Tiny Toon Adventures - 1. Hluti (Fyrsti hluti af tveimur af fyrsta hluta í þríleiknum)

Hvað get ég sagt? Níundi og tíundi áratugar síðustu aldar gáfu okkur einhverja bestu teiknimyndiaþætti sem sögur fara af. Þó svo að flest okkar voru annað hvort of ung eða ekki fædd þegar þeir voru upp á sitt besta má samt segja að það finnst allavega einhver smá vottur af nostalgíu þegar við sjáum brot frá þessum verkum. Sjálf er ég fædd árið 1991 og þar með missti ég af blómaskeiði langflestra þessara þátta eða var of ung til að skilja nokkurn skapaðan hlut. Aftur á móti var ég svo „heppin“ að gamla góða Cartoon Network var (og er reyndar enn í dag) mikið í því að endursýna þætti. Meðal þess sem ég sá á sínum tíma voru meistaraverk Stevens Spielberg og félaga: Tiny Toon Adventures, Animaniacs og Freakazoid og eru það þessir þættir sem ég ætla að fjalla um hér. Byrjum á því sem startaði þessu öllu saman:

TINY TOON ADVENTURES - 1990-1995

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=FWwEMZ5xqy0&

Allt byrjaði þetta þegar hreyfimyndadeild (e: Animation Department) Warner Brothers var „endurlífguð“, svo að segja. Hugmyndin kom upp á yfirborðið þegar Terry Semel, þáverandi forstjóri fyrirtækisins, langaði að gera þætti um yngri útgáfur af hinum heimsfrægu Looney Tunes persónum. Þættirnir áttu fyrst að vera þannig, svipað eins og vinsælt var að gera á þeim tíma; að yngja frægar persónur (ss. Prúðuleikarana í Muppet Babies, steinaldarfólkið í Flintstones Kids og Scooby Doo og félaga í A Pup Named Scooby Doo). Hugmyndinni var varpað til framleiðandans, Steven Spielberg, og leist honum þrælvel á þessa hugmynd. Aftur á móti vildi hann ekki aðeins fjalla um hinar klassísku persónur sem snillingarnir Chuck Jones, Friz Freleng, Robert McKimson og Bob Clampett höfðu skapað mörgum áratugum áður, heldur líka einhverjar nýjar persónur. Lokaákvörðunin var sú að persónurnar yrðu aðeins byggðar á Looney Tunes persónunum en vera ekkert skyldar þeim. Þættirnir áttu upphaflega að heita Tiny Tunes sem augljós tilvísun, en af því að Spielberg var svo hrifinn af orðinu „Toon“ (orðið var fyrst notað í myndinni hans „Who Framed Roger Rabbit“) að því var breytt.

Þættirnir gerast í skáldaða þorpinu Acme Acres, þar sem langflestar persónur bæði Tiny Toons og Looney Tunes búa. Yngri persónurnar ganga í skóla, Acme Looniversity, þar sem þeim er kennt hvernig eigi að vera fyndin (með öðrum orðum, hvernig á að vera „Toon“). Kennarar þeirra eru allir frægar Looney Tunes persónur en þó svo að allir nemendurnir gangi til allra kennaranna eiga sumir sér sérstakan „mentor“ og er það yfirleitt sú Looney Tunes persóna sem þeir eru byggðir á.

Hreyfimyndavinnan við Tiny Toons var mjög frábrugðin öðrum teiknimyndaþáttum að því leiti að teiknararnir notuðu meiri en helmingi meiri af blöðum en þá tíðkaðist. Útkoman varð því mun líflegri og raunverulegri fyrir vikið.

“Í sumum þáttum horfirðu á persónur og þær er mjög stífar; munnurinn þeirra hreyfist og augun blikka, og það er það eina sem þær gera. Í okkar þáttum eru þær meira svona (setur sig í stellingar, hreyfir hendurnar, andlitið og fleira á meðan hann talar): „Hey, hvað segirðu? Hvað er í gangi?““ – Art Vitello, leikstjóri hreyfimyndavinnu.

Annað sem gerir þættina að algjörum gullmola er tónlistin. Ólíkt nánast öllu öðru var tónlistin í hverjum einasta þtti af Tiny Toons skrifuð sérstaklega. Vissulega var upphafsstefið notað í hverjum þætti en hvert einasta litla stef, hver einasta melódía, öll tónlistin sem „talaði“ fyrir aðstæðurnar hverju sinni; allt var þetta skrifað og tekið upp sérstaklega fyrir hvern þátt, og þykir mér persónulega magnað hvernig sería eins og Tiny Toons, sem innihélt jú eitthvað um 65 þætti, gat verið með svona mikla tónlist. Minning Richards Stone lifir enn í minnum þeirra sem sáu þessi meistaraverk á sínum tíma.

Mikið af húmornum í Tiny Toons fór í að gera grín að atburðum líðandi stundar, vísa í gamlar myndir og/eða þætti, og einnig eftirhermur. Vissulega var sjáanlegur húmor líka til staðar (og voru það aðallega persónurnar Plucky Duck, Dizzy Devil, Furrball, Calamity Coyote og Gogo Dodo sem sáu um þá deild) fyrir yngstu kynslóðirnar en faldir orðaleikir, skondnar paródýur og skemmtilegar tilvísanir gerðu þættina einnig að áhorfi fyrir þær eldri. Það má því segja að Tiny Toons hafi getað höfðað til allra sem kunnu gott að meta, hvort sem um er að ræða teikningar, tónlist, raddleik eða húmor.