Ég var að lesa hérna kork um strák sem hafði lent í frekar leiðinlegum starfsmanni í bókasafninu í Mosó og ég varð bara hreinlega að senda inn smá grein um mína reynslu af bókasafnsstarfsmönnum.

Ég hef alltaf verið mikill bókaormur og var vikulegur gestur á hinum ýmsu bókasöfnum á mínum yngri árum. Þegar ég var svona 10-11 ára þá var ég farin að lesa “fullorðinsbækur”. Helst einhverjar svona ástarsögur sem ég hreinlega æli við að sjá í dag hehe ;-)

En allavega mamma og pabbi fóru reglulega með mig á bókasafnið. Ég er úr sveit svo við þurftum alltaf að fara í bæinn á bókasafnið og fórum við þá alltaf í Borgarbókasafnið í Gerðubergi.

Ég hef aldrei nokkurn tíman lent í eins ókurteisu starfsfólki og þar. Horfðu á mig eins og ég væri eitthvað viðundur. Þær ásökuðu mömmu og pabba um að tíma ekki að kaupa fullorðinskort og væru því að taka bækur út á barnakortið mitt. Eins og þau hefðu ekki efni á að borga einhvern skitinn 400 kall eða eitthvað fyrir skirteini.

Einhvern tíman rétt fyrir jólin þá kom pabbi með mér og ég tók einhverjar 10 ástarsöguvellur og þær horfðu með svona svip á pabba og spurðu “ertu að taka þetta út á kortið hennar”. Eins og pabbi hefði ætlað að liggja yfir ástarvellum yfir jólin… held ekki.

Svona gekk þetta í hvert einasta skipti sem ég fór á bókasafnið í nokkur ár. Skólastjórinn minn frétti af þessu og hann skrifaði bréf til þeirra en það breytti engu um. Kemur mér hreinlega á óvart að mamma og pabbi hafi nennt að standa í þessu. Þau meira að segja buðust margoft til að kaupa fullorðinsskirteini fyrir mig en ekki vildu þær það.

Ég tek það fram að í dag fæ ég yfirleitt alltaf góða þjónustu enda orðin 22 ára gömul. En það hættir ekki að koma mér á óvart svona framkoma við krakka. Eins og starfsfólkið vilji að maður lesi bara litlu gulu hænuna til 15 ára aldurs eða eitthvað.

Þegar ég var yngri þá ætlaði ég sko að vinna á bókasafni þegar ég yrði stærri. Bæði út af því að ég hafði áhuga á því út af því hve mikill bókaormur ég er en líka til að vera kurteis og almennileg við krakka sem eru svo “óheppin” að lesa mikið og vera komin í “fullorðinsbækurnar” of snemma að mati starfsmanna bókasafnanna.