Komiði sæl samhugarar mínir. Eins og þið sjáið flest öll þá geng ég undir notendanafninu FlapJack. Ég hef verið notandi hér síðastliðin 4 ár. Þegar ég gekk til liðs við ykkur var gamli hugi enn í ágætis fjöri og reglulega komu upp áhugaverðar umræður og skemmtilegir korkar, pistlar og greinar. Fólk kom hérna reglulega, skiptist á skoðunum og reifst jafnvel. Ég sagði kannski ekki mikið og skrifaði sjaldan mína eigin korka og/eða pistla, þetta er mín fyrsta grein. Setti einhverntímann inn smásögu og svo var maður svosem smá duglegur á rómantík, sem mér þótti hinn besti staður á sínum tíma, enda ástsjúkur táningur. Ekki það samt að ég sé mjög gömul. Er á tuttugasta aldursári, telst því enn táningur. Ég fór að lesa huga upp úr 12 ára aldrinum. Skráði mig þó ekki strax. Ég var lurkur.

Undirbúið ykkur, ef ykkur langar að lesa. Hér verður ekkert TL;DR.

Einhver ykkar hafa ef til vill heyrt um og/eða nota síðuna reddit.com.

Ég geri það. Nota nánast daglega. Ég tjái mig og pósta ýmislegu hér og þar. Reddit minnir mig svolítið á huga. Ég kynntist huga fyrst og síðan reddit. Eini munurinn er að það er heill hellingur af fólki þarna, þetta er alþjóðlegt -því sem næst. Mér þykir gaman að svona, tjah, hvað skal kalla þetta… Internetkommúnum? Samfélögum internetsins? Eitthvað í þá áttina. Ég hef gaman að fólki. Mér finnst gaman að fylgjast með fólki, hlusta á það (í þessu tilfelli lesa það) og velta fyrir mér mismunandi skoðunum fólks. Svo fær maður plús og mínusstig! Maður segir eitthvað, fólk er sammála manni og gefur manni stig! Svo segir maður kannski eitthvað sem fólki líkar ekki og maður fer bókstaflega í mínus. Maður heldur líka upp á afmælið sitt. Fær kökubita við hliðina á notendanafninu sínu! (Svo getur maður reynt að hamstra stigin, kölluð karma, með því að reyna sitt besta til að finna eitthvað frábært í tilefni dagsins). Ég er tveggja ára á reddit. Missti af fyrsta cake-day og núna síðast? Mér datt ekkert sniðugt í hug! Sett mynd af kisu og lét það duga. Stundum grunar mig að redditorar séu meira fyrir ketti heldur en fólk. Það eru óttaleg tröll þarna líka, rétt eins og á öðrum síðum. 

Undirflokkarnir á reddit kallast subreddit. Eitt þeirra er fyrir sjúka aðdáendur andlitsmálningar. Ég elska það. Mér hefur alltaf fundist gaman að mála mig og vera fín. Vera með djúsí varir og dularfull, kynþokkafull augu. Þarna lærði ég að gera það ennþá betur! Og ég lærði líka að laga til á mér augabrúnirnar. (Fyrir ári síðan voru þær hrein hörmung að sjá miðað við það hvernig þær eru í dag, ég fæ oft hrós fyrir þær!) Svo er annað sem er fyrir hálfgerða naglasérfræðinga. Fólkið þarna eru snillingar, mig dreymir um að geta verið með fallegar langar neglur alla daga… 

