Að missa trúna Í dag er ég strangtrúaður herskár öfgatrúleysingi. Það bitnar alvarlega á mörgum þar sem grimmd mín og miskunnarleysi nær hámarki í að leiðrétta rangfærslur og rökvillur á netinu. En það var ekki alltaf þannig. Einu sinni ætlaði ég að vera voavoa trúaður kristlingur. Það var í einni af öfgahæðunum mínum, með skvettu af þráhyggju.
Það sem var þó öðruvísi við þessa öfgahæð er að það var engin sérstök tilfinning við hana; enginn drifkraftur. Þetta var bara innantóm ákvörðun sem að ég tók í von um að vera góð manneskja. Þegar maður er 11 ára veit maður oft ekki betur.

Til þess að glöggva sig ögn á aðstæðum kem ég úr “miðstétt”. Báðir foreldrar þó nokkuð menntaðir, bæði í félags- og uppeldisfræðum (uppeldisfræðum, ótrúlegt en satt) og mamma í líffræði. Ég er með nokkur yngri systkini, öll erum við skírð og það örugglega eina skiptið sem að við höfum farið í kirkju… kapellu allavega. Foreldrarnir giftir í kirkju á þennan íslenska hátt; fyrsta skiptið sem stigið er á heilaga jörð frá fermingu. Ef að jarðarfarir eru ekki teknar með. Börnin eru með myndir af blúnduenglum á veggjunum (þú veist, þessar sem amma grefur upp) og bænir. Þegar ég hugsa svona til baka finnst mér það soldið fyndið að plaggat Svarthöfða vék aldrei frá höfuðgaflinum og þurftu englarnir að hanga í kringum hann.

Þetta byrjar smátt; ég sníð mér gylltan kross í stærra laginu úr málmi í smíðatíma til þess að hafa sem hálsmen, kaupi mér róðukross úr viði og kem bænaspjöldum betur fyrir. Ég reyni að láta mikið á þessu bera án þess þó að hafa orð á því. Ég bið bænirnar á kvöldin, eða allavega annaðhvert kvöld, ja eða þá þegar ég nenni því. Alveg frá upphafi er þetta innantómt. Mig langar til þess að biðja borðbænir en hef ekki í mér að trufla matmálstíma til þess. Það væri bara leiðinlegt að trufla þau og vera að sýnast eitthvað svona. Bara að fleiri trúaðir gætu sýnt svona tillitsemi. Bara að fleiri trúaðir gætu breytt eins og Jesú predikaði í a.m.k. eitt skipti. Allavega, ég er feiminn með þetta fyrir framan
fjölskylduna. En vinir mínir, þeir verða sko hissa!
Nei. Reyndar ekki. Það er greinilegt að grunnskólakrökkum gæti ekki verið meira sama um trúarbrögð.

Þó að ég gæti ekki sýnst fyrir fólki ákvað ég samt að halda áfram að reyna að vera kristinn. Ég fór að einbeita mér betur inn á við, að Guði. Ég leiddi hjá mér allt sem ég vissi um þróunarkenninguna. Engin afneitun, jafnvel 11 ára gerði ég mér góða grein fyrir því um hvað hún fjallaði auk jarðsögunnar (ég hef alla tíð tilbeðið risaeðlur meira en Yahweh). Það var bara… ég leiddi hana hjá mér. Tvíhyggja Orwells hlýtur að virka svona. Ég taldi mér trú um að ég tryði á þennan almáttuga skapara alls og hans sögu en jafnframt vissi ég að jörðin væri milljarða ára gömul og að tegundir þróist. Undarlega auðvelt. Hættulega auðvelt.
En Guð varð á móti að gera eitthvað fyrir mig. Það þekkja allir þessar klassísku bænir krakka. Ég var hinsvegar aðeins klókari en að biðja beint um Star Wars kalla og fleiri tölvuleiki. Slíkt var bara frekja. Miklu snjallara var að biðja til hins algóða almáttuga alvitra Guðs, segja honum aðeins frá góðverkum sínum og á meðan hugsa hvað það væri ágætt, án þess þó að biðja neitt sérstaklega um það, að fá þúst bara… einn actionkall, en bara sko ég er ekkert að biðja um það, það er algerlega undir þér komið ´ó-þú-langbesti, bara það væri allt í lagi skoþúst, myndi alveg fíla það.
Svo já, allt gott sem gerðist var guðs. Ef ég bað um eitthvað og það rættist þá HALELÚJA hann hlustar og er til.

