Seinni heimsstyrjöldin hafði vægast sagt miklar afleiðingar fyrir heimsbyggðina. Milljónir manna dóu og margar borgir voru nánast jafnaðar við jörðu. Eftir stríðið var efnahagsástandið í Evrópu skelfilegt. En Bandaríkin stóðu uppi sem langvoldugasta ríki heims, þau stóðu undir helmingi heimsframleiðslunnar efnahagslega, höfðu misst hlutfallslega fáa hermenn í stríðinu og ekki hafði verið barist á meginlandi Norður-Ameríku.

Marshall-aðstoðin er kennd við þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, George C. Marshall. Í ræðu sem hann hélt við Harvard háskóla í Bandaríkjunum 5. júni 1947 lagði hann til að Bandaríkin myndu bjóða öllum Evrópuríkjum umtalsverða fjárhagsaðstoð. Að einhverju leyti yrði fjárhagsaðstoðin í lánsformi en að mestu leyti í formi styrkja sem myndu ná yfir fjögur ár.

Bandaríkjamenn sáu hag sinn í því að styrkja lýðræði og markaðskerfi Evrópuríkja, auk þess sem stjórnmálaleg áhrif þeirra yrðu tryggð. Sovétmönnum var hins vegar illa við hina stjórnmálalegu hlið Marshallaðstoðarinnar og þeir afþökkuðu tilboðið. Í kjölfarið fylgdu þjóðir á áhrifasvæði þeirra í Austur-Evrópu sem seinna mynduðu Austantjaldsblokkina. Eftir stóðu 16 lönd sem tóku tilboði Marshalls, í Vestur- og Suður-Evrópu.

Íslenska ríkisstjórnin ákvað þegar í upphafi að eiga samleið með nágrannaríkjum sínum öllum og vinna sameiginlega með aðstoð Bandaríkjanna að viðreisn Evrópu, þótt mótmæli heyrðust skiljanlega frá sósíalistaflokknum hér á landi. Fyrst gætti bjartsýni um efnahag og afkomumöguleika Íslands en sú bjartsýni breyttist fljótt þegar gjaldeyrissjóðirnir sem söfnuðust höfðu í stríðinu voru þurrausnir og síldveiðin norðan lands brást ár eftir ár. Þótt að Íslendingar hafi sluppið við eyðileggingar á landi var efnahagslífið úr skorðum vegna stríðsins. Íslendingar voru því ekki betur setter en aðrir. Þörfin til að efla atvinnulífið og auka fjölbreytni var mikil og einnig var dollaraskorturinn mikið vandamál.

Löndin sem tóku tilboðinu mynduðu Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (Orginisation for European Economic Recovery) eða OEEC sem hafði aðsetur í París. Aðildaríki OEEC voru 18 talsins: Austurríki, Bretland, Danmörk, Belgía, Frakkland, Holland, Grikkland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Noregur, Portúgal, Svíþjóð, Sviss, Tyrkland, Ísland og svo hernámssvæði Bandaríkjanna, Breta og Frakka í Þýskalandi. Stofnskrá samtakanna var undirrituð í París 16. apríl 1948.

1. grein skrárinnar hljóðaði svo: „Samningsaðilar eru samþykkir því að hafa með sér nána samvinnu í efnahagsmálum. Þeir munu þegar í stað beita sér fyrir því að semja sameiginlega viðreisnaráætlun og framkvæma hana. Markmið áætlunar þessar mun verða að ná sem fyrst og viðhalda fullnægjandi efnahagsafköstum án óvenjulegrar untanaðkomandi aðstoðar og mun því í áætluninni sérstaklega tillit til þess að samningsaðilar þurfa að auka sem mest útflutning til þeirra ríkja sem ekki taka þátt í henni.“ (Jóhannes Nordal: 62)

Þar er átt við t.d. Austur-Evrópu ríki sem ekki tóku þátt í fjárhagsáætluninni. Það var ekki stefnt að því að draga úr viðskiptum við þau eins og sumir halda heldur þvert á móti var það talið nauðsynlegt að auka viðskipti við þau, sérstaklega kaup á kornvörum þaðan til að draga úr greiðsluhallanum við dollarasvæðið. Annað aðalhlutverk áætluninnar var að efla efnahagslíf Evrópuríkja og auka framleiðslu, að greiðslujöfnuður næðist við dollarasvæðið samtímis því sem lífskjör almennings í Vestur-Evrópu færu batnandi. Þetta var talið nást á fjórum árum og lögðu öll aðildaríki framkvæmdaáætlun fyrir OEEC haustið 1948. Þær voru miðaðar við að ríkin myndu njóta fjárhagsaðstoðar árin 1948 til 1952. Eftir það var búist við að þjóðirnar gætu viðhaldið að minnsta kosti jafn góðum lífskjörum og það bjó við fyrir stríðið.

