Undanfarna mánuði hef ég velt fyrir mér hvernig heilinn getur framkallað þá veröld sem við skynjum, hvernig ég (hvað sem það nú er) bý til þennan heim í huganum á mér úr boðum sem berast frá þessum tugum skynfæra líkamans. Því hefur verið haldið fram að meðvitund sé sá staður þar sem öll boðin koma saman. Ég hef svipaða skoðun á málum. Eftirfarandi hugmyndum ber hvorki að taka sem staðreyndum né sem einhverju svo merkilegu að flestir hefðu ekki getað fattað það með stundarkornspælingu. Ég telst þá hérmeð hafa sparað ykkur ómakið.

Meðvitund
Meðvitundin er að mínu viti úrvinnsla hugans á þeim skynboðum sem honum berast. Við getum misst meðvitund þegar við sofnum, rotumst eða deyjum (áfengisdauða eða þessum endanlega). Við tökum þó ekki eftir öllum skynboðunum, heldur höfum við athygli sem beinist að þeim þeirra sem við viljum (eins og orðið gefur til kynna) hygla að. Þau boð eru þá færð í rými rökhugsunar og svipaðrar úrvinnslu, sem er einstök manninum hvað stærð og getu varðar. Svör við öðrum skynboðum verða þá sjálfvirk, sem er heppilegt, því annars væru aðgerðir eins og hjólreiðar öllu strembnari en raun ber vitni. Þegar við höfum lært hjólreiðar og hreyfingarnar að baki þeim eru orðnar okkur tamar (þ.e. þegar þær eru komnar í verkminni okkar) getum við framkvæmt þær án þess að beina að þeim athygli okkar, og notað hana frekar í eitthvað sem raunverulega þarfnast hennar, eins og samræður eða íhugun.

Tilkynningaskylda
Þegar ég segi að skynboðum utan “athyglisradarsins” sé svarað sjálfvirkt meina ég ekki að það sem innan hans er sé ekki svarað sjálfvirkt. Viðbrögð við þeim boðum sem athygli beinist að sækja ekki í verkminnið sem ég minntist áður á, heldur í rökhugsunina, þar sem skipulega er unnið að lausn á málinu. Þetta skýrir hvers vegna maður á erfiðara með að gera suma hluti eftir að maður hefur útskýrt þá ítarlega (fyrir sjálfum sér eða öðrum), eins og að spila flókin tónverk á píanó. Verkminnið kunni ágætlega að spila tónverkið en rökhugsunin gerir þar lítið gagn.
Athyglin veiðir þannig “áhugaverð” boð í net sitt og lætur okkur þannig vita af þeim.

Ímyndun
Við höfum þó ekki bara rökhugsun og verkminni. Við höfum einnig minni sem geymir atvik sem við höfum lent í, bækur sem við höfum lesið og álíka (sem skiptist í skamm- og langtímaminnin) ásamt öðrum búnaði sem ég tíunda ekki hér.
Þótt ímyndunarafl okkar sé flóknara en svo að ég nái nokkrum tökum á því sýnist mér líklegt að það sé vefur margra heilastöðva sem í sameiningu skilar misnothæfum niðurstöðum. Þannig getur okkur kannski dottið í hug geimflaug þegar við sjáum kókflösku, vegna vægra formlíkinda. Það blasir við að ímyndun er mjög háð hugarástandi, mun meira en t.d. rökhugsunin. Ef margar heilastöðvar hafa verið fengnar til vinnu við ákveðið viðfangsefni dögum saman skilar þetta tengslanet sem ímyndunaraflið virkjar niðurstöðum eftir því.

Undirmeðvitundin
Svo, heilinn á fullt í fangi með verkefnum sínum, þótt maður beini athyglinni að fáum þeirra. Ímyndunin bindur síðan mistengda þræði þeirra saman og beinir athyglinni að þeim ef tilefni er til. Þessir þræðir geta verið handahófskenndir en eins og snert var á áðan eru tengsl þeirra oft háð viðfangsefnum sem fanga hugann á þeim tímapunkti. Þegar ímyndunin sem til verður er hæfilega merkileg til að athygli sé vakin á henni má segja að við höfum fengið hugmynd. Þess má geta að Einstein fékk hugmyndina að sértæku afstæðiskenningunni þegar hann var að rabba við vin sinn eftir að hafa eytt löngum stundum í hugleiðingar henni tengdar. Nýjar rannsóknir bera þess einnig vitni að það að beina huganum að öðru en vandamáli (og jafnvel svefn) geti auðveldað fund lausnar þess.

Þar hafið þið það. Lítil og nett pæling sem ég hef þó byggt á nýlegum rannsóknum á virkni hugans. Hafi einhver áhuga á tæknilegri útfærslum eða almennum skýringum er það sjálfsagt.