Eitt sinn týndist kötturinn minn. Alveg týndist. Heilir tveir dagar liðnir og ungur fress ekki
kominn heim. Hvað er í gangi?
Það kvöld bað ég til Guðs með tár í augunum um að kisi kæmi aftur. Ég yrði alltaf góur og takk gvuð og allt slíkt.
Og viti menn! Kötturinn kom aftur! Dýrð var drottni þann dag er kisa kom heim eftir tveggja daga fjarveru og stökk beint að matardallinum. Slíkt gerist ekki á hverjum degi að kettir fari á flakk og komi aftur svangir. Greinilegt að kosmískur kraftur Guðs hafi þar leiðbeint kisa heim.

Mánuði síðar varð kötturinn fyrir bíl. Ég var alveg eyðilagður.
En aldrei kom guð mér til hugar þegar ég syrgði. Allavega ekki sem sökudólgur.

Svo leið partur úr ári og var orðinn tólf ára og þetta tók sig upp aftur. Í þetta skipti gerði ég svolítið róttækt sem fáir kristlingar myndu leggja á sig að gera; ég tók upp Nýja Testamentið og las í því. Eintak af þessari bók hafði ég keypt af Gídeon félaginu með bæn.
Nýja Testamentið er ekki beint besta lesning fyrir tólf ára krakka. Nýlega hafði ég gefist upp á Gerplu Laxness. Þetta var þó flóknara. Mér til afsökunar var það áætlun Yahweh að hafa textann flókinn og rugla fólk í átt til glötunar. Ég klóraði mig áfram í gegnum Mattheus, reyndi að sjá eitthvað af þessum góða boðskap sem þarna átti að dansa um. Þarna átti ég að sjá grunn mannréttinda vestrænnar siðmenningar og máttugasta og
fallegasta siðferðislega grundvöll sem mannkynið á völ á. Ég hlaut að vera lesblindur eða eitthvað álíka. Það sem ekki var einfaldlega ófyndið rugl var bara ljótt og mótsagnakennt. Það sem fékk mig til þess að leggja niður bókina og spyrja einhvern út í var Matteus 10:21.
Heilalaus hirðingi
Bróðir mun selja bríður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum sínum og valda þeim dauða.
Þetta var í algerri mótsögn við boðorðin! Mamma hlaut að hafa svar við þessu. Það bara gat ekki verið að eitthvað svona ljótt væri þarna hjá upphafsmanni kærleiksins.
Hún þurfti greinilega örlítinn fyrirvara til þess að geta komið með almennilega grænsápu. “Ja, jú… þetta er bara svona… ég veit það ekki” og hraðar sér í burtu. Á þessu heimili voru trúarbrögð kannski ekki stunduð ákaflega en þau bar að virða og ekkert slæmt gat verið í þeim, sérstaklega ekki kristni.
Ég hélt áfram, ekki lengur eins og kanínan gegnum engið eins og ég hafði ætlað að vera heldur eins og fjársjóðsleitarmaður í dýflissu fullri af gildrum. Einhversstaðar hlaut hinn gullni boðskapur að vera.
Það sem fékk mig til þess að leggja Nýja Testamentið niður fyrir fullt og allt í nokkur ár
var Markús 5:1-20.
Annar heilalaus hirðingi
5
1Þeir komu nú yfir um vatnið í byggð Gerasena. 2Og um leið og Jesús sté úr bátnum, kom maður á móti honum frá gröfunum, haldinn óhreinum anda. 3Hann hafðist við í gröfunum, og enginn gat lengur bundið hann, ekki einu sinni með hlekkjum. 4Oft hafði hann verið fjötraður á fótum og höndum, en hann braut jafnóðum af sér hlekkina og sleit fjötrana, og gat enginn ráðið við hann. 5Allar nætur og daga var hann í gröfunum eða á fjöllum, æpti og lamdi sig grjóti. 6Þegar hann sá Jesú álengdar, hljóp hann og féll fram fyrir honum 7og æpti hárri röddu: “Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég særi þig við Guð, kvel þú mig eigi!” 8Því að Jesús hafði sagt við hann: “Þú óhreini andi, far út af manninum.” 9Jesús spurði hann þá: “Hvað heitir þú?” Hinn svaraði: “Hersing heiti ég, vér erum margir.” 10Og hann bað Jesú ákaft að senda þá ekki brott úr héraðinu. 11En þar í fjallinu var mikil svínahjörð á beit. 12Og þeir báðu hann: “Send oss í svínin, lát oss fara í þau!” 13Hann leyfði þeim það, og fóru þá óhreinu andarnir út og í svínin, og hjörðin, nær tveim þúsundum, ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði þar. 14En hirðarnir flýðu og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, 15komu til Jesú og sáu haldna manninn, sem hersingin hafði verið í, sitja þar klæddan og heilvita. Og þeir urðu hræddir. 16En sjónarvottar sögðu þeim, hvað fram hafði farið við haldna manninn, og frá svínunum. 17Og þeir tóku að biðja Jesú að fara burt úr héruðum þeirra. 18Þá er hann sté í bátinn, bað sá, er haldinn hafði verið, að fá að vera með honum. 19En Jesús leyfði honum það eigi, heldur sagði: “Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur.” 20Hann fór og tók að kunngjöra í Dekapólis, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört, og undruðust það allir.


