Gagnagrunnar: Töflualgebra 101 (Normalization) Uppbygging taflna, kostir venslaðra gagnagrunna nýttir.

Ef þú hugar vel að uppbyggingu taflna, verður eftirleikurinn auðveldur.

Viðvörunarbjalla ætti að hringja ef þú þarft að endurtaka innslátt eða ef dálkar(svið) endurtaka sig. Þá er alveg víst að hægt sé að skipta töflunni upp í fleiri töflur. Sjá dæmi að neðan.

Dæmi;
Tökum dæmi þar sem þú þarft að halda utanum nafn og heimili nemenda, fögin sem þeir hafa tekið og einkunnir. Fyrsta hugsunin gæti verið að reyna að koma þessu í eina töflu þar sem fram koma eftirfarandi svið:

Kennitala | Nafn | Heimilisfang | Heimsími | Fag | Einkunn |


En við nánari athugun kemur í ljós að þú þarft alltaf að færa kennitölu, nafn, heimilisfang og síma fyrir hvert fag sem nemandinn velur sér. Fyrir utan hvað það er tímafrekt býður það upp á innsláttarvillur og ef nemandinn flytur þarftu að breyta heimilisfangi og símanúmeri á mörgum stöðum. Næsta hugdetta gæti verið aðeins ein færsla fyrir hvern nemanda og mörg svið fyrir námskeið og einkunnir:

Kennitala | Nafn | Heimilisfang | Heimasími | Fag1 | Einkunn Fag1 | Fag2 | Einkunn Fag2 | Fag3 |
osfr…


En hvað áttu að gera ráð fyrir mörgum sviðum fyrir fög? Hversu stór á taflan að vera og hversu mikið pláss á hún að taka? (Tóm svið taka pláss). Hvað ef nemandi tekur fleiri námskeið en gert er ráð fyrir í töflunni? Hvernig er geturðu reiknað meðaltal einkunna ef þær eru ekki í sama sviði? ATH! Ef um er að ræða endurtekningu sviða eins og í þessu tilfelli eru það skýr skilaboð um að þú getir brotið töfluna upp í tvær töflur.


Ef þetta er sett upp í tvær töflur gæti það litið t.d. svona út;
Nemenda taflan:

NemendurKenni | Nafn | Heimilisfang | Sími


Fag taflan verður svona:

FagKenni | NemendurKenni | Fag | Einkunn |


Enn eru vandræði. Þú þarft að skrá nafnið á faginu aftur og aftur. Það merkir að þú getir gert enn betur og skipt töflunni enn einu sinni upp (í þriðju töfluna). Þ.e. eina fyrir nemendur, eina fyrir fög, og eina fyrir einkunnir.

Nemendataflan verður því svona:

NemendurKenni | Nafn | Heimilisfang | Sími


Fag taflan verður svona:

FagKenni | Fag | Athugasemdir |


Taflan Einkunnir hefur aðeins þrjú svið:

NemendurKenni | FagKenni | Einkunn


Núna er þetta orðin mjög góður grunnur. Einkvæmir lyklar væru;
Nemendataflan - lykill á NemendurKenni
Fagtaflan - lykill á FagKenni
Einkunnartaflan - lykill á NemendurKenni og hugsanlega líka á FagKenni.

Þessi grunnur er nú; stækkanlegur á alla kanta. Gögnin taka bara það pláss sem nauðsynleg er. Það er auðvelt að viðhalda honum og skriffinnska er í lágmarki.

Framhaldið má finna í greininni Gagnagrunnar: Töflualgebra 102 (Praxis).

Senninha
himbrimi@yahoo.com