Eitt af lögmálum kreppu er sú staðreynd að verðlag versnar og á það sérstaklega við innfluttar vörur. Því miður hefur gengi krónunnar verið ekki neitt til að hrópa húrra fyrir, þvert á móti. Fyrir vikið hefur kostnaðurinn sem hefur fylgt því að spila hlutverkaspil aukist, enda hafa bækurnar hækkað í verði, hvort sem keypt er af Nexus eða í gegnum netið.

Í versta falli kaupir maður færri bækur, nú eða stundar svolítið sem alveg bannað er að nefna. Hin leiðin er sú að við hér heima tökum okkur til búum til efni til sölu sjálf. Það efni hlýtur alltaf að vera mun ódýrara en það sem kemur að utan og það leikur ekki vafi á að markaður er fyrir roleplay efni á Íslandi, annars væri Nexus varla að halda þessu úti.

Það hefur verið gefið út kerfi á íslensku, Askurinn gamli og góði, sem ég held að margir spunaspilarar hérlendis þekkja og hafa kynnst með einum eða öðrum hætti. Nú held ég ekki að það sé sérstök þörf á því að búa til annað íslenskt kerfi og efast um að það sé til stór markaður fyrir slíkt, enda framboð á spunaspilakerfum meira en yfirdrifið nóg. Auðvitað má alltaf kanna það, en mín tilfinning er sú að svo sé ekki.

Hitt er annað mál, hvort ekki megi uppfæra Askinn, búa til ævintýri og jafnvel settings fyrir kerfi sem eru þekkt og í notkun.

Mín tilfinning er sú, miðað við hversu oft ég er beðinn um ævintýri og þess háttar, að spunaspilarar á Íslandi myndu ekki taka illa í íslenskar útgáfur. Auðvitað yrði alltaf ákveðið vandamál með tungumálið, þ.e. skilin á milli tungutaksins í kerfunum annars vegar og íslensku hugtakanna hins vegar. Það verður alltaf til staðar, en ég efast um að nokkur grúppa hér á Frónni spili algjörlega á ensku og aðeins ensku, þar sem meirihluti spilara er íslenskur.

Hvað segið þið, spunaspilarar, hvernig er stemmningin fyrir íslenskri útgáfu á rpg-efni? Er það eitthvað sem er vert að skoða, eða er enska útgáfan svo öflug að ekki er nein þörf á slíku, þrátt fyrir kreppu og hækkandi verðlag?