Nú var mér nóg boðið. Ég hafði yfirgefið hinn stórundarlega Mattheus og opnað kærleiksboðskapinn á handahóskenndum stað bara til þess að finna skammsýnan ef ekki illgjarnan kaldhæðinn Jesú. Fínt hjá honum að lækna manninn, en var hann betur settur að svelta til dauða heldur en að vera andsetinn? Hvað með fólkið í þorpunum? Jesú hafði óhreinkað öll svínin og drekkt þeim, þar með var maturinn fyrir fjölda fólks horfinn. Tvö þúsund svín drukknuð og andsetin. Hvort var þetta skammsýni hjá Jissa eða gráglettni? Ég yfirgaf allavega alla hugsun um að vera kristlingur þann dag, hvort sem ég gerði mér grein fyrir því eða ekki. Ég hugsaði eftir þetta lítið um trúarbrögð, enda brenndur og svikinn eftir kolklikkaðan Jesú og hann sjálfan þversagnapabba sinn Yahwhe.


Nú er ég fjórtán ára og búinn að vera neyddur í fermingarfræðslu. Ég hef ekki beint verið trúleysingi, né heldur efasemdarmaður. Ég bara trúði ekki á neinn guð, né afneitaði slíkum neitt sérstaklega. Það voru bara engar vangaveltur um trúarbrögð búnar að eiga sér stað frá því að ég las Nýja Testamentið. Ég sagði við mömmu mína sem var sú eina sem sýndi fermingarfræðslunni áhuga að ég væri ekki kristinn og vildi ekki fara í þessa fræðslu. Hún svarar að ég geti ekki sagt neitt slíkt, að ég þurfi að fræðast um ferminguna fyrst áður en ég geti sagt eitthvað um hvort ég vilji fermast eða ekki. Ég spyr hvort að ég ætti þá ekki að taka einnig siðfræðslu ásatrúarfélagsins, bar-mitzvah fræðslu eða borgaralega fermingarfræðslu. Þá kemur gullin lína: ,,Ég er ekkert góð í rökræðum, rífstu bara við pabba þinn"
Í dag myndi ég bara segja hreint NEI við þessu einka peningaplokki ríkiskirkjupresta og upphafi að lögbroti. En ég var ekki jafn herskár og öfgafullur á þeim tíma. Ég sótti áfram innihaldslausa tímasóun grænsápuguðfræði þar sem jafnaldrar mínir hlökkuðu bara til veitinga í boði skólans (sem bauð einnig upp á húsnæði og breytt tímaskipulag í ræstingum). Þetta var virkilega þreytandi. Niðurlæging jafnvel. Um þetta leiti fór ég fyrst að pæla í aðskilnaði ríkis og kirkju og það varð að minni fyrstu grein á hugi.is. Ég veit ekki hvað kom mér til þess.

