Stóridómur - Jólaplatan Stúfur Jú, ég tók mig til í dag og ráfaði í 12 tóna til að næla í þennan merkisdisk sem svo margir hafa röflað um undanfarið, Jólaskífuna Stúf. Ekki gerði ég mér miklar vonir um innihaldið, hafði heyrt eitt lag af plötunni (Jólakött Ókindar) og þótt reyndar með endemum frábært, en svo er nú yfirleitt með svona safnskífur gefnar út til góðs málefnis að oft vill músíkin fara fyrir ofan garð og neðan, sbr. Hjálpum þeim og hörmungina “Börnin Heim” sem gefin var út til hjálpar Sófíu Hansen (oj. það var svo hræðileg skífa).

Þess ber því að geta hér strax að diskurinn er gefinn út til styrktar Mæðrastyrksnefnd, en sú nefnd er einmitt ábyrg fyrir því að ólukkufólk og aðrir sem eiga ekki til hnífs og skeiðar fái eitthvað gott um jólin og fari ekki í Jólaköttinn. Allur ágóði útgáfunnar fer til þessa göfuga málefnis og því var mér nokk sama þó diskurinn innihéldi ekkert annað en Lalla Johns að kovera gömul Boney M lög, skífuna myndi ég kaupa samt.

Því kom það mér skemmtilega á óvart að platan er ekki aðeins góð, heldur fáranlega góð.

Byrjum á byrjuninni. Öll umbúðavinnsla er til fyrirmyndar. Platan kemur í svokölluðu stöðluðu “jewelcase” svo hún ætti að lifa fram til næstu aldar með góðri meðferð. Coverið sjálft er einkar smekklegt og jólalegt, en samt sem áður nútímalegt og ber vott um smekkvísi. Sérstaklega var ég hrifinn af því að titill plötunnar á síðu hennar er ekki á hlið eins og á svo mörgum plötum, heldur stendur hann rétt. Fáheyrð natni finnst mér. Bæklingur er í raun enginn, einungis baksíða þar sem fram koma allar helstu nauðsynlegu upplýsingar um sveitirnar og upprunalega höfunda, enda er meira óþarfa prjál. Allt er vel læsilegt og glæsilegt.

En þá er það platan sjálf, og þau lög sem hana fylla.

Fyrsta lag plötunnar er Jólakötturinn í flutningi Ókindar. Ókind hefur getið sér gott orð fyrir mikla og staðfasta spilamennsku og muna margir eflaust eftir þeim úr öðru sæti Músíktilrauna um árið þegar hinir kornungu Búdrýgindismenn hrepptu fyrsta sætið.
Íslendingar hafa margoft heyrt Jólaköttinn í gegnum árin í flutningi hennar Bjarkar okkar Guðmundsdóttur, en í útgáfu Ókindar bregður við nýrri hlið á þetta gamalkunna stef.
Flutningur Ókindar minnir mann helst á hvernig jól okkar íslendinga voru í okkar ömurlegu fortíð, þegar frostið og skafrenningurinn rann inn í ömurleg hriplek híbýli okkar og úti var ekkert nema ískalt desembermyrkrið. Óttinn við hið ókunna hafði tangarhald á þjóðinni og krakkarnar migu á sig af hræðslu ef fengju þeir ekki flík í jólagjöf, enda kæmi þá jólakötturinn og æti þau upp til agna.
Það er heví fokkd að vera étinn vegna þess að maður fær enginn föt. Í því vill enginn lenda.
Stórkostlegt lag í alla staði, og bráðnauðsynlegt í þessum ömurlegu tímum þar sem fátt annað hljómar á öldum ljósvakans en síendurtekið Jólahjól og endurunnar Eros Ramazzotti ballöður, snúnar upp í jólin. Að mati undirritaðs er útgáfa Ókindar mun betri en útgáfa Bjarkar sem berst einum of mikið við að vera þjóðleg, en verður yfirkeyrð af midihljóðfærum sem draga úr drunganum sem einkenna skyldi Jólaköttinn.

Annað lag plötunnar er frá Hermigervlinum sem getið hefur sér gott orð sem instrumental hiphop flutningarmaður með meiru. Hermigervill gaf nýverið út skífuna ,,Lausnin" sem allir tónlistarunnendur ættu endilega að líta á, ef ekki væri nema fyrir frumlega og kærkomna notkun á íslenskri tónlist til sömplunar.
Lag Hermigervils ,,Jólasull" er einmitt eitt slíkt. Í laginu nýtir hann sér þá fjársjóði sem íslensk tónlist hefur að geyma fyrir samplara, og endurvinnur meðal annars Litla Trommudrenginn sjálfum sér til framdráttar.
Þó að sömplunin sé vitanlega gegnum gangandi í gegnum lagið, rétt eins og í öllum lögum af þessu tagi, er ánægjuleg hve vel heppnast hjá Hermigervli að skapa sína eigin melódíu sem er í senn hipp, kúl og jólaleg. Fágæt blanda sem vert er að taka eftir. Ætli Jólahjól Sniglana hafi ekki hljómað svona þegar það kom út í denn, öðruvísi og kærkomin breyting frá norminu? Stórgott lag sem undirritaður setur á stall með “Mér Hlakkar Svo Til” eftir Dáðadrengi sem skemmtilegustu hiphopjólalög sem út hafa komið. XMas in Hollis er drasl.