Svo einn daginn hafði ég gert mitt eigið french nails manicure. Það var fullkomið, hefur aldrei verið jafn fallegt og í þetta skiptið. Ég, stolt af árangri mínum, tók mynd og setti á þetta tiltekna subreddit (með vísun í það hversu stoltur núbbinn ég væri, þetta hefði tekið heilan klukkutíma! -Já, það tók mig klukkutíma að naglalakka mig fallega…) Og getiði hvað?! Innan við 5 mínútum eftir að ég hafði sett myndina mína inn, var eitt stykki tröll mætt! Reyndar mjög illa gert, líklega n00b tröll að reyna að trölla naglalakks n00binn mig. Við vorum nokkur sem lentum í smá samræðum við hann og hann lét sig hverfa eftir afar stutt orðaskipti. Svo hef ég líka lent í karlmönnum sem senda manni mjög svo óviðeigandi skilaboð með kynferðislegu ívafi eftir að það kemst upp að maður sé stelpa… Það getur verið svosem skemmtilegt að rugla smá í þeim (þó það sé ljótt…) en oftast er það bara pínulítið skrítið. Maður veit að í raunveruleikanum myndi enginn tala svona við mann. 
 

        Fólk talar allt öðruvísi saman á internetinu heldur en í alvörunni. Mörgum finnst auðveldara að tjá sína skoðun á internetinu, undir dulnefni, það þarf enginn að vita hver maður er. Maður getur verið hver sem maður vill. Og maður getur sagt hvað sem er við hvern sem er. Samræður geta orðið skrautlegar. Eins og t.d. á omegle.com. Eða chatroulett. Og það er enginn að pæla í því hver maður er, heldur bara í því sem maður segir. 

Það er gaman að þessu, maður er manns gaman. En ég sakna alltaf huga smávegis. Ef við segjum sem svo að reddit sé svolítið eins og New York. Í samanburði er hugi svolítið eins og…ekki móðgast….

Hálfyfirgefinn smábær.

Alveg frábær staður, bara svolítið rólegt. Fólk setur ýmislegt hér og þar. Nokkur komment á sveimi en mikil þögn. Mér finnst það, þið getið svosem verið ósammála mér. Ég mun samt halda áfram að koma hingað og hafa gaman, og sakna þess sem var. Þetta er ef til vill bara eðlileg þróun, hugi er búinn að vera til frekar lengi, síðan árið 2000. Hugi er 13 ára. Hugi er táningur, gæti verið að fermast á næsta ári. Og hér er fólk, á öllum aldri. Mig grunar að hér sé ótrúlega breitt aldurssvið. 

 

    Ég er búin að hugsa svolítið lengi um að skrifa eitthvað hérna, reyna að lífga upp á hlutina. Ég tók sérstaklega eftir þessu down-hilli eftir að nýji hugi kom. Ég satt best að segja var ekkert yfir mig hrifin af honum til að byrja með. Sá ekki ástæðu til að breyta útlitinu á síðunni, en það venst vel. Þetta er frekar skemmtilegt útlit og þægilegt. Iddjótprúff!

Mig langar að lífga aðeins upp á huga. Það eru ef til vill einhverjir þarna úti sem vilja það líka. Svo eru kannski einhverjir hlustlausir eða jafnvel ósammála mér. Ég sting upp á því að fólk taki sig til og finni eitthvað frábært til að setja hérna inn á, á hvaða áhugamál sem er. Svipað og ef maður væri á reddit að halda upp á kökudag! Það frábærasta sem ykkur dettur í hug! Og við skulum skrifa komment hvert hjá öðru. Ég hef tekið eftir því að sumir þræðir eru oft lesnir en ekki endilega mikið af kommentum. Hvers vegna er það? Ég þyki afar málglöð manneskja (eins og þið sjáið hér að ofan) og mér dettur alltaf eitthvað í hug að segja, þó það sé ekki nema eitt lítið hrós, fyrir skemmtilegt innihald eða álíka.

Svo hér er mitt framlag: Ég ætla reyna að finna eitthvað til að skrifa um, í hverri viku.  Ykkur er svo sannarlega velkomið að kommenta. Rífist við mig. Skammið mig. Verið sammála mér. Hvað sem er, það er allt í boði. Þið getið þóst vera hver sem er, þið getið verið þið sjálf. 

 

Ég er strax farin að hugsa um innihald næsta pistils. Hafið það ljúft lömbin góð og takk fyrir lesturinn.

Munurinn á snilld og heimsku er sá að snilldin er takmörkuð.