Englar og Djöflar - Kjörbókaritgerð í Íslensku Ég ákvað að senda inn ritgerð um bókina Englar og Djöflar (Angels and Demons) eftir Dan Brown sem ég gerði í Íslensku fyrir svona ári síðan.

Inngangur

Hér á eftir ætla ég að skrifa um bókina Englar og Djöflar sem er skrifuð af Dan Brown, höfundi Da Vinci Lykilsins, og er hún nokkurs konar óbeint framhald Da Vinci Lykilsins. Dan Brown höfundur bókarinnar er fæddur 1964 og er hann einn frægasti rithöfundur heims um þessar mundir. Hann hefur skrifað fjórar bækur og hafa tvær þeirra komið út á Íslensku. Dan býr í New Hampshire ásamt konu sinni. Englar og Djöflar fjallar í stuttu máli um háskólaprófessorinn Robert Langdon sem er kallaður til Sviss til að rannsaka flókið morðmál sem dregur hann inn í aldalangar deilur kaþólsku kirkjunnar og leynifélagsins Illuminati.

Söguþráður og um bókina

Bókin Englar og Djöflar fjallar um (eins og kom fram hér áðan) háskólaprófessorinn Robert Langdon sem er sendur til Sviss til að rannsaka morð á virtum vísindamanni. Morðið virðist hafa verið framið af útsendara leynifélagsins Illuminati sem á að hafa lagt upp laupana fyrir öldum síðan. Á sama tíma er páfakjör því að páfinn hafði nýlega látist og tengist kaþólska kirkjan mjög sterkt inn í þetta allt saman. Mér sýnist höfundurinn hafa sterka óbeit á kaþólsku kirkjunni því hann lætur hana koma mjög illa fram í báðum bókunum. Það er eins og að hann sé að reyna að koma því til skila til fólksins að kaþólska kirkjan sé að gera mjög vonda hluti. Inn í söguþráðinn fléttast margar persónur t.d. Vittoría Vetra sem er dóttir hins myrta vísindamanns, Maximilian Kohler sem er yfirforstjóri CERN og útsendari leynifélagsins Illuminati. Margar persónanna eru mjög svipaðar í þessari bók og Da Vinci Lyklinum, t.d. eru Vittoría Vetra og Sophie Nevau mjög líkar þ.e. þessi klára vel menntaða útlenska þokkadís, eins eru morðingjarnir í báðum bókunum mjög líkir, þessi myrka líkamlega sterka persóna með skuggalega fortíð. Bókin gerist á mjög stuttum tíma eða á einum sólarhring sem svipar til 24 sjónvarpsþáttanna þ.e. mjög margt mjög spennandi gerist á stuttum tíma. Langdon lendir í allskonar hremmingum í bókinni og fjallar bókin að stórum hluta um það þegar hann þarf ásamt Vittoríu að reyna að koma í veg fyrir að allir kardínálarnir verði drepnir og að Vatíkanið springi ekki allt í loft upp. Þessi bók er eins og Da Vinci Lykillinn með mjög óvæntan endi, sem kemur manni mjög á óvart.

Persónulýsingar

Það eru þónokkuð mikið af persónum í þessari bók og því hef ég ákveðið að lýsa aðeins einni, þ.e. Robert Langdon aðal persónunni í bókinni og þeirri sem er sagt mest frá.

Robert Langdon:

Robert Langdon er fertugur prófessor í táknfræði við Harvard háskóla. Robert er aðalpersónan í báðum bókunum (Da Vinci Lykillinn og Englar og Djöflar) og í þeim báðum er hann kallaður til að rannsaka morðmál sem margra alda gamalt leynifélag fremur. Hann er fágaður prófessor og vel að sér í alls kyns fræðum. Höfundur notar alls kyns einföld smáatriði til að lýsa persónunum, eins og t.d. Mikka Mús úrið hans Roberts. Það táknar að hann er íhaldssamur maður en samt svolítið barnalegur, það getur líka verið ástæðan fyrir því að hann sækir í yngri konur þ.e. Vittoría Vetra og Sophie Nevau. Það kemur líka fram að honum líkar vel að umgangast nemendur sína, honum líkar vel að vera innan um yngra fólk. Langdon er nokkuð sama hvað fólki finnst um hann, eins og með Mikka Mús úrið, hann er sjálfstæður og staðfastur. Þegar hann var lítill þá datt hann ofan í brunn og var þar í þónokkurn tíma og vegna þess æfir hann sund á hverjum morgni. Það má segja að hann hafi aldrei komist alveg upp úr þessum brunni því að hann er með innilokunarkennd og er hræddur við lyftur. Robert á í erfiðleikum með að tengjast fólki, hann stendur ekki í nánu tilfinningasambandi við neinn, hann er að á vissan hátt félagslega einangraður. Lesendum er einnig sagt frá erfiðum draumum Roberts, sem eiga sér rætur í bernsku hans. Hann er óheppinn að eðlisfari, tekst alltaf að koma sér í vandræði, í erfið mál sem hann hefur ekki óskað eftir að taka þátt í. Helst virðist hann vilja vera óáreyttur í þægilegu einangruðu andrúmslofti skólastofunnar, eða vinnuherbergisins. Það eru aðrir sem draga hann út í ævintýrin og erfiðleikana, en á endanum tekst honum alltaf að koma sér út úr vandræðunum eins og upp úr brunninum forðum. Hann er því nokkurskonar andhetja. Það eru þónokkur atriði í bókinni sem minna á myndir eins og James Bond og Indiana Jones, eins og t.d. þegar hann Robert stekkur úr þyrlu í mikilli hæð og lendir ofan í læk og sleppur lifandi frá því.

Lokaorð

Persónulega fannst mér þessi bók mjög skemmtileg og spennandi, vegna þess að hver blaðsíða er full af spennu og hasar og er þetta eins og besta spennumynd. Það er ekki farið (allavegana mjög lítið) út í einhverja vitleysu eins og einhverja brjálæðislega skotbardaga eða kung-fu/karate slagsmál. Ég tel að boðskapur þessarar sögu sé mjög einfaldur, að gera góða spennusögu og góða afþreyingu og þótt að hún sé oft á tíðum einn endemis vitleysisgangur er það bara fínt því að maður býst nú ekki við því að verið sé að leysa einhverjar lífsgátur. Englar og Djöflar með Da Vinci Lyklinum eru frábærar bækur báðar og mæli ég eindregið með þeim við alla aðdáendur góðra spennusagna. Það verður líka gaman að sjá hvernig þeim tekst við að endurskapa Da Vinci lykilinn á hvíta tjaldinu (sem verður örugglega gert líka við þessa bók).