Kæru hugarar.

Þar sem mér finnst umræðan um gagnrýni notenda á málfar og stafsetningu annarra mikilvæg jafnt sem fræðandi og nauðsynleg fyrir okkur öll, ákvað ég að týna til nokkur rök sem mér fannst þurfa svara við í tilkynningu minni á /forsida.

Þessi rök notenda eru úr hinum ýmsu svörum. Þar sem ég vil svara þeim rökum sem sjálfstæðum umræðupunktum fremur en svörum til þeirra sérstaklega er þetta sögðu (enda margir á sama máli með hin ýmsu rök þannig að um engan einn er að ræða) hef ég ákveðið að birta ekki nöfn þeirra notenda sem sögðu það sem á eftir fylgir.
——————————————————————–

Fólk lærir ekki ef því er ekki bent á mistökin.

Þetta er mörgu leyti satt og rétt. Hinsvegar er það ávallt réttur einstaklinga að ráða hvort hann vilji leiðréttingu á mistökum sínum eður ei.

Hugi.is er samfélag á netinu er snýst að áhugamálum og spjalli um dagleg málefni, ekki skólastofa þar sem íslenska er aðal málefni. Sem slíkur er það réttur hvers og eins að velja hvort hann sæti gagnrýni og ábendingum á málfari og/eða stafsetningu eður ei.

Það virðist vera almennur tónn á hugi.is að þið hafið fullan rétt til þess að benda fólki á mistök í málfari og stafsetningu. Það er ekki svo. Ræktun á móðurmáli sínu er líkt og stund á hreinlæti. Bæði krefst ástundar og áhuga til betrunar til að vera framkvæmt iðulega og af metnaði. Báðar þessar athafnir líkt og margt annað í okkar lífi hefur með persónufrelsi einstaklings að gera.

Tökum dæmi.

Segjum sem svo að þið mætið illa lyktandi einstakling á Laugaveginum. Þegar hann gengur framhjá ykkur fáið þið hnút í magann af ólyktinni.

Þrátt fyrir að þetta ætti sér stað er ég nokkuð viss um að þið mynduð ekki stöðva manninn, halda fyrir nefið og segja: „Hey, drullaðu þér í bað maður. Þú lyktar eins og skítur“ [neikvæð gagnrýni]. Þið mynduð heldur ekki segja: „Afsakaðu. Má ég koma með ábendingu? Þú lyktar miður vel. Má ég benda þér á fara í sturtu?“ [jákvæð gagnrýni].

Meira að segja aðstaðan fyrir jákvæða gagnrýni hljómar undarlega. Af hverju? Vegna þess að gerum okkur almennt grein fyrir að það er réttur þessa manns, sama hversu undarleg ákvörðun það nú er, að fara ekki í sturtu ef hann svo óskar. Einnig geta margar ástæður legið fyrir óhreinlæti hans sem gera það að verkum að hreinlæti er annað hvort erfitt í hans lífi eða jafnvel ómögulegt, svo sem geðklofi (því fylgir oft mikil vanhirða), fátækt (þó sjaldnast hér á Íslandi), andlegar fatlanir af ýmsu tagi, o.s.frv. Einnig má það einfaldlega vera að persónuleg vanhirða sé hans val.

Við gerum okkur almennt grein fyrir því að það er hans persónulega val eða ástand að hann fer ekki í sturtu, sem og að það er ekki okkar starf né í okkar rétti að benda á eða biðja um að hann fari í bað.

Hvenær er það þá okkar réttur að skipta okkur af slíku?

Tökum annað dæmi.

Ef þessi sami einstaklingur færi að vinna í sama fyrirtæki og við sem og í sömu skrifstofu þar sem ólyktin af honum væri að gera útaf við samstarfsmenn hans, þá væri staðan önnur. Þá værum við komin í þær aðstæður að við hefðum ekkert val annað en að vera á sama stað og þessi umræddi maður – og þar af leiðandi væri ólyktin af honum að trufla okkur við okkar starf sem og valda okkur beinni vanlíðan sem við gætum lítið sem ekkert gert í til að koma í veg fyrir.

En er það ekki einmitt staðan á hugi.is?

