Metal Gear Solid 2: Sons of Liberty
Playstation 2
Útgefandi: Konami
Þróunaraðili: Konami JPN
Tegund: Ævintýri
Uppruni: Japan
Fjöldi leikmanna: 1
Útgáfudagur (USA): 13.nóvember 2001
Útgáfudagur (PAL): 22.febrúar 2002

Það er engin furða að eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum að rætt hafi verið að stöðva útgáfu þessa leiks. Metal Gear Solid 2 fjallar um hryðjuverkasamtökin Sons of Liberty sem hyggjast frelsa Manhattan og breyta því í einskonar lýðveldi. Saga leiksins spannar rúm 6 ár og er bein afleiða Metal Gear Solid sem kom út fyrir Playstation í den. Þegar fyrsti Metal Gear Solid leikurinn kom út á Playstation fékk hann frábærar viðtökur og hefur lengi vel verið talinn sá besti sinnar tegundar á PS1. Þrátt fyrir mikil hrós var ávalt kvartað yfir því hversu stuttur leikurinn var þar sem leikmenn voru að klára hann á rúmum 8-10 tímum eða skemur og gerði það að verkum að hann var varla þess virði að eiga. Þar af leiðandi missti Konami stóran hluta sölunnar til videóleiga og hagnaðartölur voru ekki þær sem við var búist. Þrátt fyrir allt fékk leikurinn fantagóðar viðtökur.

Þessar kvartanir vegna lengdar leiksins munu rísa aftur, það er bókað, þar sem flestir Playstation 2 ævintýraleikir eru fremur stuttir. En það sem fæstir sjá er aðal markmið leiksins. MGS2:SOL er ekki bara venjulegur leikur. Þetta er rauntíma njósnatæki þar sem þú getur leikið þér endalaust í að prófa mismunandi leiðir og gera flottustu hreyfingarnar til að fá sem mestu spennu úr honum eða jafnvel, aðeins til að monta þig fyrir félögum þínum. Það er þess vegna sem MGS2 nær að yfirstíga galla sína á endanum þar sem fólk smátt og smátt lærir að þetta er ekki einungis leikur heldur leikfang, hlutur með mikla eiginleika sem mun láta þig koma aftur og aftur til leiks þrátt fyrir að hafa klárað hann einu sinni. MSG2 er heill heimur út af fyrir sig, ég fann mig stundum leika mér tímunum saman að liggja upp á þaki í einni missioninni með sniperinn skjótandi mávana, reyndandi að ná tveimur í einu þegar þeir flugu í kross. Leikurinn segir grípandi og ögrandi sögu þar sem maður missir kjálkann oftar heldur en ég gæti talið á fingrum beggja handa en það eru tímabil í leiknum þar sem eru langdregin og erfitt er að útskýra til að spilla ekki fyrir ykkur lesendur góðir. Þar sem þetta er bíómynd út af fyrir sig þá ætla ég ekki að spilla því fyrir ykkur. Samt sem áður er þetta bíómynd í þeirri merkingu eins og hver önnur ræma, þetta er leikur auk þess að fyrir mér er þetta leikur ársins ef ekki það æðislegasta sem ég hef spilað hingað til.

Aðalkrafur MGS2 er grafíkvélin. Það er ótrúlegt að sjá hvað hópur hæfileikaríks fólks hjá Konami getur gert þegar viljinn er fyrir hendi. Það er ómögulegt að ímynda sér jafningja þessa leiks fyrr en sami hópur kemur saman og býr til annars konar leik af sömu stærðargráðu. Auðvitað er hægt að vitna í aðra leiki með kannski betri áferð og einblína á einhver smáatriði en þegar litið er á MGS2 í heild sinni þá er það nánast ekki möguleiki. Í MGS er áferð hluta virkilega flott, það má ekki efast um það, hreyfingar eru virkilega vel útfærðar, kvikmyndatakan er snilld og margir svalir eiginleikar sameina krafta þessa leik og gera hann að einni heild sem er nánast fullkomnun.

Reyndar þegar nánar er í þetta spáð þá eru hreyfingar leikmanna það sem stendur upp úr og það sem kemur í öðru sæti er án efa veðuráhrifin. Merkilegt nokk að þótt það séu nokkrir mánuðir síðan maður prófaði leikinn fyrst þá er maður alltaf jafngáttaður af þessu öllu saman þegar maður fer í leikinn. Samt sem áður þá eru sumar hreyfingar sem tengjast því að þeir fara saman við umhverfið, þá er verið að meina að fætur liggjandi hermanna hverfa inn í veggi osfrv. Þetta er þekktur galli eins og til að mynda í Dead or Alive 3 þar sem sá leikur fékk stóran mínus fyrir þetta í öðrum umfjöllunum, en Solid Snake hrærist ótrúlega vel í þessum heimi ásamt því stóra leikaravali í þessum leik. Það er til að mynda æðislegt að sjá verðina geispa og það sem meira er, þeir virðast þreyttir. Snake hnerrar öðru hverju og allt hefur þetta áhrif á umhverfið og gæti komið upp um þig á hverri sekúndu. Það er eins og þetta sé alvöru fólk ekki bara einhverjir forritaðir pólígonar. Konami á skilið “a big pat on the back” fyrir þetta afrek það er engin spurning.