Toppless Latino Fever stekkur eins og skrattinn úr sauðaleggnum með þriðja lag skífunnar. Túlkun þeirra á Göngum við í kringum er hress og léttjözzuð með sveittu ragtime píanóí. Minnir mann á dönsk jól eins og þau gerast best með kryddsíld og rúgbrauði og fær mann ósjálfrátt til að smella með fingrum. Hressleikinn er í fyrirrúmi og enginn verður svikinn af því að ganga í kringum jólatréið við undirleik Toppless Latino Fever.
Sérstaklega ber að geta frábærs píanóleiks og yfirmáta hress trompetts.

Fjórða lag plötunnar er eftir Dodda og er hans (þeirra?) útgáfa af White Christmas. Örlítið póstrokkleg ballaða sem minnir helst á Sigur Rós þegar þeir eru sem ljúfastir. Þétt pródúsering og ljúf útsetning gerir þetta að tilvöldu lagi til að leika undir forréttinum með fjölskyldunni.

Lokbrá eiga fimmta lag plötunnar. Þeir ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur tækla ,,Ó helga nótt." Mikið var ég hræddur um að þetta yrði hræðilegt. Það hlyti að koma að því að eitthvert lagið yrði drasl. Ég þekki ekki til Lokbrá, fyrir utan nokkur lög frá því back in the day sem aldrei vöktu hrifningu mína.
En sjá, Lokbrá reynast þéttari en nokkru sinni fyrr og þenja upp raust sem fáheyrt er að heyra svo fagra frá unggæðingslegum rokkurum. Undirritaður klökknaði (næstum, enda karlmenni) þegar lagið náði crescendóinu og hefur þetta lag vægast sagt breytt áliti mínu á Lokbrá.

Atli Bollason útgefandi Stúfs á heiðurinn af framsæknasta lagi plötunnar. Sem listamaðurinn Atli & leikur hann með aðstoð Kára Hólmars félaga síns sína útfærslu af ,,Chestnuts Roasting on an open fire", hér nefnt Ristaðar kastaníur. Naumhyggjulegt elektró líður undir ljúfum básúnuleik og fær mann til að hugsa um hvernig jólin muni verða árið 2304. Lag sem tekst vel að brúa bil raftónlistar og hliðrænnar tónlistar, og sérlega velheppnað um jólatímann.

Bob, Clown in Christmastown. Sjöunda lag Stúfs er eins og blanda af standuppi með Henry Rollins, nightmare before christmas og einum lítra af Jack Daniels. Progrokkað og þunglynt og ber hugann inn á salerni Hlemmi þar sem það vekur upp spurningar um hvernig jólin séu hjá fíklunum sem frjósa á götuhornum klukkan 6 á aðfangadagskvöld.

Yndið sem er Isidor leikur Jóla - Jólasvein. Sagt var um Isidor þegar þeir tóku þátt í músiktilraunum að þeir væru of ,,FÍH-legir". Ef það þýðir gríðarlega hæfileikaríkir hljóðfæraleikarar, þá held held ég að það sé vart nokkuð til að kvarta undan. Ef Oscar Peterson hefði verið gítarleikari þá hefði hans túlkun á Jóla-jólasveinn verið svona. Alltof stutt, því miður. Isidor hefði mátt sleppa betur af sér beislinu og láta lagið flæða eins og þeim sýndist.

Lokalag Stúfs er frumsamið og ber nafnið ,,Mamma kveikir kertaljós" og flytjendur eru Hjaltalín. Sætari gerast jólalögin ekki, ég er ekki frá því ég hafi fengið skemmd í endajaxli þegar ég hlustaði á þetta lag í fjórða skiptið. Það er merkilegt að hlusta á svona yndisleg jólalög frá ungu hæfileikafólki og heyra hve auðveldlega þau toppa allt sem Létt 96.7 og Bylgjuklíkan ælir upp úr sér. Söngvarar Hjaltalíns strjúka hjartastrengi áheyrendans af óhugnalegri natni og ljúka plötunni á ljúfum jólanótum.

Að gefa einu lagi frekar en öðru einkunnir á plötu sem þessari er ekki hægt, ekkert frekar en að reyna að brjóta plötur eins og Sgt. Peppers eða OK Computer upp í eindir. Stúfur er heildstæð jólaplata, sú besta sem komið hefur út í áraraðir og er skyldueign á hverju íslensku heimili. Það væri ekkert nema smán og skömm ef hún seldist ekki upp fyrir jól, enda er hér um að ræða plötu gefna út í takmörkuðu upplagi með tónlistarmönnum sem flestir, ef ekki allir munu kveða sér hljóð á sviði íslenskrar tónlistar í framtíðinni.


Hlaupið, ekki ganga út í 12 tóna eða Smekkleysu og kaupið þessa plötu. Þið eigið það skilið.

****