Ég fermdist ekki.
Fyrir það fékk ég hrós fyrir að vera sjálfstæður frá ættingjum en eitthvað sem að ég túlka enn í dag sem kulda frá foreldrum. Ekki skil ég hversvegna og það er örugglega rangtúlkun hjá mér.
Þessi hrós um sjálfstæði hafa seinna nýst mér sem umhugsunarefni um hjarðeðli trúarbragðanna og hvernig fólk leitast við að yfirgefa ekki ríkiskirkjuna.

Við þetta varð mamma alveg semi brjáluð og ásakaði mig um hroka. Hrokinn var víst fólginn í því að svo mörg kraftaverk hefðu gerst við fæðingu mína og svo margir beðið fyrir mér að Guð hefði sent engla að hjálpa mér. Þá þagði ég, enda ekki herskár öfgamaður.
Í dag hefði ég sagt að hún væri að vanmeta getu lækna og hjúkrunarfólks, að þakkirnar ættu að fara til þeirra og þeirra sem fleytt hafa læknavísindunum áfram en ekki einhvers ósýnilegs álfs sem hafði ekkert með fæðingu mína að gera.

Auðvitað komu bakþankar um mammon veislunnar. Guð hvað mig langaði í svoleiðis. Peningana, ættingjarnir mega alveg sleppa sér en ég skal þola þá fyrir hið fyrrnefnda, tölvu, bækur (það var mér ráðgáta afhverju þeim er skipt út af svo mörgum,
svo mundi ég að það var bók sem fékk mig til þess að afþakka fermingu, leiðinleg fyrirbæri) og jafnvel, svolítið sem að mig hefur alltaf langað í; mína eigin myndasýningu og gamansama ræðu um mig.
Að fermast svo eftir að hafa neitað einu sinni væri neyðarleg græðgi í besta falli. Nú hvað gerir þá sá unglingur sem langar í veislu og gjafir en er mjög óhress með kristni?
Borgaraleg ferming kemur væntanleg fljótt upp í kollinn, en ég hafði mjög litla vitneskju um slíkt á þeim tíma. Nei, ég heillaðist af ásatrúarfélaginu.
Það var svo sem augljóst. Ég er og hef alltaf verið félagslegt úrhrak. Úrhrak sem hefur heillast af goðsögnum og þá sérstaklega norrænni. Júbb, hér eftir var ég ásatrúar. Sama hvað svo sem það þýddi. Ef það þýddi þá eitthvað. Hvað heillar ungan nörda meira en að dúbba sig upp sem víking og fara með ljóð í kringum varðeld?
Ég bullaði eitthvað um virðinguna fyrir náttúruna og menninguna. Fólk í kringum mig kinkaði bara kolli og klappaði mér á bakið. Nokkrum mánuðum síðar fór ég á minn fyrsta siðtökufræðslufund. Hann var ágætur. Fólk með alltof flott hár og skegg að fá sér veitingar í flott skreyttu húsnæði og hlusta á sögur af goðum og landnámi. Þetta var skemmtilegt, ég játa það skammarlaust að ég hef einstaka ánægju af því að fræðast um víkinga og baktala ríkiskirkjuna (ef það vantaði umræðuefni þá bara þetta: þið/við erum allavega skárri en Þjóðkirkjan og allir sem eru með trúboð).
Hugmyndir mínar um siðtöku voru óljósar en hurfu svo með öllu. Fundirnir liðu án þess að ég mætti, sem var aðallega skortur á að skutla mér. Það var líklegast gott, á þeim tíma hugsaði ég mikið um hvað ásatrú væri. Ég vissi alveg að Óðinn, minn eftirlætis gaur enn í dag, væri ekkert til og hætti að nenna að taka tvíhyggjuna á það. Froðan um virðingu fyrir náttúrunni hvarf.
Ég get alveg, líkt og ég hef alltaf gert, verið dýraelskandi og latur náttúruverndarsinni. Ásatrú kom því nákvæmlega ekkert við.

