Super Smash Brothers Melee Titill: Super Smash Brothers Melee
Tölva: GameCube, PAL
Þróunaraðili: HAL Laboratories
Útgefandi: Nintendo, 2002
Flokkur: Bardagaleikur
Fjöldi spilara: 1-4
———————

Super Smash Bros. var upprunalega gefinn út á Nintendo 64 árið 1999. Super Smash Bros. Melee er reyndar ekkert annað en endurbæting á forvera sínum. En þvílík endurbæting.

Í leiknum eru 25 persónur. Þar má nefna Link, Mario, Zelda, Bowser, Samus Aran, Fox McCloud og einnig aðrar óþekktari persónur eins og Marth, Roy, Ness og Pichu. Allar eiga þessar persónur þó sameiginlegt að hafa komið fram í öðrum leikjum Nintendo. Margar persónurnar þarf að aflæsa með því að klára ýmis takmörk í leiknum, en farið verður í það nánar hér á eftir.

Saga leiksins er ekki mikil né stór, en hún gengur út á það að einhver ónefndur safnari á litlar styttur af þessum fjölmörgu persónum, og leikur sér að þeim með því að láta þær berjast. Styttan sem ber sigur af hólmi þarf svo að berjast við safnarann sjálfan (Eða hanskann hans, réttara sagt.) Ósköp einfaldur söguþráður, en ekki láta hann blekkja ykkur. Super Smash Bros. Melee er mjög flottur og djúpur bardagaleikur.

Bardagar í leiknum eru fremur einfaldir við fyrstu sýn. Þú lemur andstæðinginn með A og framkvæmir sérstök brögð með B. T.d. getur Kirby gleypt andstæðinginn og fengið brögð hans, á meðan að Zelda getur breytt sér í Sheik og Ness kallar fram eldingar og orkusprengingar.

Leikurinn gengur út á að lemja andstæðinginn út úr “hringnum” eða borðinu. Þetta er gert með því að framkvæma svokölluð Smash-brögð, enda nafn leiksins dregið af þessu. Með því að smasha andstæðinginn flýgur hann langt frá þér. Hægt er að láta þá fljúga lengra og lengra með því að tímasetja brögðin rétt og fjarlægðin veltur líka á því hversu mikinn skaða persónan þeir mátt þola. Þetta hljómar kannski einfeldningslegt, en sannleikurinn er sá leikurinn er svo hraður og ærslafullur að stundum getur reynst hrikalega erfitt að framkvæma brögðin rétt. Einnig er hægt að nýta sér allskonar hluti sem skjóta upp kollinum víðsvegar í borðunum; þar má nefna sprengjur, eldspúandi blóm, geislasverð, hafnaboltakylfur, byssur og stjörnur. Þessir hlutir geta gjörsamlega breytt gangi leiksins og þess vegna mikilvægt að nota þá rétt.

Einnig er stór hluti leiksins fyrir einspilun. Hægt er að spila Classic og Adventure mode og fá fullt af bónusum og aukadóti fyrir að klára þau. T.d. getur maður fengið nýjar persónur, borð og aukafítusa. Einnig safnar maður verðlaunagripum fyrir einspilun. Alls eru 292 verðlaunagripir í leiknum, og það tekur hrikalega langan tíma að safna þeim öllum. Marga þeirra er hægt að fá í gegnum lítið lottótæki í leiknum, en sumir verðlaungripir fást aðeins fyrir mjög erfið afrek, eins og að sigra leikinn á Hard, klára bónusborðin á sérstökum mettímum, ná nógu mörgum persónum og margt fleira. Þess má einnig geta að verðlaunagripirnir eru styttir af hinum ýmsu persónum, ímyndum og hlutum sem hafa átt þátt í að móta Nintendo eins og við þekkjum það í dag.

Allt í allt er Super Smash Bros. Melee frábær og mjög skemmtilegur leikur sem verðskuldar athygli allra aðdáenda Nintendo.

Framkoma: 9/10 - Öllu sem viðkemur Nintendo pakkað saman í eitt.
Spilun: 10/10 - Hræðilega ánetjandi, hraðir og spennandi bardagar
Tónlist: 10/10 - Öll gömlu og klassísku lögin eru til staðar
Grafík: 8/10 - Flott og hrein grafík sem passar við anda leiksins.
Ending: 9/10 - Erfiður á köflum, lengi að safna verðlaunagripunum.

-Royal Fool