrákasmíð sem gæti lekið í rigningu. Ég veit og viðurkenni að þessir bílar ERU ekki eins vandaðir og þjóðverjarnir í 2. og 3. sæti EN ég hef verið að skoða netið og það er ekki óraunhæft að taka inn ´94-´96 Vettu fyrir um 2,2 milljónir, bíl sem er ekinn um 40 þús mílur. Þá er ég að tala um beinskiptan (6 gíra) bíl að sjálfsögðu. Ímyndið ykkur nokkra hluti: 300-320 hö eftir árgerðum. Sex gíra kassi, útlit sem ROKKAR, frábærir aksturseiginleikar á braut, fjarlæganlegur toppur og ansi góðar græjur. Við eigum líka eftir u.þ.b. 800 þús, sem gætu t.d. farið í knastás, nýjan tölvukubb, opnara kerfi, og opnara loftinntak, MSD magnara, ásamt Hurst skipti, + smá afgangur til að fara í helgarferð til London eða París. Útkoman Raunhæf 420 til 440 hö sem nægja til að fá mig til að brosa hringinn og finnast ég vera á toppi alheimsins á góðum sumardegi, og að sjálfsögðu með toppinn opinn.

Kveðja,
F