Þarna hef ég væntanlega orðið að þessum stórhættulega öfgatrúleysingja.
Það hafði verið einhver virðing fyrir trúarbrögðum allt í kringum mig, þau voru gerð ósnertanleg. Á tímabili hafði ég meira að segja neitað að hlæja að brandara Mel Brooks í History Of The World Part 1
Comicus: Have you heard of this new sect, the Christians? They are a laugh riot! First of all, they are so poor…
Swiftus: How poor are they?
Comicus: Thank you! They are so poor… that they only have *one* God!

En núna veit ég betur. Fornaldarskruddur og andans froðunsakk er ekki lengur eitthvað sem ber að vernda í mínum öfgaheimi.
Ég sé núna að kristnin er hefndarboðskapur afbrýðiseminnar og fjöldamorð í nafni fáfræðinnar og ásatrú bara stefnulaust menningar og náttúru snakk í nafni annarrar drápsóðrar menningar. Það er mikilvægt að fræða sig um trúarbrögð, ég veit miklu betur í dag hversu mikið kjaftæði er í gangi heldur en þegar ég var trúaður, kjaftæði flokkað sem menningarverðmæti og persónulegt skaðlaust gæludýr. Því meira sem að ég fræðist um trúarbrögð því meira verð ég sannfærður um hversu óæskileg þau séu.

Talið eins mikið og þið viljið um Vantrú, Dawkins eða Randi sem trúboða trúleysis; í mínu lífi er boðberi trúleysis númer 1, 2 og 3 Nýja Testamentið.

Það að ég hafi skipt um skoðun varðandi trúarbrögð hefur skipt mig miklu varðandi margt annað. Ég hélt einu sinni að sósíal fasismi væri málið. Hah! Einu sinni ætlaði ég meira að segja að ganga í vísindakirkjuna. Nafnið er alltof villandi. Í dag er mun auðveldara fyrir mig að skipta um skoðun, en rökin þurfa að vera betri en áður.

Ekki skilja það þannig að ég sé búinn að gleyma hvernig það sé að vera trúaður, jafnvel þó að ég hafi aldrei orðið sanntrúaður (getum kallað það andlegan sjálfsþrældóm). Ég skil trúað fólk, a.m.k. froðusnakks trúaða. T.d. valkristið ríkiskirkju fólk sem tekur þann Jesú sem því hentar og er í ríkiskirkjunni af venju, hefðin fyrir öllu. Jesú er góður vegna þess að prestarnir segja það og allir apa upp eftir þeim og það er sumur góður boðskapur í kristninni og hún er bara grunngildi okkar og öll mannréttindi þaðan. Svona fólk sem hefur væntanlega ekki haft fyrir því að lesa Nýja Testamentið, allavega leitt hjá sér slæma stöffið.
Ég skil það vel og þykist vita að þeir sem titla sig sem “trúarlega” (spiritual) séu að reyna að búa til einhverskonar varnarstimpil gegn öfgatrúleysi grárrar mannvonsku. Það vill alls ekki bendla sig við þessa ógn mannlegs eðlis sem ríkisbiskupinn gerir svo oft að rökstuddu umtali sínu.
Öfgatrúaðir Biblíistar og sköpunarsinnar verða mér þó áfram heilabrjótur þar sem að ég vill ekki setja þá alla sem geiðveika.