Framkvæmdaáætlun Íslands sem það lagði fyrir OEEC hljóðaði svo: Kaup á tólf togurum, bygging lýsisherslustöðvar, bygging fimm hraðfrystihúsa og endurbætur á gömlum frystihúsum, bygging þrettán fiskimjölsverksmiðja, aukning kaupskipaflotans fyrir áætlað kostnaðarverð sjötíu milljónir króna, tveir dráttarbátar, dráttarvélar og aðrar landbúnaðarvélar fyrir fimmtíuogtvær milljónir króna, stækkun og endurbætur á klæðaverksmiðjum, aukin raforkuframleiðsla úr 50.000 KW í 107.500 KW, þar með taldar virkjanir Sogs og Laxár, bygging áburðarverksmiðju, bygging sementsverksmiðju og bygging kornmyllu.

Framkvæmdaráætlunin var víðtæk og bar hún meiri svip óskalista en ákveðinna áforma. Helstu framkvæmdarhugmyndir voru teknar með og voru þær taldar gagnlegar og æskilegar og vænta mátti gætu notið góðs af áætluninni. Áform eins og skipakaup frá Evrópu var ekki ætlast til að gæti notið góðs af áætluninni. En virkjanir Sogs og Laxár og bygging áburðarverksmiðju voru látin ganga fyrir öllu öðru.

Áætlanir um aðstoðarþörf voru einnig samin af öllum ríkjum OEEC. Þær voru síðan athugaðar gaumgæfilega áður en lagt var til skipting aðstoðarinnar. Þetta var mikilvægasta hlutverkið fyrstu tvö árin. Einnig var unnið að því að efla samvinnu ríkjanna á viðskiptasviðinu. Íslandi var t.d. kleift að selja saltfisk til Grikklands gegn greiðslu sterlingspunda og stefnt var að því að draga úr viðskipta og gjaldeyrishömlum milli aðildaríkja.

Samningur var svo gerður 3. júlí 1948 þar sem kveðið var á um fyrirkomulag og framkvæmd aðstoðarinnar. Hann var byggður á ákvæðum í bandarískum lögum um efnahagssamvinnu. 3. apríl 1948 var svo ECA stofnað til þess að sjá um efnahagsaðstoðina. Hér á landi var hún staðsett í sérstakri deild í sendiráði Bandaríkjanna.

Efnahagsaðstoðin skiptist í þrennt: óafturkræf framlög, lán og skilyrðisbundin framlög. Þau skiptist eins og hér segir:

Óafturkræf framlög 29.850.000 dollarar
Lán 5.300.000 dollarar
Skilyrðisbundin framlög 3.500.000 dollarar

Af þessu má sjá að 77,2% framlaganna var óafturkræf framlög eða gjöf, 13,7% var lán og 9,1% var raunverulega yfirfærsla á Evrópugjaldeyri í dollara. (Jóhannes Nordal: 63)

Hin skilyrðisbundu framlög áttu að ganga til þeirra landa sem greiðsluafgang höfðu gagnvart öðrum ríkjum. Með þeim var greiðsluafgangur jafnaður. Framlögin áttu mikinn þátt í að auka viðskipti milli aðildaríkja. Skilyrðisbundnu framlögin voru aðallega bundin við að jafna greiðsluhalla. Í greiðslusáttmála sem gilti 1949-1950 var ákveðið að 25% af framlaginu skyldi nota til að jafna greiðsluhalla aðildaríkja gagnvart hinna landanna (multilateral drawing rights). Stefnt var að því að koma á marghliða greiðslukerfi milli aðildaríkja og veturinn 1949-1950 var stefnt á að koma á nýjum greiðslusáttmála. Það tókst eftir mikla erfiðleika og var Greiðslubandalag Evrópu stofnað. Samningurinn var undirritaður 19. September 1950 og var látinn gilda frá 1. júlí 1950. Aðildaskjal Íslands var afhent 14. febrúar 1951.

Bandaríkjaþing þurfti að samþykkja nýjar fjárveitingar á hverju ári fyrir næsta fjárhagsár sem var frá 1. júlí til 30. júní. og það gilti einnnig um framlög til Íslands og hverrar tegundar aðstoðin væri. Nokkur hluti var lán en langmestur hluti óafturkræf framlög eða 29.850.000 dollarar. Tvenns konar gjafir var um að ræða dollaragjafir og EPU gjaldeyrir.

Alþingi heimilaði svo ríkisstjórninni 1948 að taka fimmtán milljón króna lán „til kaupa á tækjum til síldarvinnslu og fleira“ til að bæta aðstöðuna til síldarmóttöku við Faxaflóa. 22. júlí 1948 var svo samið um 2,3 milljón dollara lán sem Bandaríkjastjórn veitti. Það var talið fyrsta ECA-framlag til Í slands.

ECA veitti svo íslendingum tvö önnur lán, 2,5 milljón dollara 1950 og 1 milljón 1952. Fyrra lánið skiptist milli virkjanna Sogs og Laxár en seinna fór til áburðarverksmiðju. ECA lánin voru samtals 5,3 milljón dollarar. Lánin báru 2,5 % vexti og voru til 35 ára.

