Ubik e. Philip K. Dick Árið er 1992 og flestir sterkustu “telepaths” (telepath er einhver sem er á einhvern máta skyggn, þ.e. les hugsanir, sér í framtíðina eða þvíumlíkt, vantaði þjált íslenskt orð) heimsins hafa horfið útsendurum Glen Runciters sjónum. Þar sem Runciter rekur fyrirtæki sem bíður þjónustu fólks með hæfileika til að hefta skyggni er þetta honum áhyggjuefni svo hann leitar til eiginkonu sinnar, Ellu. Þótt Ella hafi verið látin um nokkuð skeið vill hún taka þátt í mikilvægum ákvörðunum um fyrirtækið.

Þannig hefst vísindaskáldsagan Ubik e. Philip K. Dick. Sagan sem er gefin út fyrst 1969 er ein af þeim vísindaskáldsögum þar sem framtíðartæknin þjónar sögunni en ekki öfugt. Dick er gjarn á að velta fyrir sér skynjun okkar á heiminum og kemur það ekki á óvart miðað við reynslu hans af fíkniefnaneyslu. Skynjun og raunveruleikinn er einmitt þema Ubik sem er þó að öðru leyti nokkuð ólík öðrum bókum eftir Dick. Flestar betri bækur Dicks grípa mann frekar snögglega en Ubik er meira hægfara. Dick kynnir fyrst til sögunnar aðalpersónur og aukapersónur og lýsir nákvæmlega furðulegu útliti þeirra meðan að aðdragandi sögunar vindur rólega upp á sig.

Joe Chip er hægri hönd Runciters. Þegar G.G. Ashwood, hæfileikaútsendari Runciter Associates, kemur til Chip með unga konu að nafni Pat Conley er ljóst að hún býr yfir ótrúlegum hæfileikum. Hún getur breytt fortíðinni… Chip er þess viss að þótt hæfileikinn sé magnaður til að gera að engu framtíðarskyggni sé Pat fyrst og fremst ógn.

Þegar Glen Runciter er boðið risastórt verkefni á tunglinu er hann þess fullviss um að hinir týndu telepaths séu komnir í leitirnar. Hann kallar til Joe Chip, Pat Conley og tíu manns að auki sem eru hæfir við að hefta skyggni og heldur til tunglsins þar sem hópnum er sýnt banatilræði með ófyrirsjáanlegum afleyðingum. Heimurinn hefur breyst, en hvað gerðist? Kapphlaup er hafið, en við hvað?

Þegar hér er komið í sögu verður söguþráður bókarinnar æ meira spennandi og hugmyndaflug Dick kemur í sífellu á óvart. Hann forðast af færni að sökkva í klisjur og bíður upp á sögu sem fær mann til að velta fyrir sér heiminum sem maður lifir í. Með hverri blaðsíðu og hverjum nýjum kafla kemur hann manni á óvart þar til maður getur ekki hætt að lesa.

Því miður er hæfileiki minn takmarkaður til að gera Ubik réttmæt skil í svona grein. Þetta er hinsvegar ein af bestu bókum Philip K. Dick sem ég hef lesið og sannfærði hún mig endanlega um hæfileika hans. Dick er vafalaust einn besti SciFi höfundur fyrr og síðar. Sagan er í fyrirrúmi og framtíðartæknin aðeins hluti af umgjörðinni eða sögusviðinu. Ég mæli eindregið með þessari bók en einnig the Three Stigmata of Palmer Eldritch og A Scanner Darkly.

Þess má geta að kvikmyndin Blade Runner er (mjög) lauslega byggð á bók Dicks Do Androids Dream of Electric Sheep og Total Recall var byggð á smásögunni We Can Remember it for You Wholesale.