Fellsendavatn Um daginn skellti ég mér upp á hálendi til þess að veiða í Fellsendavatni sem er rétt sunnan við Þórisvatn. Vatnið er frekar lítið og djúpt en landslag í kringum vatnið er frekar einsleitt, sandur og aftur sandur. Í vatninu veiðist urriði sem sleppt var í vatnið fyrir nokkrum árum.

Okkar fyrsta stopp á leiðinni var á Hálendismiðstöðinni Hrauneyjum. Þar keyptum við veiðileyfið sem mér finnst frekar dýrt, 2500 stöngin á virkum dögum en 5000 um helgar. Þá héldum við áfram sem leið lá að vatninu en malbikað er nánast alla leið að vatninu.

Þegar við mættum á svæðið var hvasst og rigningu spáð seinna um daginn. Ekki gott veður það. Þá var makríl skellt á sökkutaum, kastað út stöngin látin í letingja og hlaupið inn í bíl í skjól! Ætlunin hafði verið að veiða töluvert með spún og flugu en veðrið leyfði það ekki.

Eftir hálftíma bið tók fyrsti fiskurinn, 3,5 punda urriði. Síðan náðum við að rífa upp fisk á sirka 20 mín fresti. Við fórum heim þegar fór að rigna með 10 fiska, þann stærsta rúmlega 5 pund og þann minnsta tæplega 2.

Ég mæli með þessu vatni fyrir þá sem finnst gaman að sitja inni í bíl og bíða eftir því að fiskurinn taki. Ég ætla pottþétt þarna aftur í góðu veðri.

*Myndin er tekin við Fellsendavatn í vetrarbúningi.
Allt hefur enda, pylsa hefur tvo.