Fjórtán ára varð ég trúleysingi til góðs eða ills. Samt var ég áfram skráður í ríkisstofnunina Þjóðkirkju Íslands. Sama hvað ég vældi vildi mamma aldrei skrifa undir eyðublaðið. Ég hékk í kringum hana allan daginn með pennann og blaðið en hún var „bara of upptekin“. Vegna þess að það að skrifa nafnið sitt tekur mestan part dagsins. Ekki einu sinni þegar hún sat við tölvuna og einhver vefsíða var einstaklega lengi að hlaðast: nei, hún var of upptekin við að stara þreytulega á skjáinn.
Það var ekki fyrr en í febrúar á þessu ári að ég fékk hana til þess að skrifa undir (Ólafur bastarður Skúlasonar málið komið aftur í gang og hún væntanlega fúl, hékk samt áfram í kirkjunni). Hefði ég beðið í mánuð hefði ég getað skráð mig úr kirkjunni sjálfur enda orðið sextán ára. Þessari úrsögn var því væntanlega tekið sem mótmæli við Kalla biskhopp og hans klíkukóna í því misnotkunarmáli. Það var hluti af því, en því miður lítill.
Alla tíð fyrir það höfðu Kalli og co. í Hræsni ehf. getað rúnkað sér yfir þessari ranglátu skráningu minni og hreykt sér yfir því að ég væri alveg greinilega og ófrávíkjanlega kristinn og styddi Þjóðkirkjuna.

Ég er sem betur fer ekki hluti af þessum miðaldaklúbbi hræsnara. Fyrir það borga ég skatt; trúleysisskattinn*.

Það er kannski u.þ.b. ár síðan ég fór að pæla í guði og guðum, hingað til hafði ég bara hrist hausinn yfir ósamræmi ritninga ýmissa trúarbragða. Ég hafði aldrei heyrt nein önnur rök en þau að heimurinn væri til ergo guð og ekki væri hægt að afsanna guð ergo guð.
Þá rann það upp fyrir mér hvað þessi guð var: Bara asnalegur.
Ef að menn hafa trúað á guði í þúsundir ára og þetta það besta sem við höfum geta komið með, það besta sem trúaðir guðfræðingar á hálfrar millu króna launum geta komið með, þá hlaut eitthvað að vera að. Aðallega skortur á tilvist goðmagna.

Ef að einhver segir í athugasemd ,,ó, svo þú staðhæfir að guð sé ekki til? sannnaðu að guð sé ekki til!“ þá langar mig til þess að viðkomandi geri
a) afsanni fljúgandi spagettískrímslið
b) sanni að fljúgandi spagettískrímslið sé ekki til

Eða Voldemort eða búálfar eða einhyrningar.
Eftir þetta fór ég að fræðast meira um rökvillur trúarbragðanna, að lokum algerlega sannfærður um trúarbrögð sem slæm eftir South Park þættina Go God Go.

Ég hélt að menn þyrftu að vera trúaðir til þess að vera góðir. Í dag myndi ég ekki velja mér eina einustu bók til þess að leiða mig í gegnum siðferði, síst af öllu bók eftir fáfróða margrotnaða heimsendaspámenn.
Mitt siðferði er það sem ég fæddist með og hefur mótast af uppeldi. Og það tekur breytingum. Það getur alltaf tekið breytingum og ég er stoltur af því.

Það er hægt að yfirgefa blinda leið fáfræðinnar. Stundum þarf mikið til, stundum lítið. Hjá mér var það að fræðast meira um fáfræðina sem var leiðin í burtu. Ég er ekki bara að tala um trúarbrögð, heldur allar skoðanir.
Það er kannski öfgafullt, og segið endilega að það sé trúarbragð, en ég ætla að gerast svo öfgaofbeldisfullur í mínu trúleysi að ég ætla að rífa kjaft og ybba gogg á netinu þar til ég drepst.

*Ég veit að það eru fleiri en trúlausir og efahyggjufólk sem er skráð utan trúfélaga, trúleysisskattur hljómar bara betra en utan-trúfélagaskattur.