Skilyrðisbundnu framlögin áttu að láta öðrum þáttökuríkjum í té endurgjaldslaust jafnhátt framlag í eigin gjaldeyri (drawing rights) en á Íslandi var þetta með örðum hætti. Ísland átti miklar birgðir af freðfiski sem erfitt var að selja fyrir ábyrgðarverð. ECA veitti því framlag sem var 3,5 milljón dollarar gegn því að Vestur-Þýskaland fengi freðfisk í staðinn án endurgjalds. Hægt var að fá ábyrgðarverð fyrir 6.856 tonn af freðfiski og var hann fluttur til Vestur-Þýskalands 1949. 1948 greiddi ECA einnig 1,9 milljónir dollara fyrir 4.000 tonn af síldarlýsi til Vestur-Þýskalands og 1000 tonn af síldarmjöli til Austurríkis. Það voru samt reyndar ekki talin skilyrðisbundin framlög.

Einnig naut Ísland, eins og sum önnur lönd, tækniaðstoðar. Hún var ætluð að auka framleiðslu aðildaríkja með því að styrkja náms og fræðsluaðferðir sérfræðinga, upplýsingastarfsemi um framleiðslumál og aðra starfsemi sem miðar að bæta framleiðslu. Íslenskir sérfræðingar fóru í kynningarferðir til Bandaríkjanna og einnig komu Bandarískir sérfræðingar hingað til lands. Svo voru einnig keypt rannsóknartæki og vísindarit.

Efnahagsaðstoðinni var ætlað að ljúka 30. júní 1952 en þróun heimsmála breytti þessari áætlun. Forsendurnar voru að friður héldist og litlar breytingar yrðu á verðlagi. Forsendurnar brugðust þegar Kóreustríðið braust út 1950. En hvað Ísland varðaði breyttist aðeins formið en ekki efnið. Íslendingar fengu áfram efnahagsaðstoð til maí 1953 þegar síðasta framlagið að upphæð 4.250.000 dollarar var veitt. Það var talið nægja til að framkvæma stórframkvæmdirnar þrjár. Dollaratekjur landins hafði einnig aukist svo síðustu tvö árin að þær nægðu til að standa undir nauðsynlegum dollaragreiðslum. Ríkisstjórnin tilkynnti því stjórnvöldum Bandaríkjanna að frekari aðstoð væri ekki nauðsynleg.

Efnahagsástand Íslands breyttist mjög til batnaðar vegna fjárhagsaðstoðarinnar. Árin 1949-1950 voru óhagstæð fyrir atvinnulífið til lands og sjávar en efnahagsaðstoðin kom í veg fyrir að stórvandræði hlytust af gjaldeyris og vöruskorti þessi ár. Næstu ár var Ísland svo birgt upp af nauðsynjum sem keyptar voru fyrir gjafafé. Einnig var rýmkað um höft á viðskiptum og framkvæmdum. Virkjanir við Sog og Laxá voru fullgerðar, áburðarverksmiðja var byggð, togara og kaupskipafloti var aukinn, fleiri fiskimjölsverksmiðjur voru byggðar og meiri endurbætur voru gerðar á frystihúsum en gert var ráð fyrir. Innflutningur landbúnaðarvéla var einnig mjög nálægt áætlun, vélaafl til raforkuframleiðslu næstum tvöfaldaðist og klæðaverksmiðjur voru bættar. Sementsverksmiðja varð þó að bíða og bygging lýsisherslustöðvar var ekki talin raunhæf eftir að síldaraflinn brást. En aðrar framkvæmdir var ráðist í sem ekki voru í áætluninni t.d. saltfiskþurrkhús. Aðstoðin 1950 til 1951 nam 46% af heildarfjárfestingu þessa ára og áhrif aðstoðarinnar gætti beint og óbeint á alla fjárfestinu landsmanna þessi ár.


Í hlut Íslands komu 29,3 milljónir Bandaríkjadala, þar af 24 milljónir í beinan styrk. Heildarfjárhæð aðstoðarinnar var 13.325,8 milljónir dala. Hlutur Íslendinga var því rúm 0,2%. Danir fengu í sinn hlut um nífalda upphæð á við Íslendinga, eða 273 milljónir dala. Umdeilanlegt er hvort hlutur Íslendinga hafi verið of rausnarlegur miðað við það að herseta Breta og Bandaríkjamanna hafði fremur góð áhrif á efnahagslífið en slæm. Þó er ekki hægt að deila um að Bandaríkin stórbættu lífskjör Evrópuríkja og áttu mikinn þátt í því að fá efnahagshjól Evrópu til að snúast á ný.


Heimildir:

Agnar Kl. Jónsson. 1969. Stjórnarráð Íslands 1904-1964. Sögufélagið, Reykjavík.

Jóhannes Nordal. Fjármálatíðindi. Hagfræðideild Landsbanka Íslands. Reykjavík.

Vísindavefurinn. 2003, 13. maí. „Hversu há var Marshallaðstoðin sem Ísland fékk eftir seinni heimsstyrjöld?“. Vefslóð: http://www.visindavefur.is/