Það sem meira er og gerir þennan leik ennþá meira heillandi eru bíómyndirnar inn á milli sem eru með því ótrúlegasta sem sést hefur hingað til. Ímyndið ykkur Matrix, Star Wars, True Lies, Armageddon og allar þær flottu brellumyndir sem sýndar hafa verið nýlega og skartað flottum atriðum. Takið allar þessar myndir og smellið þeim saman og margfaldið með 10. Útkoman er MGS2:SOL, ótrúlegt en satt. Það hafa fáir sem sáu mig spila leikinn í gegn ekki sagt þetta hafa verið eina bestu bíómynd sem þeir hafa nokkurn tímann séð og hrósað atriðum hennar hvívetna lengi vel. Það tók jafnvel sjálfan mig langann tíma að komast að því hvort það væri raunveruleika vélin sjálf sem væri að teikna þessi atriði í stað FMV sem er svo vinsælt í PS leikjum. Viti menn, heppilega vill svo til að það er bónus í leiknum sem gerir það að verkum að maður getur hreyft myndavélina sjálfa í þessum atriðum og þ.a.l. er það útilokað að um FMV sé að ræða. Allt sýnist og hreyfist svona vel og þegar Metal Gear Ray fer fyrst á hreyfingu þá má maður alveg búast við því að fá væna gæsahúð og sökka sér ofan í sófann jafnvel krjúpa niður á hné, slefandi ekki trúandi að svona atriði séu á nokkurn hátt möguleg. Úff, ég ætla ekki að vera nákvæmari en þetta, verð að stoppa mig af annars tala ég endalaust um þetta. :)

Nákvæmni er það sem MGS2 snýst um. Maður getur starað á hann sem tímunum skiptir og alltaf fundið nýrri og flottari hluti til að gera í honum. Sem dæmi má nefna hurðir, blóðslettur á gólfinu eftir að öryggiskerfið fór á, einnig hvernig hermennirnir halda á skotvopnunum, lýsingar á veggjum og hlutum.

Leikurinn er njósnaleikur. Reyndar er þetta byggt á njósnavél númer 2 þar sem fyrri leikurinn byggður á sömu vél en með að sjálfsögðu heilmikið af breytingum. Í fyrstu hélt ég að Metal Gear Solid hefði bara verið venjulegur leikur en þegar nánar er skoðað þá er þetta heilt leiktæki út af fyrir sig. Markmið vélarinnar er af sjálfsögðu að læðast og láta ekki spotta sig. Það er einmitt það sem gerir MGS2 frábrugðinn öðrum leikjum að láta ekki sjá sig er það sem gerir þetta skemmtilegt. Hef aldrei kynnst slíku áður. Það sem mér fannst mest spennandi við vélina í sjálfum sér var að sleppa að nota leiðbeiningarnar sem fylgdu með leiknum og uppgötva hann sjálfur. Þrátt fyrir að maður fái ýmsar leiðbeiningar þegar maður byrjar að spila. Þegar maður tekur við stjórn Solid Snake þá er eins og maður falli inn í hann algjörlega, allt virðist svo eðlilegt, maður verður að passa sig vel að vera næmur á Dual Shock stýripinnann og ímynda sér að maður sé í raun að sjórna lifandi persónu. Ef ég ætti að fara nánar út í leikspilunina og frábærleika hennar þá væri það ómögulegt nema að vitna til atriða leiksins og þ.a.l. væri ég að spilla fyrir ykkur.

Tónlist leiksins er mæta vel gerð og endurspeglar andrúmsloftið hans í hvert sinn auk þess sem stigmögnun tónlistarinnar hverju sinni við ein ákveðin atriði tífalda spennuna við þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru á þeim tímapunkti. Harry Gregson-Williams er tónlistarsmiður þessa meistaraverks en hann er einnig þekktur fyrir tónlist í frægum Hollywood kvikmyndum á borð við Enemy of the State.

Svo ekki sé lengra farið út í ágæti þess leiks er rétt að fjalla um þá hluti sem helst hafa verið í deiglunni tengt MGS2:SOL undanfarið og það er að MGS2 er svo miklu meira heldur en bara saga, meira en bíómynd. Þetta leikur og með þeim bestu, ef ekki sá besti sem gerður hefur verið. Að auki ef þetta er ekki besta saga sem nokkurn tímann hefur verið sögð. Eftir því sem lengra leið á þennan leik að mínu áliti þá kom yfir mig hræðsla að hérna væri ég að upplifa snilldina eina og það væri nánast ómögulegt að gera slíkt meistarastykki aftur. Forritarar Konami eru líklegast í löngu fríi eftir þennan leik, það kæmi mér ekki að óvart. Ekki það að þeir eiga það ekki skilið. Þetta er kannski það eina sem er svona slæmt við þennan leik að hann gefur lítið sem ekkert tækifæri á því að arftaki hans sé nálægt því að verða til í framtíðinni. Þessi leikur mun, og takið eftir orðum mínum, þessi leikur mun vinna titilinn “Besti leikur ársins” á næstu E3 sýningu. Ef ekki, skal ég hundur heita.

Dómurinn:

Framsetning: 10.0
Grafík: 10.0
Tónlist: 10.0
Leikspilun: 9.8
Ending: 9.9

Meðaltal: 9.94

Pressure