Nei. Það er nefnilega ekki svo. Huga á frekar líkja við fyrrnefnt fyrirtæki. Fyrirtækið væri þá risastórt með endalaust af herbergjum; öll sem við gætum unnið okkar störf í og aðstaðan væri sú sama hvar sem er. Þrátt fyrir að fyrirtækið væri deildarskipt [mismunandi áhugamál huga], þá hefði hver deild nægilega mikið af herbergjum til að þessi einstaklingur þyrfti aldrei að vera til trafala. Það eina sem við þyrftum að gera til þess að forðast þennann mann væri að standa upp og ganga yfir í næsta herbergi, sem tæki okkur innan við eina sekúndu (ýta á „BACK“ takkann). Einnig væri það í okkar fulla rétti að algjörlega hunsa hann ef það væri okkar vilji, hvort sem hann væri að reyna að kynna fyrir okkur sín eigin verkefni eða koma með gagnrýni á verk annarra. Ef þessi maður færi að sýna einhverskonar ágengni myndu yfirmenn fyritækisins grípa inn í líkt og með aðra starfsmenn fyrirtækisins.

Það eina sem hér vantar uppá er að fyrirtæki hafa almennt reglur um hreinlæti. Hugi.is hefur hinsvegar engar reglur eða skyldur um rétt málfar og/eða stafsetningu.

Þannig að þið sjáið að í raun hafið þið engan alvöru rétt til að gagnrýna málfar og stafsetningu annarra á hugi.is þar sem hann er í fyrsta lagi ekki vettfangur fyrir kennslu í íslensku og í öðru lagi þá hafi þið nægilegt svigrúm þar fyrir innan til að leyfa fólki brúka sitt persónulega frelsi í leti er kemur að málfari okkar ef það svo óskar án ykkar afskipta.

Það eina sem þið megið í raun og veru gera án þess að sýna tillitsleysi og ágengni í garð annarra er að bjóða tilteknum einstakling upp á lagfæringu og/eða gagnrýni (eða ef sá einstaklingur óskar eftir því að fyrra bragði). Ef þið gerið það ekki eru þið í raun og veru að brjóta almennt viðurkenndar, þó að mestu óskrifaðar, reglur um kurteysi, tillitssemi og virðingu fyrir persónufrelsi einstaklingsins.

[...] það þýðir ekki að villurnar eigi bara fá að vera í friði

Sjá svarið hér fyrir ofan. Þetta er spurning um persónulegt frelsi einstaklingsins sem og óbeina skyldu okkar samkvæmt (að mestu) óskrifuðum reglum samfélagsins er segja að okkur beri að leiða það hjá okkur.

Lesblinda kemur ekki í veg fyrir að fólk noti leiðréttingarhugbúnað þegar hann er öllum
aðgengilegur á netinu.


Sjá svarið hér fyrir ofan. Það er og mun vera val fólk að gera slíkt ef það svo óskar. Ykkur er frjálst að benda fólki á að hugleiða það hinsvegar.

Það er nú líka þannig að þegar fólk sendir frá sér texta með lélegu málfari þá tekur maður einfaldlega minna mark á þeim einstaklingi.

Það má vel vera, en er þó persónubundið. Persónulega virði ég mismunandi viðhorf einstaklinga. Þótt það sé mitt viðhorf að halda til haga eftir bestu getu kunnáttu minni í málfari og stafsetningu geri ég mér að fullu grein fyrir því að slíkt er ekki endilega viðhorf annarra. Þá geri ég mér einnig grein fyrir því að það þarf ekki að vera minna varið í það sem sá einstaklingur hefur fram að færa í formi hugleiðinga og rökhugsunar. Efnisinnihald greinar hans og/eða þráðar má vel vera fullt af innsæi, skynsemi og merkum hugleiðingum þótt stafsetningu og/eða málfari hans sé ábótavant. Ef ég hef mögulega áhuga á innihaldi illa skrifaðra þráða/greina kem ég mér í gegnum þá með herkjum og spái í innihaldi þeirra, annars leiði ég þá einfaldlega hjá mér.

[...] þar sem mér finnst það bara vera dónaskapur að ætlast til að ég lesi svo illa skrifaðan texta.

Það er engin að ætlast til þess. Þú hefur ávallt möguleikann á að ýta á „BACK“ og leiða viðkomandi svar eða stofnaða grein/þráð hjá þér.

Svo eru held ég aðeins of margir að skýla sér bakvið lesblindu og nota það sem afsökun til þess eins að þurfa ekki að læra stafsetninguna almennilega.

Það má vel vera, en enn vitna ég í svar mitt við fyrstu tilvitnuninni. Þetta er spurning um persónulegt frelsi einstaklingsins til að hegða sér eins og hann óskar, sem og óbeina skyldu okkar samkvæmt (að mestu) óskrifuðum reglum samfélagsins er segja að okkur beri að leiða það hjá okkur.
————————————————————–

Ég ætla ekki að hafa það lengra í bili. Endilega haldið áfram rökræðum um þetta málefni og komið með ykkar skoðun.

Leiðrétting á stafsetningu og málfari er vel þegin.