kíkti yfir á MYSPACE…
Þetta var eins og að koma inn í draugabæ. Óuppgerð mál og leifar af draumum sem féllu um sig sjálfa á einni nóttu, þegar bláa bókin var gefin út. Í pósthólfinu mínu leyndust bréf sem ryk þurfti að dusta af, bréf sem bárust árið 2008, fyrir hrun, og voru enn ólesin. Meira að segja frá fólki sem ég hef ekkert samband við reglulega í dag, en væri kannski öðruvísi hefði ég séð þessi bréf á réttum tíma.

Skrítið að koma inn í umhverfi sem hefur verið ósnert að mestu leiti í eitt til tvö ár. Eins og að stíga inn í tímavél og ferðast aftur í tímann. Þarna eru gamlar myndir, gamlar auglýsingar og gömul umræðuefni sem sitja bara þarna, og enginn er þarna til að taka til. Það er eins og allir hafi loggað sig út á sama tíma og fært sig um set, og ég er nokkuð viss um að það er nákvæmlega það sem gerðist.